08.04.2025

Sameinað félag Íslenskra verðbréfa hf. hefur starfsemi

Samþykkt var á aðalfundi SIV eignastýringar og ÍV sjóða 31. mars síðastliðinn að sameina starfsemi félaganna undir merkjum Íslenskra verðbréfa hf. Með samrunanum verður til öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með um 200 milljarða króna í stýringu og reynslumikið teymi fimmtán starfsmanna.

mynd

Arnór Gunnarsson framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa er Arnór Gunnarsson, sem stýrði SIV eignastýringu. Forstöðumaður sjóðastýringar er Þorkell Magnússon og Jón Helgi Pétursson, sem stýrði ÍV sjóðum, er rekstrarstjóri félagsins. Sameinað félag byggir á öflugu teymi sjóðstjóra frá SIV og ÍV sjóðum sem hefur áratuga langa reynslu af fjárfestingum og er með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og á Akureyri. Íslensk verðbréf hf. eru í dag eitt dótturfélaga Skaga hf. ásamt VÍS tryggingum hf. og Fossum fjárfestingarbanka hf.

Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri:

„Uppbygging á eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðu Skaga er nú komið í það horf að hægt er að sækja fram af fullum krafti undir merkjum Íslenskra verðbréfa. Við byggjum starfsemina á traustum grunni, erum með þekkt vörumerki, öflugt teymi og nýjar stoðir til að tryggja betri þjónustu og þróa vöruframboð í takti við þarfir og væntingar viðskiptavina hverju sinni. Lykillinn að því er fjölbreyttur hópur sérfræðinga með mikla reynslu af eigna- og sjóðastýringu, öflug stoðþjónusta og fjölbreytt sjóðaframboð sem mun höfða vel til viðskiptavina.“ 

Öflugt félag á íslenskum fjármálamarkaði

Félagið býður upp á fjölbreytt sjóðaframboð almenna fjárfesta og fagfjárfesta. Samtals reka Íslensk verðbréf 18 verðbréfasjóði og sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta. Auk hefðbundinna opinna sjóða rekur félagið jafnframt lokaðar afurðir fyrir fagfjárfesta á borð við kreditsjóði en slíkir sjóðir taka við fjármagni frá fjárfestum og lána til fyrirtækja. Eignastýringarsvið félagsins stýrir sérgreindum eignasöfnum fyrir fagfjárfesta og stofnanafjárfesta en stærsta safn í stýringu félagsins er fjárfestingasafn VÍS trygginga.