Íslensk verðbréf skiluðu 116 m.kr. hagnaði á árinu 2016

Stjórn Íslenskra verðbréfa ásamt framkvæmdastjóra.  Á myndina vantar Steingrím Pétursson.
Stjórn Íslenskra verðbréfa ásamt framkvæmdastjóra. Á myndina vantar Steingrím Pétursson.

Aðalfundur Íslenskra verðbréfa fór fram á Hótel KEA Akureyri 24. apríl sl.  

Á fundinum voru Anna Guðmundsdóttir, Chris Van Aeken, Eiríkur S. Jóhannsson og Harpa Samúelsdóttir endurkjörin í stjórn félagsins.  Nýr í stjórn félagsins er Steingrímur Pétursson.

Varamenn í stjórn félagsins þeir Árni Magnússon og Þorsteinn Hlynur Jónsson voru einnig endurkjörnir.

Á fundinum var ársreikningur félagsins vegna ársins 2016 staðfestur. Þá var tillaga stjórnar um að greiða 70 m.kr. í arð til hluthafa samþykkt samhljóða.

Hagnaður Íslenskra verðbréfa árið 2016 var um 116 m.kr. eða sem nemur rúmlega 20% arðsemi eigin fjár, samanborið við 47 m.kr. hagnað árið 2015. Hreinar rekstrartekjur jukust um 33% á milli ára og námu 712 m.kr. samanborið við 535 m.kr. árið 2015.

Eigið fé í árslok 2016 nam 590 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall samstæðunnar sem reiknað er samkvæmt 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki var í árslok 29%.

Eignir í stýringu hjá Íslenskum verðbréfum jukust um 10% og voru 129 milljarðar í árslok 2016 en þær námu 117 milljörðum í árslok 2015.  Alls voru rúmlega 2 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í eignastýringu og vörslu hjá félaginu.

Íslensk verðbréf fagna 30 ára afmæli sínu á árinu

Eiríkur S. Jóhannsson formaður stjórnar segir að árið 2016 hafi verið ár breytinga hjá félaginu í kjölfar þess að nýir eigendur komu að félaginu í lok árs 2015.  „Stefna nýrra eigenda er að styðja félagið til áframhaldandi vaxtar og hafa verkefni félagsins á árinu 2016 tekið mið af því.  Sú grunnvinna sem hefur átt sér stað frá því að nýir eigendur komu að félaginu er farin að skila sér í fjölgun verkefna og viðskiptavina og á eftir að skila enn sýnilegri árangri á næstu mánuðum.  Sú staðreynd að félagið fagnar 30 ára afmæli sínu á árinu gefur félaginu sérstöðu á íslenska markaðnum og sterk staða þess gefur félaginu mikil tækifæri til áframhaldandi vaxtar á næstu misserum.“

Breytingar að skila sér í betri afkomu

 „Rekstur Íslenskra verðbréfa gekk vel á árinu 2016. Við sáum árangur breytinga og vöruþróunar byrja að skila sér þar sem tekjur jukust um 33% og hagnaðar meira en tvöfaldaðist. Umsvif félagsins jukust töluvert á flestum sviðum, starfsmönnum fjölgaði og nýjar vörur og þjónusta voru þróuð sem munu koma til með að mynda breiðari og sterkari grunn fyrir rekstur félagsins í framtíðinni.  Íslensk verðbréf fagna 30 ára afmæli sínu um þessar mundir og stefnir félagið á að vera virkur þátttakandi í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Mikil vöruþróun og kraftur er í félaginu og verkefnum og viðskiptavinum fjölgar. Það eru því spennandi tímar framundan og mikill meðbyr með því starfi sem nú er verið að vinna“ segir Sigþór Jónsson framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa,

Nánari upplýsingar veitir: Sigþór Jónsson framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, í síma 460 4700.