Íslensk verðbréf ljúka fjármögnun sex milljarða veðskuldabréfasjóðs

Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri ÍV Sjóða
Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri ÍV Sjóða

Íslensk verðbréf hafa lokið fjármögnun veðskuldabréfasjóðsins VÍV II sem er sérsniðinn fyrir fagfjárfesta. Megintilgangur sjóðsins er fjármögnun atvinnufasteigna og fasteignasafna. Sjóðurinn, sem er í eigu stærstu fagfjárfesta landsins, verður rekinn af ÍV sjóðum sem er dótturfélag Íslenskra verðbréfa hf.

Sjóðurinn byggir starfsemi sína á áralangri reynslu ÍV sjóða af rekstri sambærilegra sjóða og aðkomu öflugra samstarfsaðila í RU ráðgjöf. Markmið aðila er að geta boðið fram fjárfestingarkost sem uppfyllir kröfu fjárfesta um hámarksávöxtun að teknu tilliti til fyrirfram ákveðinnar áhættu.

Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf.:

„Það er mjög ánægjulegt að fjármögnun sjóðsins sé lokið og að starfsemi hans sé að hefjast. Við finnum fyrir mikilli þörf fyrir öflugan og samkeppnishæfan aðila á fjármögnunarmarkaði um atvinnufasteignir sem byggir starfsemi sína á faglegri og skjótri ákvörðunartöku. Reynsla okkar og tengsl í gegnum starfsemi sambærilegra sjóða munu nýtast okkur til að byggja upp traust safn fjármögnunarverkefna.“

Hjörvar Maronsson, forstöðumaður ÍV Markaða:

„Veðskuldabréfamarkaðurinn er sá vettvangur sem fjárfestar horfa á í auknum mæli til að nálgast umframávöxtun á þá hefðbundnu fjárfestingarkosti sem bjóðast á skuldabréfamarkaði í dag. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og sértryggðra skuldabréfa bankanna hefur lækkað mikið að undanförnu og því teljum við safn skuldabréfa sem tryggð eru með veði í fasteign vera góðan fjárfestingarkost til lengri tíma.

Nánari upplýsingar veitir Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða í síma 460 4700 eða á netfanginu hreinnthor@ivsjodir.is.