Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,26% í vikunni og verðtryggð bréf lækkuðu um 0,06%. Krafan hækkaði töluvert á stuttum óverðtryggðum bréfum en lækkaði hinsvegar óverulega á löngum óverðtryggðum bréfum. Stystu verðtryggðu bréfin, HFF 14 hækkuðu í verði og er verðtryggð krafa á þeim rúm 2,7%.

Samkvæmt breytingum vikunnar virðist markaðurinn telja að verðbólga til skemmri tíma verði heldur meiri en áður var talið. Minni fjárfestar virðast sækja í HFF 14 þrátt fyrir lága kröfu og vilja þannig verðtryggja sig til skemmri tíma. Verðbólguálag til tveggja ára er nú um 4,6% sem verður að teljast nokkuð hátt miðað við spár. 

Innlend hlutabréf

Tíðindalítið ár er að baki á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Ný úrvalsvísitala (OMXI6) hóf göngu sína með aðeins sex félögum í stað fimmtán áður og nú er svo komið að þrjú þeirra eru færeysk. Vísitalan fór af stað með upphafsgengið 1000 en endaði árið í 814,98 sem er 18,5% lækkun.

Vonandi verða meiri umsvif á íslenska hlutabréfamarkaðinum á því ári sem nú er gengið í garð. Nánar um þróun einstakra félaga má sjá í töflunni hér fyrir neðan. Tvö íslensk félög báru uppi veltuna á árinu 2009, Össur og Marel. Bæði voru með hlutafjárútboð á árinu sem gengu vel og Össur var skráð í dönsku kauphöllina samhliða þeirri íslensku.

Er skráningin liður í að koma til móts við erlenda fjárfesta sem eru hluthafar í félaginu auk þess sem þetta hefur aukið veltu með bréf félagsins.  Erlendir fjárfestar keyptu um 5% hlut í Marel á árinu og má velta því fyrir sér hvort skráning í erlenda kauphöll verði undirbúin í ár.

Frá og með áramótum er ný samsetning OMXI6 eftirfarandi: Bakkavör, Atlantic Airways, Atlantic Petroeum, Føroya Banki, Marel og Össur.  


Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán  2009
Bakkavör 2 2,56% 17,65% 17,65% 75,44% -20,63%
FO-ATLA 160 4,92% -3,61% -54,93% -48,94% 53,36%
FO-BANK 129,5 1,17% -1,89% -4,43% 7,47% 7,02%
FO-AIR 141 0,00% -4,08% -4,08% -11,32% -19,89%
Marel 62,4 0,81% -1,58% -4,59% 13,87% -19,79%
Össur 154,5 2,66% 18,39% 26,12% 33,77% 54,81%
OMXI6ISK 814,98 1,63% 4,66% -7,48% 9,48% -18,50%
Erlend hlutabréf

Árið 2009 var nokkuð sveiflukennt. Fram í mars lækkuð hlutabréf mikið, en þá snéru flestir markaðir og við tóku miklar hækkanir. Sem dæmi má nefna að á árinu hækkaði S&P 500 í Bandaríkjunum um 23,5%, Nikkei í Japan um 19%, DAX í Þýskalandi um 23,8% og FTSE í Bretlandi um 22,1%. Norðurlöndin skiluðu mjög góðri ávöxtun, en þau hækkuðu öll um meira en þriðjung, Noregur mest, um 70,4%.

Horfur á hlutabréfamörkuðum eru nokkuð góðar en hagvöxtur er kominn af stað víðast hvar. Víða eru þó erfiðleikar t.d.  í Japan en stjórnvöld þar voru að auka verulega við ríkisaðstoð til Japan Airlines sem er eitt stærsta flugfélag í heiminum.

Heilt yfir er búist við ágætis hagvexti, aukinni einkaneyslu og aukinni fjárfestingu. Ef spár rætast mun það leiða til aukinna umsvifa fyrirtækja og aukinnar iðnaðarframleiðslu. Samfara því ætti hlutabréfverð að hafa svigrúm til hækkana.  


Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán 2009
DAX 5957,43 0,64% 7,22% 6,29% 25,33% 23,8%
FTSE 5412,88 0,94% 3,40% 8,78% 26,37% 22,1%
CAC 3936,33 1,70% 6,50% 8,06% 24,81% 22,3%
Dow Jones 10428,05 -0,85% -0,42% 9,66% 22,62% 18,8%
Nasdaq 1860,31 -0,51% 4,06% 11,64% 25,58% 53,5%
S&P 500 1115,1 -0,97% 0,56% 8,28% 20,77% 23,5%
Nikkei 10546,44 2,72% 15,04% 6,17% 8,02% 19,0%
OMXS30 951,7187 -0,24% 3,24% 6,96% 21,32% 43,7%
OBX 339,3244 1,61% 10,24% 19,33% 37,17% 70,4%
OMXH25  2032,585 1,59% 10,76% 9,46% 31,20% 34,1%
OMXC20 336,6917 2,66% 7,32% 4,86% 20,52% 35,9%
Krónan

Krónan styrktist síðustu viku ársins og lækkaði gengisvísitalan um 1,47% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði árið í 232,81.

Krónan veiktist um 7,64% á árinu, þrátt fyrir gjaldeyrishöftin og því ljóst að þau hafa ekki virkað sem skyldi. Viðskiptajöfnuður er jákvæður en töluvert fjárstreymi er vegna vaxta ásamt því sem margir hafa ekki virt gjaldeyrislögin. Þetta hefur orðið þess valdandi að krónan hefur gefið eftir á árinu.  

Telja má líklegt að krónan eigi erfitt uppdráttar á næstunni. Fáir hafa trú á henni og vilja því frekar eiga erlenda mynt. Þetta skapar mikla tregðu í að breyta erlendum eignum yfir í krónur en gjaldeyrishöftin gera mönnum þó erfitt fyrir enn um sinn. Búast má við snarpri veikingu krónunnar þegar þeim verður aflétt. Það má reyndar draga í efa að þeim verði aflétt á þessu ári og reyndar eru ákveðnar líkur á að erfitt verði að afnema þau í náinni framtíð.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán  2009
GVT ISK 232,8087 -1,47% -1,14% -0,74% 1,28% 7,64%

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.