Hvernig „kaupirðu markaðinn“ á Íslandi?

Íslensk verðbréf halda úti ÍV hlutabréfavísitölu sem mælir íslenska hlutabréfamarkaðinn út frá seljanleika og markaðsvirði. Í dag eru 14 félög í vísitölunni þar sem Icelandair Group vigtar mest eða um 16%. ÍV hlutabréfavísitölusjóður fjárfestir eftir ÍV hlutabréfavísitölu og gerir fjárfestum þannig kleift að kaupa dreifðara eignasafn en fæst með því að fjárfesta eftir OMXI8 vísitölunni.

 Á íslenska hlutabréfamarkaðnum eru 16 félög með heildarmarkaðsvirði um 913 ma.kr. (2. desember). Þrjú stærstu félögin; Össur, Marel og Icelandair Group eru samanlagt um 50% af heildarmarkaðsvirði íslenska hlutabréfamarkaðarins.

Til þess að ná fram dreifingu á hlutabréfasafni er fjárfestum oft ráðlagt að „kaupa markaðinn“. Erlendis er oftast átt við að kaupa hlutdeildarskírteini í sjóðum sem er stýrt eftir breiðum hlutabréfavísitölum, t.d. S&P 500.  Í S&P 500 vísitölunni eru 500 hlutabréf (Apple stærst með um 3,06% 16. nóv). Mikið framboð er af slíkum sjóðum, ýmist í formi hefðbundinna hlutabréfasjóða eða kauphallarsjóða á borð við SPY.

Samsetning úrvalsvísitölunnar OMXI8, eins og S&P 500 vísitölunnar, miðast við markaðsvirði skráðra félaga að teknu tilliti til flots bréfa. Flot er mælikvarði á hversu líklegir eigendur bréfa séu til þess að selja þá, þannig er t.d. hlutur Eyris Invest í Marel ekki talinn líklegur til að skipta um hendur og því er markaðsvirði þess eignarhlutar dreginn frá heildarmarkaðsvirði Marel.

Samsetning OMXI8 vísitölunnar þann 2. desember síðastliðinn var eftirfarandi:

Á myndinni hér á undan má sjá að stóru félögin tvö, Marel og Icelandair Group eru um 48% af vísitölunni. Skoðum þessi félög sérstaklega.

Icelandair Group er flugfélag sem hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og á sama tíma hafa hlutabréf félagsins hækkað mikið í verði, þar til á þessu ári. Rekstur flugfélaga er almennt talinn áhættusamur, meðal annars vegna þess hve mikið fjármagn þarf til þess að halda úti flugvélum og flugleiðum og sögulega hefur rekstur þeirra verið sveiflukenndur.

Marel hefur sömuleiðis vaxið mikið og stefnir á enn frekari vöxt í nánustu framtíð. Marel er vaxtarfyrirtæki sem hefur nýlega fjárfest miklum fjárhæðum í MPS sem er fyrirtæki í svipuðum rekstri og Marel, en þó með aðrar áherslur. Samanborið við fyrirtæki eins og Haga þar sem mun minni sveiflur eru í tekjum og hagnaði þá er Marel áhættumeira.

Að halda úti dreifðu hlutabréfasafni er vandasamt á Íslandi, skráð félög eru fá, tvö þeirra gnæfa yfir restina af markaðnum og seljanleiki er almennt ekki nægjanlegur. Með því að fjárfesta eftir OMXI8 vísitölunni næst vissulega töluverð dreifing, en eftir sem áður er helmingur hlutabréfasafnsins í tveimur áhættusömum félögum. Hvað er þá til ráða?

Ef til vill væri nær að horfa til annarra þátta en markaðsvirðis til þess að ná fram eftirsóknarverðri áhættudreifingu. Íslensk verðbréf hafa, með því að hanna og viðhalda ÍV hlutabréfavísitölunni, boðið upp á aðra nálgun. ÍV hlutabréfavísitala tekur tillit til þriggja þátta; markaðsvirðis (40%), veltu á markaði (40%) og umfang samninga um viðskiptavakt (20%). Vísitalan mælir þannig fjárfestingarhæfi hlutabréfa í gegnum seljanleika þeirra.

Samsetning ÍV hlutabréfavísitölu þann 2. desember síðastliðinn var eftirfarandi:

Eins og sjá má þá eru Icelandair Group og Marel einnig stór hluti af ÍV hlutabréfavísitölu en vega þó ekki nema um 30%, í samanburði við 48% í OMXI8 vísitölunni. Auk þess eru 14 félög í þessari vísitölu á meðan einungis átta félög eru í OMXI8.

Spurningin er svo auðvitað hvort þessi dreifing sé endilega áhættuminni og hvort of mikilli væntri ávöxtun sé fórnað. Ef við horfum á söguleg gögn sjáum við að ÍV hlutabréfavísitala hefur gert mun betur en OMXI8 vísitalan (OMXI8GI öllu heldur en það er arðleiðrétt útgáfa af OMXI8)  á þessu ári, enda hefur verð hlutabréfa í Icelandair Group fallið mikið frá því í vor á meðan önnur hlutabréf hafa gert betur.

Sé horft lengra aftur í tímann má sjá að ÍV hlutabréfavísitala hefur verið stöðugri en OMXI8 vísitalan án þess að skila verri ávöxtun á hlutabréfasafn.

Hér á landi eru starfræktir fjöldinn allur af hlutabréfasjóðum sem allir hafa mismunandi fjárfestingastefnu og -heimildir. ÍV hlutabréfavísitölusjóður er vísitölusjóður sem er stýrt eftir ÍV hlutabréfavísitölu og sjóðstjórn er að miklu leyti tæknileg þ.e.a.s. sjóðstjóri hvorki yfir- né undirvigtar einstök hlutabréf heldur vigtar sjóðinn eingöngu eftir vísitölunni. Flestir aðrir íslenskir hlutabréfasjóðir reiða sig á greiningarvinnu sjóðstjóra þar sem markmiðið er yfirleitt að ná meiri ávöxtun en einhver gefin viðmiðunarvísitala myndi gefa.

Frekari upplýsingar:

ÍV hlutabréfavísitölusjóður

ÍV hlutabréfavísitala

ÍV Hlutabréfavísitölusjóður er fjárfestingarsjóður skv. lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði og hefur því rýmri heimildir til fjárfestinga en verðbréfasjóðir. ÍV sjóðir hf. er rekstrarfélag sjóðsins. Útboðslýsingu, lykilupplýsingar og nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu ÍV sjóða, ivsjodir.is. Fjárfestar eru hvattir til að kynna sér útboðslýsingu sjóðsins og þá sérstaklega umfjöllun um áhættuþætti.