Íslensk verðbréf og Standard Life Investments í aukið samstarf

Mynd: Birgir Ísleifur
Mynd: Birgir Ísleifur

Íslensk verðbréf og eignastýringarfyrirtækið Standard Life Investments hafa útvíkkað áralangt samstarf sitt um sölu og dreifingu á erlendum sjóðum sem reknir eru af félaginu. Íslensk verðbréf geta nú boðið viðskiptavinum sínum að fjárfesta í enn fjölbreyttara úrvali hlutabréfa-, skuldabréfa-, framtaks- og vogunarsjóða í rekstri Standard Life Investments.

Íslensk verðbréf voru stofnuð árið 1987 og fagna því 30 ára afmæli á þessu ári. Hlutverk félagsins er að aðstoða fagfjárfesta, stéttarfélög, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga við að ná hámarksávöxtun á fé sitt að teknu tilliti til áhættu. Það gerir félagið með ráðgjöf, miðlun, eignastýringu, sérhæfðum fjárfestingum og vönduðu framboði sjóða. Félagið var í lok árs 2016 með tæpa 129 milljarða kr. í virkri stýringu fyrir viðskiptavini sína.

Standard Life Investments er eignastýringarfyrirtæki sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1825 er móðurfélag þess var stofnað í Edinborg. Félagið er með yfir 300 milljarða USD af eignum í stýringu og 1.700 starfsmenn á 17 starfsstöðvum víðsvegar um heiminn. Í byrjum mars tilkynnti Standard Life Plc um fyrirhugaðan samruna félagsins við Aberdeen Asset Managemen, með sameiningu verður félagið með stærrstu og þróuðustu fjárfestingalausnir á alþjóðavísu.

Sjóðir Standard Life bætast nú við úrval erlendra sjóða sem Íslensk verðbréf geta boðið viðskiptavinum sínum og við úrval innlendra og erlendra sjóða sem reknir eru af ÍV sjóðum, dótturfélagi Íslenskra verðbréfa.  

Sigþór Jónsson framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa: „Við erum stolt af því að geta aukið vöruframboð til viðskiptavina okkar enn frekar með auknu samstarfi við jafn öflugan aðila og Standard Life. Í kjölfarið á mikilli styrkingu krónunnar undanfarin misseri og nýlegri þróun í afléttingu fjármagnshafta finnum við nú fyrir auknum áhuga viðskiptavina okkar á fjárfestingum erlendis. Standard Life býður upp á fjölbreytta flóru sjóða, m.t.t. eignaflokka, fjárfestingastefnu og landsvæða og því veitir samstarfið viðskiptavinum okkar aukna valkosti við áhættudreifingu eignasafna sinna. “.

Alan Simpson, Associate Investment Director hjá Standard Life: „Það er okkur sönn ánægja að útvíkka áralangt samstarf við Íslensk verðbréf og auka enn frekar sýnileika og þjónustu okkar á Íslandi. Við finnum áþreifanlega fyrir auknum áhuga á þjónustu til íslenskra fjárfesta nú þegar þeir hafa fullt frelsi til fjárfestinga utan landsteinanna. Þetta er spennandi þróun og við hlökkum til þess að taka af auknum krafti þátt á íslenska markaðnum“.

Viðskiptablaðið fjallaði um málið.