SAMANTEKT - ERLENDIR HLUTABRÉFAMARKAÐIR Á ÁRINU 2019

Ragnar Benediktsson

 

 

 

 

 

 

RAGNAR BENEDIKTSSON ER SJÓÐSTJÓRI HLUTABRÉFASJÓÐA HJÁ ÍV SJÓÐUM HF. RAGNAR SKRIFAR HÉR UM ÞRÓUN ERLENDRA HLUTABRÉFAMARKAÐA Á ÁRINU 2019

Verð erlendra hlutabréfa hækkaði vel á árinu 2019 og er þetta besta niðurstaða eignaflokksins síðasta áratuginn. S&P 500 hækkaði um 31,5% að t.t.t arðgreiðslna og endaði í 3.231 stigi á meðan heimsvísitalan MSCI ACWI hækkaði um 27,3%. VH gildi S&P 500 hækkaði úr 17,1x við lok árs 2018 í 21,6x við lok árs 2019. VH gildi MSCI ACWI hækkaði úr 16,1x í 19,8x á sama tímabili. Að orða þetta öðruvísi er hægt að segja að mikið af hækkunum S&P 500 vísitölunar sé vegna hækkana á margföldurum hennar (e. multiple expansion). Í upphafi árs bjuggust markaðsaðilar við nokkuð flötum hagnaðarvexti fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni og í samræmi við það að hógværum eða litlum hækkunum hlutabréfaverðs. Þrjár vaxtalækkanir í BNA og minni spenna vegna viðskiptastríðs BNA og Kína höfðu hinsvegar á endanum jákvæð áhrif yfir árið. Árið 2020 byrjar vel og hafa greinendur undanfarið verið að birta spár sínar fyrir árið. Flestar snerta þær tveggja stafa tölur. Verður því áhugavert að sjá hvernig lokauppgjör síðasta árs fer í fjárfesta og hvernig mun ganga að að heimfæra þau yfir á árið 2020. Ef pólitíkin verður stöðug og seðlabankar verða á hliðarlínunni eða með smá dúfutón má reikna með að hækkanir nálgist tveggja stafa tölur. Það kæmi undirrituðum ekki á óvart að 10-12% hækkun gæti orðið raunin þrátt fyrir miklar væntingar um hagnaðaraukningu skráðra félaga um nánast allan heim. 

Þróun erlendra hlutabréfamarkaða 2019

Mikil hækkun átti sér stað í byrjun árs 2019 eftir mikla lækkun á síðasta ársfjórðungi  2018. Sér í lagi var minnisstæð mikil lækkun  í lok desember (e. ”The Christmas Eve Crash”). Hlutabréf í BNA hækkuðu um 15% í janúar frá þeim degi en hækkuðu í janúarmánuði um 8%. Dúfutónn seðlabanka BNA þá leiddi af sér vangaveltur um að margfaldarar fyrirtækja myndu hækka á árinu 2019, sem varð svo raunin. Heimsvísitalan hækkaði einnig í sama takti og S&P 500. Febrúarmánuður kom og seðlabanki BNA lækkaði væntingar markaðarins um vaxtahækkanir á árinu  og héldu vísitölurnar sínum hækkunartakti, rétt um 3%. Leiða má að því líkum að frestun Donalds Trump á tollahækkunum hafi haldið taktinum gangandi . Tæknifyrirtæki hækkuðu um 6,9%. Markaðir utan BNA hækkuðu einnig. Vísitalan í Shanghai hækkaði um 13,8% og er það rakið til þess að MSCI tilkynnti að hlutdeild kínverskra hlutabréfa í MSCI EM vísitölunni yrði hækkað úr 5% í 20% í þremur skrefum. Hækkanir héldu áfram í marsmánuði en ekki að sama krafti og hækkaði S&P 500 um 13,65% á fyrsta ársfjórðungi og hefur ekki hækkað jafn mikið síðan árið 2009. Heimsvísitölur hækkuðu einnig og vonir fjárfesta voru á þá leið að BNA og Kína myndu semja sín á milli og viðskiptastríðið yrði úr sögunni.sín 

