ÞRÓUN ERLENDRA VERÐBRÉFAMARKAÐA FRÁ SUMARLOKUM 2020

RAGNAR BENEDIKTSSON ER SJÓÐSTJÓRI HLUTABRÉFASJÓÐA HJÁ ÍV SJÓÐUM HF. RAGNAR SKRIFAR UM ÞRÓUN ERLENDRA VERÐBRÉFAMARKAÐA FRÁ SUMARLOKUM 2020

 

Magnað hvað tíminn líður hratt. Það er svo stutt síðan ég ritaði pistill (sjá hér) um hvernig markaðir höfðu þróast fram yfir sumarlok og frá þeim tíma hefur margt gerst. Frá því ég skrifaði síðast grein um erlenda markaði í lok sumars 2020 hefur S&P 500 vísitalan hækkað um rúm 15% og heimsvísitalan um rúm 11%, Trump tapaði kosningum, sem var nánast óhugsandi þegar árið 2020 byrjaði, við höfum séð mörg félög sem vart eru með tekjur hækka um hundruði prósenta, önnur fara á hausinn og Musk sem ríkasta mann í heimi.

Sumarið leið og september kom. Hagtölur frá BNA voru á þá leið að VLF lækkaði um 31,4% á ársgrundvelli og atvinnuleysi var 8,4%. Húsnæði hélt áfram að hækka í úthverfum þar sem fólk vildi flýja mannmergðina í stórborgunum. Á þessum tímapunkti virtist framtíð hagkerfis BNA hvíla á 2.200 ma. USD örvunarpakka sem var að líða undir lok. Seðlabankinn lofaði lágum vöxtum til ársins 2023 og peningamagn í umferð hélt áfram að rísa. VLF spá seðlabanka BNA hljóðaði upp á 32%. S&P 500 lækkaði um 3,8% í september eftir að hafa séð um 10% lækkun frá há og lágpunkti. Fjárfestar keyptu “dippið”. S&P 500 hafði hækkað um 5,6% frá áramótum. Vaxtafélög lækkuðu um 4,7% en virðisfélög lækkuðu um 2,8%. Þarna hafa fjárfestar verið byrjaðir að taka “re-opening trade”. Vaxtarfélög höfðu hækkað um 20,6% á árinu á móti 11,9% lækkun virðisfélaga.

Alþjóðleg hlutabréf lækkuðu og heimsvísitalan (MSCI ACWI) var niður um 3,2%, þróaðir markaðir (e. MSCI EAFE) lækkuðu um 2,6% og þróunarmarkaðir (e. MSCI EM) lækkuðu um 1,6%. Tæknifélög utan BNA hækkuðu í september og fóru fjárfestar að sýna félögum eins og Alibaba og Tencent meiri áhuga, félögum sem eru töluvert minni að markaðsvirði en sambærileg félög í BNA, en þó með svipað viðskiptamódel og yfirburðastöðu á sínum mörkuðum.

Á þessum tíma hafði krafa á ríkisskuldabréf í BNA hækkað um nokkra punkta en var þó um 100 punktum lægri en á sama tímabil fyrir ári síðan. Seðlabanki BNA ætlaði sér að leyfa verðbólgu að fara yfir 2% og notast við 12 mánaða meðaltals-verðbólgumarkmið og var Seðlabanki Evrópu með svipaðar pælingar. Það var lítið sem gaf til kynna að verðbólga færi að hækka en þó þurftu seðlabankar að fara gætilega þar sem tímabundið ástand á mörkuðum leiddi til mikilla hækkana á ýmsum undirliðum. Gott dæmi er verð á timbri í BNA.

VLF á þriðja ársfjórðungi 2020 hækkaði um 33,1% á ársgrundvelli eftir að hafa lækkað um 31,4% á öðrum ársfjórðungi. Þegar þarna var komið við sögu má segja að um V-laga efnahagsbata hafi verið að ræða. Covid-19 enn að breyðast út, kosningar að nálgast og engin lausn í sjónmáli þegar kom að bólusetningu. Húsnæðisverð í BNA hélt áfram að hækka, framleiðsluvísitölur hækkuðu einnig og nánast allt sem var með orðið tækni tengt við sig hækkaði. Verðbólga var kominn í 1,4% en verð á olíu og á leigu vegna húsnæðis hélt henni nokkuð niðri. Fundur seðlabanka BNA var á næsta leyti og horfðu fjárfestar mest til orða seðlabankastjóra um framhaldið eftir kosningar og reiknuðu fjárfestar með miklu flökti á hlutabréfamarkaði og áframhaldandi lágum vöxtum án aukningar í kaupum seðlabankans á skuldabréfum til þess að halda eftir skotvopnum í búrinu ef örvunarpakki myndi ekki berast frá stjórnvöldum. Krafa á ríkisskuldabréf hækkaði í október og varð brattari.

