ERLENDIR VERÐBRÉFAMARKAÐIR FRÁ UPPHAFI ÁRS 2020

Ragnar Benediktsson

RAGNAR BENEDIKTSSON ER SJÓÐSTJÓRI HLUTABRÉFASJÓÐA HJÁ ÍV SJÓÐUM HF. RAGNAR SKRIFAR UM ÞRÓUN ERLENDRA VERÐBRÉFAMARKAÐA ÞAÐ SEM AF ER ÁRINU 2020

 

Í upphafi janúarmánaðar fóru að birtast hagtölur frá BNA og þar með var árinu 2019 að ljúka.  Allt lék í lyndi og staðan sjaldan verið betri. Hagvöxtur hafði aukist um 2,1% sem var nokkuð á pari við hagvaxtartölur sem við sáum á þriðja ársfjórðungi 2019. Einkaneysla var traust, jólavertíðin góð og bandarískir launþegar höfðu náð að leggja fyrir um 7,7% af heildarlaunum að meðaltali. Viðskiptastríð BNA og Kína virtist komið í smá vopnahlé eða “détente”. Hinsvegar fóru að berast óljósar fréttir af heilbrigðisvá frá Kína.

Kórónavírus (Covid-19) breiddist hratt út á næstu vikum og hagfræðingar fóru að draga úr sínum hagvaxtarspám þegar heimshagkerfið virtist vera að taka aftur við sér. Þó svo “bara” hafi í fyrstu verið um Kína að ræða þá var heimurinn farinn að finna fyrir áhrifum. Vextir í BNA stóðu í stað og seðlabankastjórar í BNA gáfu hver á eftir öðrum til kynna að seðlabankinn yrði á hliðarlínunni árið 2020. Powell  seðlabankastjóri lét hafa eftir sér að vextir yrðu líklega ekki lækkaðir á þessu ári. Gull hækkaði um 4,7% í janúar.

Bandarísk hlutabréf enduðu á rauðu nótunum í janúar en þó mjög nálægt pari. Félög eins og Starbucks, Apple og McDonalds lokuðu hluta verslana sinna, juku bilið í afkomuspám sínum og WHO lýsti yfir heimsfaraldri vegna Covid-19. Þó voru tæknifélög sem luku janúar á grænu nótunum á meðan orkufélög lækkuðu um 11%. MSCI ACWI lækkaði um 1,1% þar sem ótti hafði aukist vegna Covid-19 og allir höfðu þá þegar gleymt Brexit. Þróaðir markaðir (MSCI EAFE) lækkuðu um 2,1% og þróunarmarkaðir (MSCI EM) lækkuðu um 4,7%. Seðlabanki Kína (PBOC) jók við örvunaraðgerðir sínar í lok janúar og kom með um 170 ma. dollara innspýtingu inn í hagkerfið. Þetta voru mestu örvunaraðgerðir Kínverja í um 15 ár. Skortsala var bönnuð á þessu tímabili. Á sama tíma voru margir enn sofandi á verðinum varðandi áhrif Covid-19 en á þessum tíma var fjárfestum líklega meira umhugað um viðskiptastríð BNA og Kína. Þegar þetta er skrifað eru fjárfestar líklega búnir gleyma viðskiptastríðinu, sem forseti Bandaríkjanna minnti þó hressilega á fyrir skemmstu.

Janúar leið, og vildi ég óska að febrúar hefði ekki komið. Kína lokaðist alveg sem hafði gríðarleg áhrif á ferðalög og ferðageirann og lítill hluti Lombardy-héraðs á Ítalíu lokaði 21. febrúar. Á þessum tíma voru hagfræðingar að tala um að hagvöxtur í BNA myndi lækka niður í 1% til 1,5% og á meðan voru fjárfestar farnir að bíða þess í ofvæni að Seðlabanki BNA myndi lækka vexti og nota sín vopn betur. Krafan á þriggja mánaða bandaríska ríkisvíxla fóru aftur yfir kröfu á 10 ára bandarísk ríkisskuldabréf. Powell seðlabankastjóri sagði í lok febrúarmánaðar að seðlabankinn myndi “act as appropriate to support the economy” sem líkist mjög setningu sem hann sagði í júlí 2019 um að seðlabankinn myndi “act as appropriate to sustain the expansion” og svo voru vextir lækkaðir. Atvinnuleysistölur fyrir janúar voru 3,6%. Allra augu voru á PMI (framleiðsluvísitölum) í lok febrúar. PMI í Kína lækkaði niður í 35,7 sem eru allra lægstu tölur sem hafa sést þaðan. PMI tölu frá BNA voru enn í lagi og voru yfir 50.

