Nýr framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf.

Sigþór Jónsson, nýr framkvæmdastjóri ÍV
Sigþór Jónsson, nýr framkvæmdastjóri ÍV

Sigþór Jónsson, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. Sigþór hefur mikla þekkingu og reynslu á íslenskum fjármálamarkaði. Nú síðast starfaði hann sem framkvæmdastjóri Straums sjóða hf. Áður gegndi hann störfum framkvæmdastjóra Landsbréfa hf. og þar áður var hann forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni hf. Þar leiddi hann meðal annars uppbyggingu innlendra framtakssjóða félaganna. Samhliða ráðningu Sigþórs hefur verið gengið frá því að Sveinn Torfi Pálsson starfi við hlið hans sem aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. Sveinn Torfi hefur starfað hjá félaginu frá árinu 1993 og gegnt starfi framkvæmdastjóra frá því í september 2013.

Heiðrún Jónsdóttir, formaður stjórnar Íslenskra verðbréfa hf., segir mikinn feng að því að hafa fengið Sigþór til liðs við félagið: “Sigþór hefur yfirgripsmikla þekkingu, tengsl og reynslu af fjármálamarkaðnum. Það mun nýtast félaginu, viðskiptavinum og starfsfólki þess vel. Á markaðnum ríkir hörð samkeppni, þá ekki síst við stóra og öfluga aðila. Félagið er farsælt og stendur á traustum grunni og nú sem fyrr er mikilvægt að horfa til nýrra verkefna og efla félagið enn frekar.”

Sigþór Jónsson: „Starfsemi Íslenskra verðbréfa hefur verið afar farsæl og í föstum skorðum á undanförnum árum. Á því er engin breyting fyrirhuguð enda þótt ráðningu minni sé jafnframt ætlað að horfa til nýrra verkefna og vinna að sameiginlegri framtíðarsýn Íslenskra verðbréfa, starfsmanna og hluthafa þess. Það er ánægjulegt að vera kominn til félagsins og ég hlakka til samstarfsins við það góða starfsfólk og þá traustu viðskiptavini sem eru innan veggja Íslenskra verðbréfa."

Íslensk verðbréf er sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem sinnir viðskiptavinum um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og byggir á gömlum og traustum grunni. Starfsmenn fyrirtækisins eru 20 talsins og búa yfir mikilli reynslu og þekkingu á verðbréfamarkaði samfara fjölbreyttri menntun. Félagið er með yfir 100 milljarða króna í eignastýringu og er með skrifstofu á Akureyri og í Reykjavík.

Akureyri 18. febrúar 2015

Fréttatilkynning frá Íslenskum verðbréfum hf.
Nánari upplýsingar: Heiðrún Jónsdóttir formaður stjórnar Íslenskra verðbréfa í síma 848 8800.