TFII fjárfestir í Genís

TFII slhf, fagfjárfestasjóður í rekstri Íslenskra verðbréfa, hefur fjárfest í líftæknifyrirtækinu Genís á Siglufirði, sem hefur að undanförnu lagt áherslu á markaðssetningu fæðubótarefnisins Benecta hér á landi og erlendis.

Fjárfestingu TFII er ætlað að styðja við frekari vöxt félagsins.  Unnið er að framleiðslu á lyfjabæti sem er í klínískum prófunum. Þá hefur félagið lokið dýratilraunum með ígræðsluefni fyrir bein. Einnig er félagið með í undirbúningi þróun á líftæknilyfi byggðu á þekkingargrunni félagsins.

„Genís er mjög spennandi fyrirtæki sem hefur náð eftirtektarverðum árangri á undanförnum árum sem byggir undir mikil tækifæri til framtíðar.  Við erum sannfærð um að aðkoma TFII mun verða hagfelld bæði sjóðnum og Genís.“ segir Jón Steindór Árnason, framkvæmdastjóri TFII.

„Við hjá Genís fögnum því að hafa fengið nýjan og öflugan hluthafa til liðs við okkur. Við horfum jákvæðum augum til framtíðar og stefnum nú ótrauð á frekari sókn inn á erlenda markaði,“ segir Róbert Guðfinnsson, stofnandi og stjórnarformaður Genís.