Hlutabréfaverð lækkaði mikið í lok febrúar og lækkaði S&P 500 um 12% í síðustu vikunni og lækkaði um 8,2% í febrúarmánuði. Markaðurinn hafði hækkað nánast allan febrúar en þegar fréttir fóru að berast frá Ítalíu og BNA frá nýjum kórónaveirutilfellum var ekkert sem hélt við. Enn var það orkugeirinn sem lækkaði mest og á eftir honum var það fjármálageirinn. Bankar munu eiga í erfiðleikum í þessu lágvaxtaumhverfi sem allir biðu eftir að kæmi. MSCI ACWI lækkaði um 8% og lækkuðu vísitölur í þróuðum ríkjum um 9% í febrúar og vísitölur þróunarríkja lækkuðu um 5,3%. Tilfellum fór að fækka í Asíu og héldu Hang Seng- og Shanghai vísitölunar nokkuð velli mælt í heimagjaldmiði í febrúarmánuði.

Flökt á hlutabréfamörkuðum getur oft á tíðum verið mikið en flöktið á skuldabréfamörkuðum var líka farið að segja til sín. Bilið milli ríkisskuldabréfa og fyrirtækjaskuldabréfa (e. investment grade) jókst úr 125 punktum í 145 punkta, en þó undir 200 punkta álagi sem sást í lok árs 2018.

Í marsmánuði var hægt að segja með góðri vissu að hagtölur frá janúar og febrúar skiptu engu máli fyrir framhaldið og hefðu lítið sem ekkert spágildi fyrir það sem koma skyldi. Á meðan heimurinn hafði ýtt á pásu til að berjast við Covid-19 faraldurinn var hlutabréfaverð farið að líkjast því sem mætti búast við í virkilega djúpri kreppu en ekki smá efnahagslægð. Atvinnuleyisistölur birtust og um 3,3 milljónir Bandaríkjamanna sóttu um atvinnuleysisbætur. Hagfræðingar fóru þá að uppfæra sína hagvaxtaspár á ný sem hljóða nú upp á 10% til 25% samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Þrátt fyrir að sjá þessar tölur, með tárin í augunum og kjálkann á borðinu, þá voru flestir hagfræðingar á því að það væri bati framundan. Vafi lék á hvort batinn yrði V-laga, U-laga eða L-laga en flestir voru sammála um að efnahagsbati væri framundan. Seðlabanki BNA og annarra ríkja voru nokkuð þjálfaðir í björgunaraðgerðum frá hruni 2008/09 og bæði ríkisstjórnir og Seðlabankar mættu áfallinu með krepptan hnefa og nærri því fordæmalausum aðgerðum, bæði í peningamálum og ríkisfjármálum. Halli ríkisfjármála skipti engu máli.

S&P 500 lækkaði um 12,4% í marsmánuði en hafði þó hækkað frá botni um 15,5% frá 23. mars til loka mars. Vísitölur sem mæla minni og meðal stór fyrirtæki lækkuðu um 20-22% í marsmánuði. Var þetta versti ársfjórðungur síðan árið 2008 með lækkun upp á 19,6%. Enn var það orkuiðnaðurinn sem lækkaði mest þriðja mánuðinn í röð, eða um 35%. Á þessu tímabili voru tæknifyrirtæki samt enn upp um rúm 10%. Amazon var upp 5% frá áramótun og með um 40% hlutdeild í “Consumer Discretionary” vísitölu innan S&P 500. Vísitalan sjáf var niður um 19,3%.

MSCI ACWI lækkaði um 13,45% í marsmánuði og lækkuðu þróuð ríki um 13,3% í mánuðinum. Þróunarríki lækkuðu um 15,4%. Það skipti nánast engu máli hvar fjárfest var í hlutabréfum þennan mánuðinn, það lækkaði allt og það lækkaði mikið. MSCI ACWI hafði lækkað um 21,3% á fjórðungnum. Hlutabréfaverð í Evrópu lækkaði um 25% í fjórðungnum. Með hvert Evrópuríki í sínu horni, með mjög mismunandi getu til að takast á við Covid-19, þá stöðvuðust nánast öll hjól atvinnulífsins í álfunni með Spán og Ítalíu í algjöru frosti.

Seðlabanki Evrópu (ECB) gaf það út að hann myndi halda áfram kaupum á ríkisskuldabréfum og Merkel kanslari tilkynnti um risa örvunarpakka frá Þýskalandi, engu að síður hélt evran áfram að veikjast gagnvart dollar. Seðlabanki BNA lækkaði vexti tvisvar sinnum í marsmánuði úr 1,75% í 0,25% og fjárfestar flyktust yfir í dollar. Fljótt á litið voru það ríkisskuldabréf í BNA sem voru með jákvæða ávöxtun í marsmánuði. Gull lækkaði í mars, líklega vegna þess að fjárfestar þurftu að selja vegna skuldsetningar í hlutabréfum. Gull hækkaði um tæp 4% á fyrsta ársfjórðungi 2020.

