Hreinn Þór Hauksson ráðinn framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf.

Hreinn Þór Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf. Hann tekur við starfinu af Jóhanni Steinari Jóhannssyni.

Hreinn Þór hefur yfirgripsmikla reynslu af innlendum fjármálamarkaði. Frá upphafi árs 2017 hefur hann starfað við sérhæfðar fjárfestingar hjá Íslenskum verðbréfum en þar áður starfaði hann til rúmlega tveggja ára innan ÍV sjóða sem sjóðstjóri fagfjárfestasjóða. Hann er félaginu því vel kunnugur. Hreinn Þór hefur starfað við atvinnuþróun hjá Akureyrarbæ 2012-2014, en lengst af frá árinu 2005 starfaði hann sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Íslandsbanka/Glitni banka.

Hreinn Þór er með M.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Kolbeinn Friðriksson, formaður stjórnar ÍV sjóða; “Það er mikill fengur fyrir ÍV sjóði að fá Hrein Þór til baka til félagsins til að halda áfram því góða og öfluga starfi sem þar hefur verið unnið undanfarin ár. Félagið er nú sem endranær vel í stakk búið til að bregðast við örri þróun á mörkuðum og nýta tækifæri sem gefast. Stjórn félagsins vill þakka Jóhanni Steinari fyrir vel unnin störf og koma á framfæri óskum um velfarnað í nýju starfi.“ 

ÍV sjóðir hf. var stofnað árið 2001 og er dótturfélag Íslenskra verðbréfa hf. með höfuðstöðvar á Akureyri.  Félagið er í dag með stærri rekstrarfélögum verðbréfa- og fjárfestingasjóða á Íslandi, með um 35 milljarða króna í stýringu. Félagið rekur 13 verðbréfa- og fjárfestingasjóði auk eins fagfjárfestasjóðs. Sjóðaframboð ÍV sjóða nær til allra helstu tegunda fjármálagerninga sem almennum fjárfestum standa til boða. Hlutverk ÍV sjóða er að ávaxta fjármuni sjóðfélaga með sem bestum hætti með tilliti til áhættu.