Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,27% í vikunni og verðtryggð bréf lækkuðu um 1,15%.

Það sem hafði mest áhrif á markaðinn var frétt frá viðskiptaráðuneytinu um samning á milli evrópska seðlabankans og þess íslenska. Evrópski seðlabankinn lúrir á íbúðabréfum og ríkisbréfum, samtals að markaðsvirði um 95 milljarða.

Megnið af þessu eru íbúðabréf eða rétt um 75 milljarðar. Efni fréttarinnar var á þá leið að íslenska ríkið væri að kaupa þessi bréf og reiknaði með að endurselja þau á innlendum markaði.

Gangi þetta eftir mun framboð íbúðabréfa þrefaldast á næsta ári en framboð frá Íbúðalánasjóði verður 35-40 milljarðar. Þetta hefur hins vegar ekki svo mikil áhrif á ríkisbréfin þar sem meira en helmingurinn af þessum pakka er í flokki sem er á gjalddaga í mars og fer því ekki út á markaðinn.

Innlend hlutabréf

Aðeins þrír viðskiptadagar voru fyrir jól á innlenda hlutabréfamarkaðinum, var velta því frekar lítil með bréf félaga í OMXI6ISK  eða fyrir um 150 milljónir.  Mest viðskipti voru með bréf í Össuri, fyrir um 131 milljón.  Vísitalan hækkaði um  0,22% í vikunni.

Össur hækkaði mest félaga í OMXI6ISK í síðustu viku, um 1,01% í 44 viðskiptum.

Alþingi hefur samþykkt lög um að það verði aftur tekin upp skattafsláttur  vegna hlutabréfakaupa en slíkur afsláttur var í gildi á árunum 1991-2003. 

Afslátturinn er hins vegar einungis vegna kaupa á hlutum í nýsköpunarfyrirtækjum.  Fyrirtækin verða að hljóta staðfestingu hjá Rannsóknarmiðstöð Íslands sem nýsköpunarfyritæki. 

Frádráttur vegna hlutabréfakaupa getur mest orðið þrjú hundruð þúsund krónur á ári hjá einstaklingi en sex hundruð þúsund hjá hjónum.  Lögin taka gildi um áramótin og því ekki hægt að nýta skattafsláttinn á þessu ári. 

Skilyrði fyrir afslættinum er að eiga béfin yfir þrenn áramót, ef bréfin eru seld innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári bréfanna. 

Hægt er að komast hjá þessu með því að kaupa á sama ári og ekki seinna en 30 dögum eftir söluna, hlutabréf í öðru nýsköpunarfyrirtæki fyrir söluandvirði hinna bréfanna.

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram.
12 mán
Bakkavör 1,95 0,00% 44,44% 11,43% 63,87% -25,57% -22,62%
FO-Atla 152,5 0,00% -8,13% -34,89% -51,34% -55,55% -55,55%
FO-Bank 128 0,00% -3,76% -9,54% 6,22% 5,79% 4,49%
Icelandair Group 3,65 0,00% -5,19% 65,91% -23,16% -72,45% -72,45%
Marel 61,9 -0,16% 1,48% 3,34% 19,73% -20,44% -15,78%
Össur 150,5 1,01% 14,89% 23,87% 34,98% 50,80% 50,65%
OMXI6ISK 801,88 0,22% 3,19% 0,01% 9,43% -19,78% -19,78%
Erlend hlutabréf

Allar helstu hlutabréfavísitölur heims hækkuðu í síðustu viku en á Wall Street er algengt að hlutabréfaverð hækki síðustu daga ársins. 

Frá Bandaríkjunum bárust þær fréttir að stórbankinn Citigroup hefði endurgreitt 20 milljarða dollara til ríkissjóðs Bandaríkjanna af þeim 45 milljörðum sem bankinn fékk í aðstoð frá ríkinu. 

Ríkið á nú þriðjungshlut í bankanum þar sem 25 milljörðum var breytt í hlutafé.  Þá hefur Wells Fargo, fjórði stærsti banki Bandaríkjanna, greitt 25 milljarða dollara lán til Seðlabanka Bandaríkjanna eftir vel heppnað hlutafjárútboð í þessum mánuði.

Frá Norðurlöndunum bárust þær fréttir að danska hagkerfið óx um 0,6% á þriðja ársfjórðungi samanborið við fjórðunginn á undan en miðað við þriðja ársfjórðung á síðasta ári mældist hins vegar 5,2% samdráttur. 

Hafa nú verið birtar tölur fyrir öll Norðurlöndin og eru öll hagkerfin að takast á við samdrátt.  Þá dróst einnig breska hagkerfið saman um 0,2% á þriðja ársfjórðungi samanborið við fjórðunginn á undan.  

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram.
12 mán
DAX 5957,44 0,92% 3,99% 7,03% 24,06% 24,72% 29,59%
FTSE 5372,38 3,56% 0,70% 6,30% 27,04% 21,84% 28,12%
CAC 3912,73 2,14% 3,30% 5,24% 24,40% 22,28% 26,27%
Dow Jones 10520,1 2,06% 0,53% 8,85% 24,17% 19,87% 24,23%
Nasdaq 1869,84 5,16% 4,25% 10,37% 26,70% 54,32% 57,89%
S&P 500 1126,48 2,80% 1,43% 7,86% 22,41% 24,71% 29,76%
Nikkei 10494,71 3,48% 17,10% 6,24% 7,66% 20,03% 21,68%
OMXS30 961,545 0,20% 0,11% 7,18% 23,37% 45,94% 46,64%
OBX 339,4074 -0,03% 4,68% 18,86% 34,83% 71,24% 80,48%
OMXH25  2000,739 1,67% 1,63% 3,34% 26,28% 32,35% 37,02%
OMXC20 335,0812 -0,44% 1,49% 2,32% 16,42% 35,85% 36,82%
Krónan

Krónan styrktist í vikunni fyrir jól og lækkaði gengisvísitalan um 0,42% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 236,28. Undanfarnar vikur hefur verið töluverð breyting á gengi einstakra gjaldmiðla gagnvart krónu. Dollar hefur styrkts um tæp 5%, en evra hefur gefið eftir um 1%.

Á sama tíma hafa gjaldmiðlar sem gjarnan styrkjast við titring á mörkuðum og aukna áhættufælni fjárfesta gefið eftir. Þar má nefna japansk jen, en það veikist um 5,9% gagnvart dollar, en stóð í stað gagnvart evru. Breska pundið er að rétta úr kútnum gagnvart evru en í Bretlandi hefur dregið verulega úr samdrætti.

Íslenskt hagkerfi á töluvert undir því að þróun erlendra gjaldmiðla verði hagfelld, en ástæða þess eru misdreifing á milli erlendra tekna og skulda. Nú um stundir eru lágvaxtamyntirnar japansk jen og svissneskur franki mjög sterkar, en veiking þeirra mun létta á skuldabyrði landsins.

Einnig mun styrking dollars og punds hafa jákvæð áhrif í gegnum útflutning á vörum s.s. áli, fiski og raforku. Líklegt er að áðurnefndar lágvaxtamyntir veikist er lausafjárkreppan fjarar út og að pund og dollar styrkist gagnvart evru.   

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 236,28 -0,42% -0,18% 0,53% 1,19% 8,89% 6,59%
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.