 Erlendir verðbréfamarkaðir 2020

Ég ætlaði að skrifa þetta yfirlit í lok marsmánaðar en það var svo mikið um að vera og því þurfti að fresta. Eftir á að hyggja er samt betra að birta þetta núna þegar apríl er lokið þar sem meirihluti uppgjöra eru komin fram. Hækkun á S&P 500 frá lægsta punkti 23. mars til 30. apríl gæti hafa verið eðlileg hækkun eða munu uppgjör vera verri en vænt er og sala hefjast á ný? Síðan getur máltækið “Sell in May and Go Away” einnig átt við í ár. Líklega hafa endurstillingar á hlutabréfasöfnum stærri fjárfesta (erlendra lífeyrisjóða og stærri stofnanafjárfesta) haft þónokkur áhrif á hækkkun hlutabréfaverðs í lok mars og svo voru fjárfestar líklega að veðja á uppgjörin sem birtust í lok apríl.

Þegar horft er á hagtölur aprílmánaðar mætti segja að þær séu merkingalausar til samanburðar við fyrri ár, en þó ekki. Aldrei í sögunni hefur störfum fækkað jafn hratt og mikið. Jákvætt er að ríkisstjórn BNA jók stuðning sinn við atvinnubótakerfið verulega þar sem alríkisstjórnin hafði í raun lokað hagkerfinu. Þó hafa nokkur fylki farið að losa um höft og má reikna með því að atvinnuleysi fari minnkandi í BNA. VLF í BNA lækkaði um 4,8% á fyrsta ársfjórðungi í stað 2,1% hagvaxtar á síðasta ársfjórðungi. Hagtölur fyrir apríl verða að öllum líkindum mun verri en tölurnar í mars. Allskonar spár hafa verið birtar um hvernig árið mun enda en maður hefur séð tölur um þriðjungs lækkun á ársgrundvelli  í VLF á öðrum ársfjórðungi og að árið endi niður um 5% - 6%.

Apríl mánuður var mjög sterkur hlutabréfunum, en S&P 500 hækkaði um 12,8% eftir snarpar hækkanir frá lægstu gildum. Hækkuðu allir geirar innan vísitölunnar en nú var það orkuiðnaðurinn sem hækkaði mest eða um 30%. Vísitalan hefur þó lækkað um 9,3% frá áramótum í lok aprílmánaðar en er upp tæpt 1% síðustu 12 mánuði. Apple hækkaði um 15,5%, Facebook 22,7%, Amazon 26,9%, Microsoft 13,6% og Google 15,9%. Allt eru þetta stærstu stöður verðbréfasjóðsins ÍV Erlends Hlutabréfasafns. Alþjóðleg hlutabréf hækkuðu líka töluvert í apríl og hækkaði MSCI ACWI um 10,8%. Hækkuðu þróaðir markaðir um 6,6% en þróunarmarkaðir hækkuðu um 9,2%. Hinsvegar er MSCI ACWI vísitalan niður um 12,8% frá áramótum og er niður um 4,4% síðasta árið. Enn eru það Bandaríkin sem eru sterkust og reikna ég með því að þau verði það áfram á árinu. Hinsvegar kom Kína sterkt inní þróunarvísitöluna þar sem fólk er farið að ferðast þar innanlands, farið aftur út að borða og kíkja í verslanir. Þetta gefur mér von um það sem koma skal í öðrum ríkjum.

En hvað svo? Fjárfestar standa uppi með stórt spurningarmerki yfir sér. Hvert er markaðurinn að fara? Allt mun þetta snúast um trú fjárfesta og væntingar þeirra á hagkerfinu að mínu mati. Markaðurinn virðist segja að þetta verði allt í lagi, fólk fái vinnuna til baka og hagkerfið taki fljótt aftur við sér. Ég er ekki viss. En ég þarf samt að fylgja markaðnum því annars reykspólar hann fram úr þér og þú verður af hækkunum. Það er líka áhætta að mínu mati og ég er þeirrar skoðunar að það sé meiri áhætta á missa af hækkunum en að taka á sig tímabundnar lækkanir. Það kæmi mér ekki á óvart ef hagkerfið verði lengur að jafna sig en markaðurinn segir til um en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Ég er þeirrar skoðunar að fólk muni ferðast minna milli landa næstu misserin, en eitthvað segir mér að fólk muni ferðast mikið innan sinna landa víða um heim. Ég er þeirrar skoðunar að mörg þeirra starfa sem horfið hafa, muni tapast að fullu en önnur skapist í staðinn. Hraði uppbyggingar gervigreindar muni t.d. aukast töluvert vegna Covid-19 að mínu mati og hagkerfi heimsins verði einnig fyrr grænni og umhverfisvænni. Þá þarf ég að hugsa hvaða félög og hvaða geirar muni njóta góðs af því.