S&P 500 vísitalan lækkaði um 5,6% í október en var upp um 4,4% í lok október, sem verður að teljast mjög gott miðað við ástandið. Virðisfélög lækkuðu minna en vaxtarfélög eða 2% á móti 3,1%. Uppgjör félaga fóru að birtast og þrátt fyrir fínar tölur þá lækkuðu mörg þeirra stærstu, líklega vegna þess hversu mikið þau höfðu hækkað á árinu.

Alþjóðleg hlutabréf lækkuðu um 2,4% í október, þróaðir markaðir lækkuðu um 4% en þróunarmarkaðir hækkuðu um 2,1%. Það sem hafði mest áhrif á markaði í Evrópu var þriðja bylgja Covid faraldurins með Frakkland, Þýskaland og Bretland sem boðuðu þá hertar aðgerðir. Kínversk hlutabréf hækkuðu um 1,7% mælt í USD og biðu margir fjárfestar spenntir eftir Ant Group frumútboði sem átti að fara fram 5 nóvember.

Í nóvember var það orðið ljóst að það tæki hagkerfið lengri tíma að komast í gang með enn frekari lokunum og voru markaðsaðilar áhyggjufullir af aukningu Covid sýkinga vegna Hrekkjavöku. Reiknuðu markaðsaðilar með lækkun á VLF á fjórða ársfjórðungi 2020. Einnig voru líkur á því að örvunarpakki þingsins yrði minni en talið var í október og var talað um að ferðageirinn, ásamt veitingageira og smærri fyrirtækjum fengju mesta aðstoð. Mjög jákvæðar fréttir fóru að berast frá lyfjafyrirtækjum um bóluefni gegn Covid-19. Reiknuðu fjárfestar með að viðsnúningur hagkerfisins færi á fullt um mitt ár 2021 og með lága vexti og nánast loforð um lága vexti til ársins 2023 virðast hlutabréf vera helsti kostur fjárfesta sem vilja fara í áhættueignir. Húsnæðisverð hélt áfram að hækka í BNA og hefur eignastaða almennings sjaldan eða aldrei verið betri.

Trump tapaði kosningum og Biden verður næsti forseti BNA. Fjárfestar munu fylgjast vel með hvaða aðila Biden mun velja með sér næstu fjögur árin. Dúfan Janet Yellen tekur við af Mnuchin sem fjármálaráðherra BNA sem eru að mínu mati stór fótspor til að fylgja eftir. Hún hinsvegar stýrði Seðlabanka BNA vel og tóku fjárfestar nokkuð vel í útnefningu hennar.

Nóvember fer líklega seint úr minni fjárfesta með um 11% hækkun á S&P 500 vísitölunni. Markaðurinn hækkaði eftir að Biden var kosinn auk þess að fréttir af bóluefni fóru að berast. Markaðurinn virtist horfa framhjá neikvæðum Covid-19 fréttum. Hinsvegar var enn óvissa með Georgíuríki, þ.e hvort að við myndum sjá bláa bylgju að fullu sem myndi líklega koma öllum málefnum Demókrata að. Virðisfélög hækkuðu meira en vaxtarfélög og hækkaði t.d. orkugeirinn um 28% í nóvember. Hækkuðu virðisfélög um 12,9%.

Alþjóðleg hlutabréf hækkuðu um 12,4% og hækkuðu þróaðir hlutabréfamarkaðir um 15,5% en þróunarmarkaðir um 9,3%. Reikna ég með því að val Kanans á Biden hafi spilað þar stórt hlutverk auk frétta af bóluefni og veikari dollara. Allt eitthvað sem hjálpar hlutabréfum að mínu mati. Það er mín skoðun að þróaðir markaðir hafi hækkað meira þar sem þeir voru að ná í skottið á  bæði Asíu og BNA. Hinsvegar er t.d. Evrópa með mun minni örvunarpakka og aðstoð Seðlabanka miðað við BNA og Asíu. Evrópa hækkaði um 17,1% og 20,15% mælt í USD. Japanski hlutabréfamarkaðurinn hækkaði um 15%.

Nóvember var einnig góður fyrir skuldabréf, ólíkt október og J-hækkuðu verð skuldabréfa töluvert í mánuðinum. Nokkuð augljós “risk-on” þróun sýndi sig.  Góð hækkun var á skuldabréfum í þróunarríkjum sem gerðu betur en fyrirtækjabréf með “investment grade” en það voru skuldabréf í ruslflokki sem hækkuðu mest. Vextir hafa farið lækkandi í þróunarríkjum en verð á þeim hefur ekki hækkað í takt að mínu mati og tel ég að með lækkandi vöxtum og veikari dollara að þessi eignaflokkur muni gefa töluvert á árinu 2021.

