Afmælishátíð í Hlíðarfjalli

Samfylkingin sigraði í svigkeppni á 20 ára afmælishátíð Íslenskra verðbréfa hf.

nu1o84501_120Íslensk verðbréf hf. bauð Eyfirðingum og gestum þeirra til afmælishátíðar í Hlíðarfjalli sl. laugardag í tilefni af 20 ára afmæli félagsins. Meðal atriða á hátíðinni var að frambjóðendur stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi reyndu með sér í samhliða svigi og var keppnin jöfn og spennandi. Kristján L. Möller, oddviti Samfylkingarinnar, vann að lokum nafna sinn, Kristján Þór Júlíusson, oddvita Sjálfstæðisflokks, í úrslitaeinvígi um gullið. Í þriðja sæti varð svo Framsóknarflokkurinn en þar fór fremstur í flokki Þórhallur Höskuldsson, sem skipar 3. sæti á lista flokksins.

Fyrrverandi og núverandi skíðakempur sýndu hvað í þeim býr en þær voru stjórnmálamönnunum til halds og trausts. Kempurnar sem kepptu voru Margrét Baldvinsdóttir, Árni Óðinsson, Tómas Leifsson og Dagný Linda Kristjánsdóttir.
Margt manna fylgdist með keppninni í Hlíðarfjalli svo og bræðrunum Karíusi og Baktusi sem lýstu keppninni og skemmtu gestum og Óskari Péturssyni sem söng nokkur lög. Þá bauð Friðrik V gestum hátíðarinnar upp á heitt súkkulaði með rjóma og kleinur með.

Íslensk verðbréf buðu yngstu kynslóðinni í bíó á laugardaginn og var fullt út úr dyrum. Ennfremur nýttu fjölmörg börn og unglingar sér boð ÍV um að fara frítt í sund á laugardaginn. Íslensk verðbréf þakka öllum sem komu að hátíðinni, bæði þeim sem tóku þátt í framkvæmdinni og ekki síður þeim fjölmörgu gestum sem mættu á þá viðburði sem í boði voru.