Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV verður ÍV sjóðir

Aðalfundur Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV var haldinn fimmtudaginn 30.apríl 2015. Arnbjörg Sigurðardóttir var endurkjörin stjórnarformaður félagsins. Einnig voru kjörnir Ingvar Gíslason, stjórnarmaður og Jón Steindór Árnason var kjörinn inn nýr í stjórn félagsins. Jón Steindór er framkvæmdastjóri Tækifæris fjárfestingafélags hf. og starfsmaður hjá Íslenskum verðbréfum hf. Hann er M.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Nafni félagsins breytt í ÍV sjóðir hf.

Á fundinum var samþykkt að breyta nafni félagsins úr Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV í ÍV sjóðir hf. Jafnframt var samþykkt að arður yrði ekki greiddur út vegna rekstrar ársins 2014 en hagnaði skyldi ráðstafað til hækkunar eigin fjár. Í máli Jóns Helga framkvæmdastjóra kom fram að rekstur félagsins hafi gengið vel á árinu og umfang hans hafi aukist. Hreinar rekstrartekjur ársins námu 160 milljónum króna samanborið við 130 milljónir króna árið áður. Gjöld til móðurfélagsins námu um 80 milljónum króna og varð hagnaður á rekstri félagsins á árinu 2014 að fjárhæð 11 milljónir króna samkvæmt rekstrarreikningi. 

Í árslok 2014 annaðist félagið rekstur 16 sjóða og hófu tveir nýir sjóðir starfsemi á árinu. Heildareignir í stýringu hjá félaginu námu í árslok um 28 milljörðum króna. Ávöxtun sjóða í rekstri félagsins var almennt góð.

Um ÍV sjóði hf.

ÍV sjóðir hf. er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Félagið starfar á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003. Félagið hefur hlotið starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sem rekstrarfélag verðbréfasjóða.
ÍV sjóðir hf. var stofnað árið 2001. Félagið starfrækir 17 sjóði með um 28 milljarða í stýringu. Félagið er dótturfélag Íslenskra verðbréfa hf. sem eiga 99,75% hlutafjár. Höfuðstöðvar félagsins eru að Strandgötu 3, Akureyri og er afgreiðslan opin frá kl. 9 til 16 alla virka daga. Jafnframt er skrifstofa að Borgartúni 25 í Reykjavík þar sem viðskiptavinir geta sótt alla þjónustu. Skrifstofan er opin frá kl. 9 til 16 alla virka daga.