ÞRÓUN ERLENDRA VERÐBRÉFAMARKAÐA TIL LOKA SUMARS 2020

Ragnar Benediktsson

RAGNAR BENEDIKTSSON ER SJÓÐSTJÓRI HLUTABRÉFASJÓÐA HJÁ ÍV SJÓÐUM HF. RAGNAR SKRIFAR UM ÞRÓUN ERLENDRA VERÐBRÉFAMARKAÐA TIL SUMARLOKA

 

Síðast þegar ég ritaði pistil var ég mikið að velta því fyrir mér hvert markaðurinn væri að fara (sjá hér). Allt myndi þetta snúast um væntingar og trú fjárfesta á hagkerfinu. Rétt og rangt hjá mér. Hagkerfið virðist ekki skipta öllu máli eða hvað? Auðvitað skiptir það máli en það skiptir meira máli hvernig áhrif hagkerfið er að hafa á tiltekin bréf og geira. Á þessum tíma vildi ég meina að nauðsynlegt væri að að vera fjárfestur og fylgja þannig markaðnum svo hann myndi ekki reikspóla frammúr. Á þessum tíma hefur markaðurinn reikspólað frammúr þeim sem voru á hliðarlínunni. Þróunin var umfram mínar væntingar. Ég var þá þeirrar skoðunar, og er enn, að mörg þeirra starfa sem munu tapast vegna Covid-19 munu tapast að fullu en önnur skapist í staðinn. Hagkerfi munu breytast, fólk og fyrirtæki með. Sjá nánari pælingar mínar um framtíðina í lok þessa pistils.

Hagtölur frá BNA komu illa út í maí. Hagfræðingar voru margir á því að hagtölur færu ekki að batna fyrr enn í sumar þar sem ríki voru nýfarinn að opna landamæri og hagkerfið að einhverju leiti farið að taka við sér. Atvinnuleysistölur í BNA fönguðu athygli fjölmiðla. Fjöldi atvinnulausra í upphafi maí var um 25 milljónir einstaklinga en lækkaði í 21 milljón einstaklinga um miðjan mánuðinn. Ég man hversu kjálkinn á mér var aumur eftir skrifborðið þegar maður sá þessar tölur. Þegar frekar leið á maímánuð og sól komst hærra á loft fór mér að líða betur. Vonin stóð til þess að sólin sæi um Covid-19. Húsnæðismarkaðurinn í BNA var óstöðugur heilt á litið en þó hækkuðu nýjar eignir um 0,6% í verði en fjöldi nýbygginga minnkaði á sama tíma um 30% milli mánaða. Það ætti frá mér séð að styðja við markaðinn þegar ástandið verður “eðlilegt” aftur. Mikil óvissa var yfir öllu í sumarbyrjun með miklu falli í væntingavísitölum neytenda.

Allt ofangreint virtist ekki hafa mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn heilt yfir. Bandarísk hlutabréf héldu áfram hækkunum frá apríl og hækkaði S&P 500 vísitalan um 4,7% og lokaði maí í 3.044 stigum og var einungis 5% undir fyrra hágildi þrátt fyrir neikvæðar fyrirsagnir fjölmiðla og mjög neikvæðan tón stærri fjárfesta. Stærri fyrirtæki áttu mánuðinn og voru það tæknifélögin enn eina ferðina sem voru atkvæðamest í S&P 500 vísitölunni. Nýja normið - ”heimavinna” (e. WFH) átti hug margra fjárfesta. Tæknifélög voru orðin að skjóli en restin af markaðnum átti undir mikið högg að sækja. Í raun mætti skipta S&P 500 niður í stór alþjóðleg fyrirtæki og hin sem eru að miklu leyti tengd við bandaríska hagkerfið og er með tekjur nær eingöngu innan Bandaríkjanna.  Miðlungs stór fyriræki (e. S&P 400 Mid Cap Index) voru niður um 14% það sem af var ári þrátt fyrir fínan maímánuð. Enn verr var komið fyrir smærri fyrirtækjum (e. S&P 600 Small Cap Index) sem voru niður um 21% það sem af var áriTæknifélög höfðu hækkað um 38,4% á síðustu 12 mánuðum. Þeir geirar sem voru hvað mest niður eru þeir sem eru hvað mest tengdir raunhagkerfinu s.s. orka, fjármál og iðnaður.

