Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Vísitala 5 ára óverðtryggðra bréfa hækkaði um 1,41%. Á sama tíma lækkuðu vísitölur 5 og 10 ára verðtryggðra bréfa um 1,98% og 2,41%. Það varð því mjög kröftugur viðsnúningur á skuldabréfamarkaði í vikunni.

Framan af janúar höfðu fjárfestar verið að verðtryggja sig þar sem reiknað var með 0,6-1% hækkun verðlags í janúarmælingunni og svo viðvarandi verðbólgu fram á vorið. Öllum á óvart þá lækkaði vísitalan um 0,31% sem þýðir að 12 mánaða verðbólgan er komin í 6,6%.

Daginn eftir mælinguna lækkaði Seðlabankinn svo stýrivexti um 50 punkta og sagði um leið að eina ástæða þess að vextirnir hefðu ekki lækkað meira væri Icesave málið. Við getum því átt von á töluverðri lækkun stýrivaxta á næstu mánuðum fari svo að niðurstaða fáist í það mál.

Áhrif þessara frétta á markaðinn voru kröftug eins og áður sagði. Fjárfestar losuðu sig við verðtryggð bréf og byrgðu sig upp að af óverðtryggðum bréfum. Ekki er ólíklegt að þessi þróun haldi eitthvað áfram næstu vikurnar.

Innlend hlutabréf

Óvenjulega mikil velta var á íslenska hlutabréfamarkaðinum í síðustu viku sem skýrist af einum viðskiptum með bréf í Færeyjabanka á föstudaginn. Heildarveltan í vikunni var 2,9 milljarðar og þar af voru fyrrgreind viðskipti 2,6 milljarðar.  Viðskipti með bréf i Marel voru fyrir 159 milljónir og í Össuri fyrir 124 milljónir.

Flöggun fylgdi í kjölfar viðskiptanna með bréf í Færeyjabanka þar sem  7,72% eignarhlutur skipti um hendur og kemur fram að Hilda hf. (Saga Capital) er að eignast þennan hlut. Hvað liggur að baki þessum viðskiptum hefur ekki komið fram en ólíklegt er að um stöðutöku sé að ræða og líklegra að einhvers konar uppgjör eigi sér stað.

Eftir þennan fyrsta mánuð ársins er vert að huga að hver ávöxtun íslenskra hlutabréfa hefur verið. Vísitalan hefur hækkað um 1,12% sem skýrist af 4,21% hækkun Össurar og 3,09% hækkun Færeyjabanka. Þrjú félög, Marel, Atlantic Petroleum og Atlantic Airways eru á núllinu en Bakkavör hefur lækkað um 34,15%.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,25 -7,41% -37,50% 0,00% -14,38% -37,50% -32,80%
FO-AIR 141 0,00% 0,00% -4,08% -9,62% 0,00% -14,55%
FO-ATLA 160 0,00% 0,00% -20,00% -43,60% 0,00% -57,08%
FO-BANK 132 -1,12% 1,93% -3,65% 9,54% 1,93% 13,30%
Marel 60.3 -3,37% -3,37% -10,53% 18,24% -3,37% -6,37%
Össur 160 -0,62% 3,56% 24,03% 41,59% 3,56% 68,07%
OMXI6ISK 806,59 -2,13% 1,03% -0,68% 8,09% -1,03% -10,81%
Erlend hlutabréf

Loksins endaði sagan endalausa með söluna á SAAB, sænska bílaframleiðandans. Bandaríski bílarisinn General Motors (GM) staðfesti í vikunni að SAAB verði selt til hollenska sportbílaframleiðandans Spyker en GM hefur verið með SAAB í söluferli í rúmt ár.

Fjárfestar tóku ekki vel í aðgerðir Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, en hann ætlar að stokka verulega upp í bankakerfi og fjármálalífi Bandaríkjanna. Bönkum verður gert að minnka efnahagsreikninga sína, hætta eigin viðskiptum og takmarka áhættu. 

Þetta eru aðalatriði nýrrar áætlunar sem hann setur fram til að koma böndum á fjármálakerfið. Álitsgjafar segja að þessar aðgerðir séu stríðsyfirlýsing á hendur bönkunum. Markaðir tóku almennt ekki vel í þessar aðgerðir og lækkuðu hlutabréf víða um heim.

Google skilar gríðarlega góðu uppgjöri fyrir síðasta fjórðung ársins 2009 en hagnaður fyrirtækisins fimmfaldaðist milli ára og var 252 milljarðar króna. Hagnaður Google fyrir árið 2009 í heild var 835 milljarðar, og jókst um 54% milli ára. Forstjóri Google segir að mikil bjartsýni ríki á möguleika netsins á árinu 2010 sem fyrirtækið ætli að nýta sér.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1128,32 -2,62% -4,19% 1,21% 7,16% -4,19% 33,46%
Þýskaland (DAX) 5608,79 -1,52% -6,10% 3,31% 4,91% -6,10% 28,95%
Bretland (FTSE) 5188,52 -2,15% -4,23% 2,76% 12,49% -4,23% 24,92%
Frakkland (CAC) 3739,46 -2,13% -5,50% 3,10% 8,56% -5,50% 25,08%
Bandaríkin (Dow Jones) 10067,33 -1,04% -3,46% 3,65% 9,77% -3,46% 25,83%
Bandaríkin (Nasdaq) 1741,04 -2,99% -6,41% 4,43% 8,59% -6,41% 47,51%
Bandaríkin (S&P 500) 1073,87 -1,62% -3,70% 3,64% 8,75% -3,70% 30,03%
Japan (Nikkei) 10198,04 -3,70% -3,24% 1,70% -1,47% -3,24% 27,66%
Samnorræn (VINX) 81,87797 1,52% 2,04% 7,91% 15,20% 2,04% 49,48%
Svíþjóð (OMXS30) 953,7125 0,28% -0,22% 0,52% 7,66% -0,22% 53,81%
Noregur (OBX) 329,8065 1,38% -3,21% 9,74% 21,92% -3,21% 63,27%
Finnland (OMXH25)  2057,178 1,07% 1,25% 11,51% 17,64% 1,25% 42,05%
Danmörk (OMXC20) 354,8541 2,30% 4,92% 8,98% 13,50% 4,92% 34,94%
Krónan

Krónan styrktist í síðustu viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,51% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 233,26 stigum.

Í vikunni birti Hagstofa Íslands verðbólgumælingar sínar fyrir janúar og var um lækkun að ræða. Í framhaldinu lækkaði seðlabankinn stýrivexti.  Markaðsaðilar tóku vel í lækkunina og styrktist krónan nokkuð seinni hluta vikunnar.

Gjaldeyrishöftin virðast halda nokkuð vel og aðgerðir gegn þeim sem fara á svig við þau eru öðrum víti til varnaðar. Þrátt fyrir það munu þeir sem vilja finna glufur í regluverkinu eflaust gera það. Líklegast er að gengi krónunnar verði á svipuðum slóðum áfram, en gæti þó styrkst ef Icesave málið klárast fljótlega með viðunandi niðurstöðu fyrir íslendinga. 

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 233,2631 -0,51% -0,01% -1,36% -0,30% 0,20% 18,68%
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.