Í desember fór að hægja á hagkerfinu í BNA með töluverðri aukingu Covid-19 smita. Húsnæðisverð hélt áfram að hækka en þó tók að hægja á nýjum byggingum þar sem virðiskeðjan átti í erfiðleikum með aðföng vegna Covid-19. Verðbólga var ekki enn farinn að láta á sér kræla og mældist hún um 1,2%  í nóvember. Atvinnuleysi mældist 6,7% sem var í takt við væntingar og hafði lækkað úr 6,9%. Á sama tíma fyrir ári síðan var atvinnuleysi um 3,5% sem er sögulegt lággildi. Fjárfestar reikna með erfiðum fyrstu sex mánuðum 2021 en sjá fyrir sér góðan bata á 2H 21.

S&P 500 vísitalan hækkaði í desember og lokaði árinu í 3.756 stigum og hefur aldrei verið hærri. Hækkaði vísitalan um 18,76% að teknu tilliti til arðgreiðslna en um 70,2% frá lægsta punkti í mars. Það sem hjálpaði mest að mínu mati var seðlabanki BNA með sínum inngripum á markði. Fjárfestar munu líklega minnast ársins 2020 sem árs skammstafanna, Covid-19, WFH (work from home) og FAAMG sem hækkuðu að meðaltali um 52,4% á árinu 2020. Ef mér reiknast rétt þá voru þessi félög með um 16% af 18% hækkun S&P 500 á árinu 2020. Vöxtur vs. virði bilið var um 30% í lok ársins 2020 og margir fjárfestar farnir að kalla eftir því að virðisbréf hækki meira en vaxtabréf árið 2021. Ég yrði ekki hissa ef það myndi gerast, en svo getur allt gerst.

Alþjóðleg hlutabréf hækkuðu um 4,7% árið 2020 og endaði MSCI ACWI vísitalan í hágildi. Með áframhaldandi væntingum um lækkandi dollara er hægt að reikna með því að hlutabréfaverð hækki á árinu 2021 með um 40% vísitölunar utan BNA. Hlutabréf þróaðra markaða hækkaði um 4,7% í desember og endaði árið í 8,4% hækkun þrátt fyrir mikinn mótvind vegna Covid-19. Hlutabréf þróunarríkja hækkuðu um 7,3% í desember og enduðu árið upp um 18,5%.

Ríkisskuldabréf í BNA voru ekki að gefa mikið í desember en bjóða núna upp á ágætis virði að teknu tillit til áhættu en fjárfestar þurfa að mínu mati að vera á lengri endanum til að ná  fram einhverri ávöxtun. Fyrirtækjabréf í investment grade flokki eru komin á sama stað og fyrir Covid-19 þegar horft er til mismunar milli þeirra og ríkisbréfa þrátt fyrir mun hærri skuldsetningu og mun meiri óvissu. Fyrirtækjabréf í neðri flokkum eru komin á svipaðan stað og fyrir Covid-19 en bilið hefur verið þrengra og teljum við að þau eigi enn inni ávöxtunarlega séð.

Að lokum má ekki gleyma Brexit en þrátt fyrir að fjögurra ára útgöngu/óvissu sé nú að mestu lokið er ennþá bullandi óvissa þar. Hlutabréfaverð í Bretlandi hefur ekki gert góða hluti síðan Brexit kom til og hefur verið töluvert á eftir hlutabréfaverði í Evrópu.

Margir eru á því að hlutabréfaverð sé orðið allt of hátt og hafi aldrei verið hærra sé horft á margfaldara. Ég er að einhverju leyti ósammála og er búinn að vera það lengi (sjá hér og hér). Fyrir mér snýst málið að miklu leyti um það hvert annað er hægt að að  fara með peningana til að ná fram ávöxtun. Það er ákveðinn skóli sem er á því að hlutabréfaverð hafi í raun aldrei verið lægra og ætla má að ég tilheyri þeim hópi að einhverju leyti. Það er ekki samanburðarhæft að bera saman sögulegt V/H gildi S&P 500 vísitölurnar með meðaltal um 15,9x þegar núverandi yield 10 ára ríkisbréfa í BNA eru rétt norður af 1%. Núverandi yield á S&P 500 er um 2,6%. Ég get fært rök fyrir því að hlutabréfaverð eigi mögulega ennþá eitthvað eftir. Örvunarpakki Biden hjálpar mikið sem og vaxtastefna Seðlabanka BNA sem gefur að mínu mati til kynna að vextir verði mjög lágir næsu tvö til fjögur ár. Báðir þættir geta blásið lífi í hlutabréfaverð.

Ég er brattur á árið 2021 sem fer ágætlega af stað hjá eignasöfnum ÍV Sjóða og hlutabréfasjóðum í stýringu hjá okkur.