Alþjóðleg hlutabréf utan Bandaríkjanna hækkuðu einnig í maí og átti veikari dollar sinn þátt í því þrátt fyrir aukna spennu milli BNA og Kína. Þróaðir markaðir (e. MSCI EAFE Index) hækkuðu um 4,4%. Fjárfestar bundu vonir við örvunaraðgerðir í Evrópu, bæði frá Seðlabanka Evrópu (e. ECB) og hverju ríki fyrir sig. Seðlabanki Evrópu tilkynnti um endurkaup skuldabréfa á eftirmarkaði sem drógu að sér nýtt fé til Evrópu sem aftur leiddi til styrkingar evrunar. Þrátt fyrir þetta voru hlutabréf þessara markaða niður um 14% frá áramótum í maí lok. Þróunarmarkaðir (e. MSCI EM Index) hækkuðu um 0,8% í maímánuði. Mikil spenna hafði farið að myndast milli BNA og Kína, sér í lagi vegna Hong Kong og þeirra stöðu sem borgin var í eftir aðKínverjar hafa minnkuðu sjálfstjórnarvald borgarinnar og breyting varð á sérstakri stöðu borgarinnar gagnvart BNA í kjölfarið (e. Special Status Designation). Spennan stigmagnaðist þegar bandaríski þingið setti lög sem kröfðust enn frekara eftirlits með kínverskum fyrirtækjum skráðum í Bandaríkjunum, eftir að upp komst um bókhaldssvik Luckin Coffee. Gengi kínverska júansins lækkaði í 7,2 á móti dollar. Asía er um 70% af þróunarmarkaðsvísitölunni og jókst vægi Kína enn frekar í þeirri vísitölu í maí. Japanski markaðurinn var mjög sterkur í maí og hækkaði Nikkei 225 vísitalan um 8,35%. Jénið breyttist lítið og miðað við sterka sjóðstöðu japanskra fyrirtækja með Seðlabanka Japans með sínar örvunaraðgerðir á hliðarlínunni lítur markaðurinn nokkuð vel út.

Seðlabanki BNA byrjaði að kaupa skuldabréfa-kauphallarsjóði (e. bonds ETF’s). Lækkuðu vextir á flest öllum skuldabréfum (e. Investment grade & High Yields) og minnkaði álagið töluvert á milli þeirra. Verð skuldabréfa í þróunarlöndum hækkaði mikið og var greinilegt að markaðurinn vildi taka áhættu. VIX vísitalan (flökt) lækkaði um 19,4% í maí í 27,5 stig sem er töluvert frá 85,5 stigunum sem við sáum í mars. WTI olíuverð hækkaði mikið í maí eða um 88,4% frá 16,5 dollar á tunnu í 35,5 dollar á tunnu. Verð á gulli hækkaði um 2,6% í 1730 dollara á únsu.

Þrátt fyrir mikla óvissu í raunhagkerfinu í júní hækkuðu fjármálamarkaðir enn frekar með innspýtingum bæði frá ríkisstjórnum og seðlabönkum um heim allan. Í BNA hefur efnahagsreikningur Seðlabanka Bandaríkjanna stækkað í 7.000 USD ma. með miklum endurkaupum skuldabréfa og þar með auknu innflæði á hlutabréfamarkað. Hlutabréfamarkaður í BNA hafði ekki hækkað meira á einum fjórðungi í um 20 ár. S&P 500 endaði júnímánuð í 3.100 stigum eða upp um 1,5%. Stærri fyrirtæki hækkuðu um 2%, miðlungsstór fyrirtæki um 1,26% og smærri fyrirtæki um 3,73% í BNA. Enn og aftur voru það tæknifélög sem leiddu hækkanir í júní með mjög sterkan efnahagsreikning, frábæra framlegð og öflug viðskiptamódel.

