Fingurinn, tunglið og krónan

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða skrifar um aðgerðir hins opinbera til að sporna við styrkingu krónunnar.

Það er algeng iðja á Íslandi að ráðast gegn afleiðingum vandamála fremur en orsökum þeirra. Uppgangur ferðaþjónustunnar undanfarin ár sem einn máttarstólpa íslensks atvinnulífs hefur skapað gríðarlegan afgang af þjónustujöfnuði. Þeim gjaldeyrisafgangi sem ekki hefur verið varið til vörukaupa hefur verið mætt með sparnaði Seðlabanka Íslands og síðar innlendra lífeyrissjóða í erlendri mynt. Nú er svo komið að gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands hefur náð þeim alþjóðlegu viðmiðum sem bankinn hyggst miða við og því ekki þörf á frekari gjaldeyriskaupum. Því skortir kaupendur að þeim gjaldeyri sem hagkerfið er að skapa um þessar mundir, þ.e. vilja innlendra aðila til að spara í erlendri mynt. Sambland af innlendu vaxtastigi, gengi krónunnar og mismun á stöðu hagveiflunnar hérlendis og erlendis gerir það að verkum að áhugi á erlendum sparnaði er af skornum skammti. Í það minnsta virðist ekki vera áhugi til þess að spara í erlendri mynt á þeim hraða sem afgangur af utanríkisviðskiptum leyfir, sem hlýtur að setja þrýsting á frekari styrkingu krónunnar.

Nýlega var kynntur til sögunnar starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða; „Verkefni hópsins er að kortleggja árlega fjárfestingagetu lífeyrissjóðanna, setja fram æskileg markmið um erlendar eignir þeirra sem og áætlun um hversu hratt lífeyrissjóðirnir gætu náð slíkum markmiðum. Jafnframt skal hópurinn meta hvort æskilegt sé að breyta núverandi löggjöf um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða, einkum með tilliti til þaks eða gólfs á erlendri eign þeirra.“ 

Hópurinn fær til verksins um það bil jafnlangan tíma og það tekur sýslumann að útbúa vegabréf; 2 vikur. Áður hefur fjármálaráðherra opinberlega viðrað hugmyndir um að setja lágmark á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða í þeim tilgangi að sporna við styrkingu krónunnar.

Aukin áhættudreifing eignasafna lífeyrissjóða með erlendum fjárfestingum yrði jákvætt og sjálfsagt skref nú þegar að gjaldeyrishöft eru á undanhaldi. Því má hins vegar ekki gleyma að skuldbindingar þeirra eru allar í íslenskum krónum. Út frá áhættustýringarsjónarmiðum hlýtur hækkandi hlutfall erlendra eigna í eignasöfnum lífeyrissjóða að kalla á gjaldeyrisvarnir til þess að takmarka gjaldeyrisáhættu þeirra. Það verður því aldrei svo að allar erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða myndi nettó þörf fyrir kaup á gjaldeyri, hluti áhættunnar verður alltaf varin. Það er mikilvægt að lífeyrissjóðum verði gefinn tími og ráðrúm til að taka yfirvegaða ákvörðun um hækkun hlutfalls erlendra eigna á þeim hraða sem þeir telja sjálfir hæfa.

Það er varhugavert að þvinga skyldusparnað almennings til áratuga í erlenda mynt á stuttu tímabili til að vernda afkomu útflutningsgreina til skemmri tíma. Ef að markmið slíkra aðgerða er að vinna gegn styrkingu krónunnar, líkt og fjármálaráðherra hefur opinberlega rætt, viðheldur slík ráðstöfun gríðarlegum afgangi af utanríkisviðskiptum. Undir slíkum kringumstæðum mundi vandinn birtast aftur þegar að lífeyrissjóðir hafa yfirfært nægjanlegan hluta fjárfestinga sinna erlendis. Eftir stæði mikið flæði gjaldeyris vegna afgangs af utanríkisviðskiptum sem áfram verður vandi að finna kaupendur að í skiptum fyrir krónur.

Kjarni málsins er að vandamál tengd flæðistærðum á borð við afgang af utanríkisviðskiptum verða ekki til lengri tíma leyst með tilfærslu á stofnstærð á borð við eignasafn lífeyrissjóða. Slíkar ráðstafanir geta í besta falli frestað vandamálinu en viðhaldið orsökinni. Í tilfelli þvingaðra breytinga á eignasafni lífeyrissjóða skapa slíkar ráðstafanir verulega áhættu m.t.t. tímasetningar fjárfestinga og gengi krónunnar.

Alvöru lausnir á vandamáli á borð við það sem fjármálaráðherra fæst nú við taka á orsök vandans; „frjálsum veiðum“ á ferðamönnum. Ferðaþjónustuiðnaðurinn hér á landi er enn í gríðarlegum vexti sem aðeins takmarkast af því hversu mörgum einstaklingum er hægt að hnoða í gegnum Leifsstöð á háannatíma. Nú er svo komið að gjaldeyrissköpun ferðaþjónustuiðnaðarins gengur nærri samkeppnisstöðu annarra útflytjenda og raunveruleg hætta er á að hann ryðji úr vegi öðrum atvinnugreinum sem ekki búa við hömlulausan vöxt. Í núverandi stöðu stöndum við frammi fyrir tveimur valmöguleikum; krónan aðlagar sig að sífelldri fjölgun ferðamanna (styrking krónunnar) eða vöxtur í fjölda ferðamanna er aðlagaður að gengi krónunnar sem ryður ekki öðrum útflutningsgreinum úr vegi (hægari vöxtur í fjölda ferðamanna). Fyrri kosturinn felur í sér áframhaldandi búsifjar fyrir aðrar útflutningsgreinar. Sá síðari kallar á pólitíska leiðsögn, frumkvæði og framtíðarsýn. Aðrir kostir, á borð við kvaðir á hraða erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða fresta vandamálinu án þess að ráðast að orsök þess.