63 m.kr. hagnaður af starfsemi fyrstu 6 mánuði ársins

Rekstur Íslenskra verðbréfa gekk vel fyrri hluta ársins, en félagið skilaði 63 m.kr. hagnaði á tímabilinu.Rekstur Íslenskra verðbréfa gekk vel fyrri hluta ársins, en félagið skilaði 63 m.kr. hagnaði á tímabilinu.

Mikill vöxtur var á öllum sviðum eignastýringar, hvort sem horft er til einstaklinga eða fagfjárfesta, og fjölgaði viðskiptavinum félagsins töluvert.  Eignir í stýringu hjá félaginu nema í dag 110 milljörðum króna og hafa aukist um 27 milljarða síðustu 12 mánuði. 

Ávöxtun eignasafna hefur sömuleiðis gengið vel, til að mynda hefur Áskriftarsjóður ríkisverðbréfa hækkað um rúm  13% frá áramótum og alls um 20% síðustu 12 mánuði.

Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, er að vonum ánægður með árangurinn.  „Íslensk verðbréf eru í dag elsta eignastýringarfyrirtæki landsins og byggja á yfir 20 ára reynslu af ávöxtun fjármuna á fjármálamarkaði“.

„Félagið er sérhæft fjármálafyrirtæki á sviði eignastýringar og markmið þess er að hámarka hag viðskiptavina og tryggja þeim sem besta ávöxtun. Við stundum hvorki útlánastarfsemi né  hefðbundna  fjárfestingarbankastarfsemi sem gæti aukið líkur á hagsmunaárekstrum. Við finnum að viðskiptavinir okkar, gamlir og nýir, meta þessa sérstöðu mikils “ segir Sævar.

Hann nefnir jafnframt að opnun skrifstofu að Sigtúni 42 í Reykjavík sumarið 2009 hafi verið heillaspor.  „Viðtökurnar hafa verið góðar og stöðugur vöxtur í heimsóknum og fyrirspurnum.  Nú starfa þar þrír starfsmenn á eignastýringarsviði, en þeim kann að fjölga fljótlega fari svo fram sem horfir.“


Um Íslensk verðbréf
Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem hófu starfsemi árið 1987. Starfsmenn eru 23 talsins, höfuðstöðvar þess eru á Akureyri en jafnframt starfrækir félagið skrifstofu að Sigtúni 42 í Reykjavík. Eignir í stýringu nema 110 milljörðum króna.