Vala Hauksdóttir tekur við sjóðstjórn Veðskuldabréfasjóða í rekstri ÍV sjóða hf.

Vala Hauksdóttir hóf störf hjá ÍV sjóðum í febrúar 2020 og hefur síðan komið að starfsemi sjóða í rekstri félagsins sem sérfræðingur í fjármögnun fasteigna. Vala tók við sjóðstjórn ÍV Skammtímasjóðs í byrjun júní og tekur nú við sjóðstjórn Veðskuldabréfasjóða í rekstri félagsins, VIV I og VIV II. Sjóðirnir eru sérhæfðir hlutdeildarsjóðir sem fjármagna atvinnufasteignir með fjárfestingu í skuldabréfum útgefnum af fyrirtækjum og félögum. VIV I hefur þegar lokið fjárfestingartímabili sínu en VIV II hóf starfsemi í mars 2019 og hefur 6 ma. fjárfestingargetu. Sjóðurinn leitar fjárfestingartækifæra og mun Vala stýra þeirri leit.

"Ég sé mikil tækifæri í farvatninu þessi og komandi misseri og þá sérstaklega hvað viðkemur verkefnum sem tengjast fjármögnun fyrirtækja. Slík verkefni þarfnast oft aðkomu öflugra samstarfsaðila og við hjá ÍV og ÍV sjóðum getum verið sá aðili. Við viljum vinna með viðskiptavinum okkar og það ætlum við okkur að gera. Fjármögnun í gegnum sjóði er góður valkostur fyrir fyrirtæki og félög" segir Vala Hauksdóttir.

Vala er með mikla reynslu af fasteignaviðskiptum og fjármögnun fasteigna auk þess að hafa komið að almennri fjármögnun og endurskipulagningu fyrirtækja með víðtækum hætti. Vala er með B.Sc og M.Sc gráður í viðskiptafræði og stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands, er með próf í verðbréfaviðskiptum og löggiltur fasteignasali.

„Vala er ein af þeim sem kemur að borðinu með mikla orku og virkni og hefur til að bera góðar tengingar og reynslu sem nýtist okkur vel í komandi verkefnum. Viðskiptavinir ÍV og ÍV sjóða munu klárlega njóta góðs af aðkomu hennar í gegnum góð verkefni og að lokum í formi góðrar ávöxtunar. Hún er öflug viðbót við teymi ÍV sjóða og við gerum ráð fyrir góðum hlutum frá henni á næstunni“ segir Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða.

ÍV sjóðir hf.  veitir viðskiptavinum sínum þjónustu með því að ávaxta fé í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu þar sem áhersla er lögð á árangur í ávöxtun og fagmennsku og virkni í stýringu. Félagið er rekstraraðili verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og sérhæfðra sjóða.