Apríl kom og S&P 500 hefur ekki hækkað jafn mikið á fyrstu fjórum mánuðum árs síðan árið 1987. Þegar hér var komið við sögu töldu fjárfestar að markaðir myndu halda áfram að hækka, með ágætum hagnaðarvexti, sögulega lágum stýrivöxtum og jákvæðum tón í stjórnmálum og meðbyr Seðlabanka BNA. Tæknifyrirtæki hækkuðu um 6,4% og voru nú upp um 27,5% á árinu með Facebook upp um 48%, Apple 35%, Amazon 29% og Netflix 42%. Hagnaður fyrirtækja jókst og leit út fyrir að S&P 500 myndi skila hagnaði um $170 á hlut vs. $152 árið 2018. 77% fyrirtækja S&P 500 voru yfir væntingum greinenda á fyrsta ársfjórðungi 2019. Lífið gat vart verið betra eða hvað? Maí kom, en fór ekki svo auðveldlaga. Pólitísk áhætta jókst verulega eftir að Donald Trump tvítaði og viðskiptastríð BNA og Kína harðandi án lausnar í sjónmáli. BNA setti meira að segja nýja tolla á Mexíkó. S&P 500 lækkaði um 6,4% en var þó upp 10,7% á árinu. Greinendur héldu sig flestir við $170 hagnað á hlut fyrir árið 2019 og VH hlutfall S&P 500 framvirkt var komið í 16,0x og það í lækkandi vaxtaferli. Markaðir utan BNA fundu vel fyrir Donand Trump í maí og lækkaði heimsvísitalan um 5,3% en MSCI EM lækkaði um 7,3%. Nýr tónn kom í fjárfesta í júní og hækkaði S&P 500 um 7,05% og voru nú bankar komnir meira í sigtið hjá fjárfestum. Áberandi og umtöluð hlutafjárútboð  áttu sér stað eins og Beyond Meat og Chewy.com. MSCI EM hækkaði um 6,3% og hafði MSCI ACWI hækkað um 16,6% frá upphafi árs 2019 og S&P 500 18,54%.

Í upphafi júlí virtist það vera þannig að markaðurinn var ekki alveg á því hvort hann ætti að hækka eða lækka þar sem miklar sveiflur voru í upphafi mánaðarins. Líklega var það vegna þess að skilaboð Seðlabanka BNA samhliða vaxtalækkun voru misvísandi. Lífið hélt þó áfram eftir það og áfram héldu hlutabréf í BNA að hækka í júlí, S&P 500 um 1,44%. Hinsvegar lækkuðu flestar aðrar vísitölur utan BNA og MSCI EM lækkaði um 1,15%. Heimsvísitalan hækkaði um 0,33% með BNA í farabroddi. Hagtölur utan BNA höfðu ekki verið sterkar og sýndi sig á hlutabréfamörkuðum. Seðlabankar utan BNA höfðu farið að lækka vexti til að auka eftirspurn en áhætta vegna viðskiptastríðs BNA og Kína lá eins og mara yfir markaðnum og enginn samskipti á milli aðila. Boris Johnson tók við sem forsætisráðherra Bretlands og markaðsaðilar voru nánast allir á því að Seðlabanki Evrópu myndi fara að örva hagkerfið. Aukið fjármagn fór nú að berast til BNA frá Evrópu. Þrátt fyrir það lækkaði S&P 500 í ágústmánuði um 1,6%. Þó ber að hafa í huga að S&P 500 hækkaði um 2,8% í lok ágúst. Líklega voru fjárfestar í sínu árlega sumarfríi og komu til baka í síðustu viku ágúst. Það sem hélt aftur af markaðnum var líklega það að tollar á vörur frá Kína áttu að koma til þann fyrsta september og spurningin var þá hvort einkaneysla í BNA myndi minnka við það að vöruverð myndi hækka. Fjárfestar voru með vindinn í andlitið. Þeir hlutabréfaeignaflokkar sem a endanum stóðu sig best voru þeir sem mælast með minna sögulegt flökkt. Vextir voru komnir enn neðar þegar þarna var komið við sögu. MSCI ACWI lækkaði um 2,3%. Í september hækkaði S&P 500 um 1,87% og  voru það lítil og meðalstórifyrirtæki sem leiddu hækkanir í BNA (yfir 3%). Hinsvegar voru hækkanir þriðja ársfjórðungi um 1,7% og hafði S&P 500 þá hækkað um 20,55% á fyrstu níu mánuðum 2019. FANG (Facebook, Amazon, Netflix, Google) bréf voru undir heildarmarkaðnum og voru öll undir 52 vikna hágildi. Hinsvegar höfðu félög eins og Microsoft og Apple hækkað mikið á árinu þegar þarna var komið við sögu. MSCI ACWI hækkaði um 2,14% og hafði hækkað um 16,72% fyrstu níu mánuði 2019. Á þriðja ársfjórðungi lækkaði MSCI EM rúmlega  4%. Komu þessar lækkanir þrátt fyrir lækkanir á vöxtum í BNA og auknum stuðningi seðlabanka Kína og Evrópu. Voru það helst pólitískir vindar sem höfðu þar neikvæð áhrif og fann undirritaðir mikið fyrir því. Brexit var enn í umræðunni og nú voru það mótmæli í  Hong Kong sem settu mikinn svip á landslagið í heiminum. Einnig var það sterkur dollar sem hafði sín áhrif. Fjármagn hélt áfram að streyma til BNA. Þá var komið að síðasta ársfjórðungi 2019.