Þegar maður horfði á S&P 500 eftir að fyrri helmingi ársins var lokið var vísitalan einungis niður um 3,1%. Eitthvað sem mann hefði aldrei geta órað fyrir í þriðju viku í mars. Eftir um 30% hækkun árið 2019 og þvílíkar raunir á fyrri helmingi þessa árs hlutu fjárfestar á þeim tíma að spyrja sig hvernig seinni helmingur þessa árs myndi spilast. Margir hafa eflaust hugsað á þeim tímapunkti að tré vaxa ekki til tunglsins. Tæknifélög voru um 27% af heildarstærð S&P 500 vísitölunar við lok annars fjórðungs en þó ber að hafa í huga að Facebook, Amazon og Google teljast ekki beint til tæknifélaga. Vaxtarfélög vs. virðisfélög “þeir- sem-hafa og þeir-sem-ekki-hafa” - gjáin jókst ennfrekar. Virðisfélög virðast vera mun næmari fyrir hræringum í efnahagsumhverfinu. Bilið milli vaxtarfélaga og virðisfélaga jókst um 5% í júní, 13% á öðrum fjórðungi og 23% á fyrri helmingi ársins 2020. Margir voru á því að seinni helmingur þessa árs yrði tími virðisfélaga.

Alþjóðleg hlutabréf hækkuðu einnig í júní og hækkuðu þróaðir markaðir (e. MSCI EAFE Index) um 3,45% og þróunarríki (e. MSCI EM Index) um 7,36%. Heimurinn hafði fyllst af dollurum með örvunaraðgerðum Seðlabanka Bandaríkjanna auk annarra seðlabanka. Það sem kom fjárfestum líklega mest á óvart var hversu villjugir Þjóðverjar voru að opna tékkareikningin sinn og koma hjólum atvinnulífsins á stað. Þetta hefur aukið trú fjárfesta á samtakamátt Evrópusambandsins. Þróunarmarkaðir hafa verið að gefa betur en aðrir þróaðir markaðir utan BNA og var vísitala þróunarríkja upp um 18,1% á öðrum ársfjórðungi á móti 15,1% hækkun vísitölu þróaðra markaða. Svipaða sögu má segja af alþjóðlegum mörkuðum og mörkuðum í BNA - tæknifélög hafa hækkað mest. Þó höfðu bréf í heilbrigðisgeiranum hækkað töluvert þegar þarna var komið þar sem allir voru að leita að lækningu og bóluefni við Covid-19.

Það var lítið að frétta af ríkisskuldabréfamörkuðum í júní og gaf það ekkert sérstaklega að vera á langa endanum. Seðlabanki Bandaríkjanna hélt áfram sínum kaupum á eftirmarkaði sem hafði jákvæð áhrif á fyrirtækjamarkað. Fjárfestar héldu áfram sínu “risk on” og hélt krafan áfram að lækka. Skuldabréf í þróunarríkjum gáfu vel þar sem fjárfestar töldu nokkuð víst að það versta væri yfirstaðið Covid-lega séð.

Aðrir fjárfestingarkostir fóru að taka við sér í júni með lækkandi dollar og auknum þrótti í hagkerfi BNA. WTI olía hækkaði um 10,7% í júní og lokaði mánuðinum í 39 dollurum á tunnu. Munið, framtíðarsamningar á WTI olíu voru töluvert neikvæðir í mars. Olía hækkaði því um 92% yfirfjórðunginn! Gull hélt áfram að hækka í júní eða um 2,93% og fór yfir 1.800 dollara á tímabili.

