Nafna- og reglubreytingar ÍV Hlutabréfavísitölusjóðs

Stjórn ÍV sjóða hefur samþykkt breytingar á starfsemi ÍV Hlutabréfavísitölusjóðs, kt. 670412-9970. Breytingarnar snúa annars vegar að nafni sjóðsins og hins vegar að breyttum reglum. Breytingarnar taka gildi 20. desember 2022.

Nafnabreyting

Stjórn ÍV sjóða hefur samþykkt breytingar á nafni ÍV hlutabréfavísitölusjóðs. Sjóðurinn mun héðan í frá bera nafnið ÍV Íslensk hlutabréf – Aðallisti.

Eðlisbreyting á starfsemi sjóðs

Sjóðurinn hefur hingað til verið vísitölusjóður og fylgt ÍV Hlutabréfavísitölu sem er opinber hlutabréfavísitala sem birt er á heimasíðu Íslenskra verðbréfa hf., www.iv.is.

Sjóðurinn mun áfram fjárfesta í hlutabréfum sem skráð eru í kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi. Þær heimildir hafa ekki breyst en sjóðurinn mun ekki lengur fylgja ÍV Hlutabréfavísitölu, heldur mun hann fjárfesta í jöfnum hlutföllum í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði Nasdaq Iceland skv. fyrir fram ákveðinni aðferðarfræði. Sjóðurinn hefur heimild til að fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækja sem fyrirhugað er að verði tekin til viðskipta á skipulegum markaði Nasdaq Iceland innan 45 daga.

Aðferðafræðin byggir á því að sjóðurinn fjárfestir skilyrðislaust í jöfnum hlutföllum (e. equal weight) í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði Nasdaq Iceland á hverjum tíma. Markmið aðferðafræðinnar er annars vegar að tryggja áhættudreifingu og hins vegar að auka hlutfallslega vægi minni félaga (e. small cap) á kostnað stærri félaga (e. large cap). Samsetning eignasafnsins er endurskoðuð mánaðarlega, miðað við síðasta virka dag hvers mánaðar. Eignasafn sjóðsins næsta mánuðinn eftir endurskoðun endurspeglar nýja samsetningu á grundvelli aðferðafræðinnar.

Vakni spurningar um ofangreint má beina þeim til starfsmanna í síma 460 4700 eða með því að senda tölvupóst á iv@iv.is.