Sigurður Hreiðar til liðs við Íslensk verðbréf

Sigurður Hreiðar Jónsson hefur hafið störf sem verðbréfamiðlari hjá ÍV Markaðsviðskiptum og mun veita sviðinu forstöðu ásamt Hjörvari Maronssyni.

Sigurður Hreiðar hefur mikla reynslu sem verðbréfamiðlari á íslenskum fjármálamarkaði með störfum sínum fyrir Kaupþing, Íslandsbanka og Straum/Kviku á undanförnum 15 árum.  Sigurður er vélfræðingur og með BSc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hjörvar er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað hjá Íslenskum verðbréfum frá árinu 2008 í eignastýringu og markaðsviðskiptum.

Sérhæfð fjármálaþjónusta í 30 ár

Íslensk verðbréf voru stofnuð árið 1987 og fagna því 30 ára afmæli á þessu ári. Hlutverk félagsins er að aðstoða viðskiptavini sína við að ná hámarksávöxtun á fé sitt að teknu tilliti til áhættu. Það gerir félagið með eignastýringu, markaðsviðskiptum, sérhæfðum fjárfestingum og vönduðu framboði sjóða. Félagið var í árslok 2016 með um 130 milljarða kr. í virkri stýringu fyrir viðskiptavini sína. Aðalskrifstofur félagsins eru á Akureyri en félagið hefur einnig starfstöð í Reykjavík.