Hlutabréf hækkuðu töluvert í júlí og hækkaði S&P 500 um 5,6% og lokaði vísitalan í 3.271 stigum. Þrátt fyrir fyrirferðamikinn  Covid-fréttaflutning og að 1,9 milljónir manna sýktust í BNA , var vísitalan upp um 2,38% frá áramótum. Júlí er uppgjörsmánuður og voru um 2/3 allra félaga búinn að birta í lok mánaðar. 84% þeirra voru með meiri hagnað en greinendur höfðu reiknað með u.þ.b 22% hærri en markaðurinn hafði gert ráð fyrir. Um 40% af félögum innan S&P 500 drógu afkomuspár sínar fyrir árið til baka og verður áhugavert að fylgjast með framvindunni. Tæknifélög innan S&P 500 voru nú á pari við heildarmarkaðinn. Við fengum mögnuð uppgjör frá Apple, Facebook og Amazon (ekki Google). Greinendur hafa hækkað spár sínar töluvert fyrir lokafjórðung 2020 og reikna þeir t.d. með því að tekjur Amazon fari yfir 100 USD ma. Vaxtarfélög héldu áfram að hækka umfram virðisfélög, 7,0% vs. 3,7%.

Alþjóðleg hlutabréf héldu áfram hækkunarferli sínu í júlí, að mínu mati að miklu leyti vegna veikari dollarauk mjög svo jákvæðra frétta frá Evrópusambandinu. Þróaðir markaðir hækkuðu um 2,36% og hækkaði evran um 4,46% á móti dollar, hafði þá ekki verið hærri gagnvart dollar í um eitt árog stóð nálægt 1,17. Þróunarmarkaðir hækkuðu um heil 9% í mánuðinum þar sem dollarinn hafði lækkað um 4,15% gagnvart þeim helstu myntum sem eru í vísitölunni. Mikilvægasta fréttin að mínu mati í júlí var þegar Evrópusambandið samþykkti 1.800 EUR ma. björgunarpakka. Þrátt fyrir að vera mun smærri pakki en sá bandaríski þá sýnir hann samstöðu að mínu mati. Mögulega mun þessi pakki vera merki um sameiginleg ríkisútgjöld Evrópusambandsins. Hagkerfi Evrópu féll um 12,1% milli fjórðunga og þrátt fyrir mjög neikvæðar fréttir mátti finna fyrir smá lífi. PMI vísitölur voru margar komnar yfir 50 (Yfir 50 þýðir vöxtur, undir 50 þýðir samdráttur). Þær vísitölur hafa mun betra spádómsgildi en sögulegar tölur sem hagstofur birta. Það verður að koma í ljós hvort efnahagsbati í Evrópu sé raunverulegur og hvort örvunaraðgerðir Evrópusambandsins og Seðlabankan Evrópu  séu langtíma samvinna eða bara táknræn látbrigði.

Eftirvænting var fyrir fundum Seðlabanka Bandaíkjanna 28. og 29. júlí. Seðlabankinn mun vera á hliðarlínunni og sjá hvernig hlutirnir þróast að sögn seðlabankastjóra. Á þeim tíma voru uppi skoðanir um að verðhjöðnum væri möguleg í hagkerfnu vegna veikrar eftirspurnar. Powell lét hafa eftir sér að vextir gætu haldist lágir endalaust (stór orð). Ávöxtunarkrafa á bandarísk ríkisskuldabréf hélt áfram að lækka og var það langi endinn sem lækkaði töluvert. Líftími er ennþá besti vinur skuldabréfaeigenda. Þegar þarna var komið við sögu gat stutti ríkisendinn vart farið mikið neðar án þess að fara í mínus. Langi ríkisendinn var samt með eina hæstu kröfuna í þróuðu ríki. Bera fór á aukinni tíðni gjaldþrota í júlí en þrátt fyrir það lækkaði krafa á fyrirtækjabréf yfir allt rófið. Hvað veldur? Mögulega allt of mikil hækkun kröfunnar í mars sem er bara enn að koma til baka. Einnig má velta fyrir sér hvort að  ávöxtunarkrafa á ríkisbréf sé komin það langt niður að ávöxtunarkrafa á  fyrirtækjabréf “verði” einfaldlega að lækka með svo að fjörið geti haldið áfram.