Undirritaður viðurkennir að hafa haft áhyggjur að því að fréttamiðlar og aðrir miðlar myndu vera mikil drifkraftur fyrir markaðinn niðurá við eins og á sama tíma 2018. Hinsvegar var vonin sú að fjárfestar myndu horfa á stóru myndina. Stóra myndin var í lagi.

Hagtölur fóru að birtast frá BNA í októbermánuði og sýndu þær fram á að hagvöxtur hafði verið 1,9% á ársgrundvelli sem var 0,3% yfir væntingum greinenda. Atvinnuleysi var í lágmarki og laun höfðu hækkað. S&P 500 hækkaði um 2,17% þrátt fyrir Brexit, mótmæli í Hong Kong og rúmt ár í forsetakosningar í BNA, auk viðskiptastríðs BNA og Kína. Meiri vilji virtist vera fyrir áhættu utan BNA og hækkaði MSCI ACWI um 2,76% og MSCI EM hækkaði um 4,23%. Þegar var búið að fara betur yfir hagtölur í BNA kom í ljós að hagvöxtur var hærri en 1,9% eða 2,1% á ársgrundvelli. S&P 500 lokaði nánast í hámarki í nóvember og hækkaði um 3,63% í mánuðinum og var þá upp um 27,6% á árinu. Það var hægt að færa rök fyrir því í nóvember að verð á hlutabréfum fæli í sér væntingar um góðar fréttir væru framundan með lausn á viðskiptastríði BNA og Kína og V/H hlutfall S&P 500 í 20,89x.

Markaðsaðilar fóru að að birta sínar spár fyrir um árið 2020 í lok árs 2019 og væntingar um tveggja stafa hagnaðarvöxt voru algengar. Undirritaður telur að árið verði gott en þó að vöxtur hagnaðar verði ekki jafn hár og markaðsaðilar ytra telja. Ég tel að kosningar í vöggu lýðræðisins verði meiri áhrifavaldur á hlutabréfavísitölur en rekstrarniðurstöður félaga í helstu vísitölum heimsins.  Í lok desember höfðu markaðir nánast endað í hámarki og áratugurinn á enda. S&P 500 endaði í 3.231, V/H gildi vísitölunar var 21,6x og hafði húnn hækkað um 31,5% með arðgreiðslum á árinu. Þrjár vaxtalækkanir ásamt minnkandi líkum á viðskiptastríði BNA og Kína studdi við markaði. S&P 500 hækkaði um 9% á fjórða fjórðungi. Apple hækkaði um 89% og Microsoft hækkaði um 57,6% og voru þá einu fyrirtækin yfir 1.000 mö.USD. Svipaða sögu má segja af öðrum heimshlutum. MSCI ACWI hækkaði um 9% á síðasta fjórðungi 2019 og hækkaði um 27,3% á árinu 2019. VH gildi MSCI ACWI er 19,8x sem er um 8,3% frá S&P 500. Eftir um áratuga hærri ávöxtun markaða BNA þá líta aðrir markaðir vel út að mínu mati. Spurning hvort dollar fari að gefa eftir á þessu ári og hvort að það verði aukið flæði út úr BNA og inn í önnur ríki. Það kæmi ekki á óvart að hlutabréfaverð í BNA yrði eftirbátur annarra markaða en þó hafa þessi 50 ríki komið á óvart hvað eftir annað.

Ragnar Benediktsson er sjóðstjóri erlendra hlutabréfasjóða hjá ÍV sjóðum hf.