Fjárfestar hafa verið að færa sig í gull vegna lækkandi dollars, lækkandi ávöxtunarkröfu auk neikvæðrar raunkröfu. Þetta hefur keyrt verð á gulli upp og hækkaði það um tæp 11% í júlí. Gull hafði þá hækkað um 30% frá upphafi árs 2020. Líklega er um skammtímahreyfingu að ræða en hún gæti samt endað langvinn að mínu mati. Ég velti því fyrir mér hvort orð Powell seðlabankastjóra Bandaríkjanna - “rates would remain low, indefinitely “- og áhyggjur markaðarins um hækkandi verðbólgu hafi þar mikil áhrif. Ég gæti vel séð það gerast að verðbólga hækki en vextir verði enn á sama stað. Við höfum við snúið okkur í auknum mæli að verðtryggðum bandarískum ríkistryggðum skuldabréfum. Verð á olíu hækkaði um 2,6% í júlí og var WTI tunnan á 40 dollara. Það er mín skoðun að olían gæti tekið stökk upp á við á næstu 6 – 12 mánuðum vegna aukinnar eftirspurnar auk minnkandi fjárfestinga í olíugeiranum.

Hagkerfi Bandaríkjanna sýndi bata í ágúst og voru flestar hagtölur á þá vegu að batinn yrði fljótari en flestir höfðu reiknað með. Hinsvegar var atvinnuleysi enn frekar hátt miðað við margar aðrar þjóðir sem Bandaríkjamenn vilja bera sig saman við. Maður spyr sig hvort að auka atvinnuleysisbætur upp á 600 dollara á viku sé meginástæða þess að atvinnuleysi reynist enn svo hátt í BNA. Meðallaun á unna klst. hækkuðu um 0,2% milli mánaða og um 4,8% milli ára. Bandaríska þingið samþykkti aðgerðapakka sem framlengdi 600 dollara auka atvinnuleysisbætur en um mánaðamótin lækkuðu bæturnar niður í 400 dollara aukalega á viku. Verður áhugavert að sjá hvernig atvinnuleysistölur koma út og sömuleiðis atvinnuþátttaka í september. Húsnæði hækkaði ekki milli mánaða en árstakturinn er enn í 3,46% hækkun milli ára. Húsnæðisverð lækkar þó í stórborgum eins og New York, Boston og San Francisco.

Hlutabréfaverð snarhækkaði í ágúst og hækkaði S&P 500 um 7,2% í mánuðinum og hefur vísitalan hækkað fimm mánuði í röð. Það eru um tveir mánuðir í kosningar í BNA og markaðir hækka enn með mesta flæðið inn í stærstu félögin á meðan önnur hækka vart. VIX vísitalan hækkaði töluvert í ágúst eða um 8% og endaði í 26,4 en talað er um að markaðir séu að róast þegar hún fer undir 25. Vísitalan lækkaði þó um 13,2% á öðrum ársfjórðungi og hefur hækkað um rúm 80% á árinu. Apple fór í 4-1 stock split og hækkuðu bréfin um 21,7% í mánuðinum. Tæknifélög hafa hækkað um 36% það sem af er ári eftir að hafa hækkað 50% á síðasta ári. Amazon hækkaði um 9,1% í ágúst, Facebook hækkaði um 15,6% og Google hækkaði um 9,5%.

Seðlabanki Bandaríkjanna breytti “lítilega” um stefnu í ágúst og fór úr 2,0% verðbólgumarkmiði yfir í 2,0% meðaltals - verðbólgumarkmið. Á mannamáli mun bankinn leyfa verðbólgu að hækka yfir 2,0% svo lengi sem verðbólgan sé að meðaltali undir 2,0%. Seðlabankinn mun því sjaldnar hækka/lækka vexti. Markaðurinn tók því sem enn frekara loforði um að halda vöxtum lágum (Powel talaði svo sem í júlí um að þeir yrðu lágir nánast alltaf) sem studdi við hækkun á hlutabréfamarkaði. Hækkuðu vaxtarfélög nokkuð umfram virðisfélög í ágústmánuði, eða 9,6% vs. 3,6%. Svo lesendur geti áttað sig á því hversu bilið hefur breikkað á síðustu fimm árum hafa vaxtarfélög hækkað um 10% meira á ári, eða um 61% samtals.

Alþjóðleg hlutabréf hækkuðu einnig í ágúst. Þróuð ríki hækkuðu um 5,2% í mánuðinum en eru þó niður um 4,2% á árinu. Þróunarríki hækkuðu um 2,2% í ágúst og eru nú upp um 0,7% á árinu. Þegar þróuð ríki eru skoðuð nánar hafa evrópsk hlutabréf (e. MSCI EMU Index) verið í stökustu vandræðum undanfarin fimm ár hið minnsta. Eru sumir fjárfestar á því að nú geti átt sér stað viðsnúningur í Evrópu. Rökin eru að  aðgerðir sem stjórnvöld í Evrópu ásamt Seðlabanka Evrópu hafi ráðist í  styðji við markaðinn og hafa komið evrunni yfir 1,2  gagnvart dollar sem er nokkurra ára hágildi. Einnig hef ég heyrt þau “rök” að hlutabréfaverð hefur hækkað gríðarlega í BNA á undanförnum árum með hækkandi verðkennitölum og þá hljóti fjárfestar að snúa sér annað. Þá er horft til þess að lækkandi vaxtastig í BNA hafi haft svo mikil áhrif á verð fyrirtækja. S&P 500 er nú verðlagt u.þ.b. 30,0x hagnaður og Evrópa u.þ.b. 16,0x hagnaður og þar með hljóti Evrópa að eiga inni og jafnvel Japan líka sem er á svipuðum slóðum og Evrópa.

Undanfarinn misseri hefur hlutabréfaverð hækkað að mínu mati vegna væntinga um framtíðarvöxt. Vöxtur er jú fágætur í lágvaxtarumhverfi. Greinendur eru á því að hagnaður S&P 500 vísitölunnar verði um 22,6x næstu 12 mánuði en að meðatals hagnaður S&P 500 verði um 15,2x næstu 12 mánuði sem er lægra en Japan og Evrópa. Evrópa og Japan eru svæði sem hafa haft vexti lága í um 10-20 ár og virðast vera nokkuð stöðnuð þar. Þar spá greinendur að P/E hækki milli ára, sem þýðir á mannamáli lækkandi hagnaður milli ára sem gæti að mínu mati hafi neikvæð áhrif á fjárfesta. Hvertu munu peningar leita? Að mínu mati munu þeir halda áfram að leita inn í vöxt og þá skiptir verðmargfaldarinn ekki ölli máli.

Verð á hrávörum var upp og niður í ágústmánuði með lækkandi dollar. Fleiri raddir eru á því að dollarinn haldi áfram að gefa eftir vegna lágs vaxtastigs og mikils halla ríkisfjármála í Bandaríkjunum. Er það eitthvað sem ég hef áhyggjur af? Svarið er nei… nær helmingur tekna félaga í S&P 500 eru í erlendri mynt sem styður við rekstur félaganna, með auknum tekjum og hækkandi framlegðarhlutföllum.

Mín skoðun er að að mikil tækifæri felast í því að fjárfesta í Asíu og þá sér í lagi í félögum sem eru mótvægisafl við risa félög í BNA. Mikil samkeppni mun verða í e-commerce, greiðslugáttum, 5G, vélvæðingu og gervigreind. Kína og BNA munu berjast um ákveðin yfirráð og eru vopnin á stafrænu hliðinni, örflögur og aðrir mikilvægir íhlutir í 5G uppbyggingu. Ég er alveg á því að Evrópa og Japan eigi inni en það á ekki við um stærstu félöginn þar eins og við höfum séð í Apple, Facebook og Tesla og minni félögin þar munu líklega hlaupa hraðar en þau stóru.

Raunhagkerfið er enn nokkuð brothætt í Bandaríkjunum sem og annarstaðar. Þegar horft er á söguna þá er hlutabréfamarkaðutinn ekkert endilega beintengdur við hagkerfið. Oft höfum við séð hlutabréfamarkaðinn hækka á meðan atvinnuleysi hefur verið að hækka á sama tíma sem dæmi. Verðbréfamarkaðir hafa sjálfstætt líf í sjálfu sér. Verð á hlutabréfum og sérstaklega tæknifélögum hafa oft á tíðum ekkert að gera með núverandi arðsemi eða hvernig árar í raunhagkerfinu. Verðlagning þeirra er háð væntinum fjárfesta um nokkuð fjarlæga framtíð (sama á samt við um öll félög). Ef við tökum Apple sem dæmi þá er P/E hlutfall félagsins um 33,9 næstu 12 mánuði. Gróft á litið getum við horft á það þannig að fjárfestar séu að fá um 3% af kaupunum í dag til baka á næstu 12 mánuðum í formi hagnaðar. Virkar frekar lágt ekki satt? En þegar maður hefur það í huga að verðbólga í Bandaríkjunum er um 1,0% og vextir á 10 ára bandarísk ríkisskuldabréf eru um 0,8%, þá er fjárfesting í Apple nokkuð góð. Miðað við þetta ástand gæti ég vel séð að hlutabréfaverð komi til með að hækka frekar í tæknifélögum. Fjárfestum virðist vera nokkuð sama um það hvort raunhagkerfið sé gott núna eða hvort t.d. Apple gangi vel næstu 2-3 fjórðunga svo lengi sem þeir trúi því að fyrirtækið verði arðbært í nokkuð fjarlægri framtíð.

Hækkanir á hlutabréfum og húsnæði ásamt sterkari smásölugeira er meðal þess sem aðgreinir þessa kreppu frá öllum öðrum kreppum á sögulegum tímum. Annað sem aðgreinir hana er á hvaða ógnarhraða hún kom og á hversu enn meiri ógnarhraða viðbrögð ríkisstjórna og seðlabanka um vel flest allan heim komu til. Það sem styður við að hagkerfi heims taki fyrr við sér að mínu mati er að fólki finnst það vera “ríkara” með meiri kaupmætti og lægri skuldastöðu (munið hækkanir á hlutabréfum og húsnæði). Hinsvegar þegar maður kafar smá dýpra mætti halda því fram kreppan sé ekki ennþá kominn.

Atvinnuleysi í BNA er enn mjög hátt og það er enn mín skoðun að atvinnuleysi muni áfram verða hátt. Störf munu tapast að fullu og gjáin í samfélaginu mun líklega aukast. Daglegt líf hefur farið úr skorðum og búðir hafa þurft að halda fjöldatakmörkunum og sumargleði eins og við þekktum hana er horfin í bili. Hvað svo? Það er hægt að segja með sanni að svokölluð V-laga endurkoma hagkerfisins sé nú orðin staðreynd en þessi V-laga endurkoma kom með mikilli hjálp ríkisstjórna og seðlabanka og er mjög dýr. Allt það sem hefur verið gert er meira til skamms tíma. Atvinnulausir í Bandaríkjunum fengu 600 dollara aukalega á viku, sem mun enda. Vextir hafa verið lækkaðir sem hefur stutt við fasteignamarkaðinn og hlutabréfamarkaðinn. Peningst hafa verið lánaðir til fyrirtækja sem eru sum vart rekstrarhæf. Samkvæmt skilgreiningu erum við í kreppu með tvo ársfjórðunga niður en margt bendir til þess að svo verði ekki á þriðja ársfjórðungi. Er kreppan þar með búin? Ég held ekki. Það sem mun skapa kreppu eða hægari vöxt til frambúðar er að hlutirnir verða ekki eins fyrir og eftir Covid-19.