Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf 

Óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,93% í vikunni og verðtryggð bréf hækkuðu um 1,37%. Þessi hreyfing var bein afleiðing þess að forseti Íslands skrifaði ekki undir icesave lögin. Fjárfestar reiknuðu með að krónan myndi veikjast, og þar með myndi verðbólgan verða meiri og langvinnari en reiknað var með, og fóru því úr óverðtryggðum bréfum og yfir í verðtryggð bréf.

Það sem vann enn frekar gegn óverðtryggðu bréfunum var að ef lokað yrði fyrir erlenda lántöku ríkisins myndi það trúlega þurfa að gefa út meira af skuldabréfum á innanlandsmarkaði og fram að þessu hefur ríkið eingöngu fjármagnað sig með óverðtryggðum bréfum.

Eftir lokun markaða á föstudaginn birti Lánasýslan útgáfuáætlun í lánamálum ríkisins fyrir árið 2010. Þar komu fram athyglisverðar upplýsingar sem hafa án efa mikil áhrif á skuldabréfamarkaðinn á næstu vikum.

Tvennt var það sem kom mest á óvart. Í fyrsta lagi ætlar ríkið að gefa út nýjan 10 ára verðtryggðan flokk og reiknar með að flokkurinn verði kominn í 50 milljarða í lok árs. Þetta hefur í för með sér verulegt aukið framboð af verðtryggðum bréfum á árinu.

Það seinna sem vakti sérstaka athygli var að ríkið ætlar að gefa út um 120 milljarða af ríkisbréfum en á gjaldaga eru um 130 milljarðar. Það verður því nettó samdráttur í þesum bréfum.

Við reiknum með að áhrif þessa sjáist strax í vikunni þar sem verðtryggð bréf koma til með að lækka í verði á meðan að óverðtryggð ættu að hækka eitthvað.

Innlend hlutabréf 

Heldur rólegt var á innlenda hlutabréfamarkaðinum í fyrstu vikunni á nýjum áratug, velta með bréf félaga í OMXI6ISK var aðeins fyrir um 80 milljónir króna og þar af voru viðskipti með bréf í Össuri um 74,6 milljónir króna.

Össur hækkaði mest félaga í OMXI6ISK í síðustu viku, um 1,62%.

Færeyska félagið Eik Banki hækkaði um 10% í síðustu viku og endaði gengi félagsins í 88. Century Aluminum hækkaði í síðustu viku um 3,23% og lokagengi var 1.980.  Hækkun þessara félaga sem eru ekki skráð í OMXI6ISK vísitöluna myndaðist í mjög fáum viðskiptum og í lítilli veltu með bréfin.

Opnunartími í Kauphöllinni færðist fram til kl. 9:30 frá og með 4. janúar og lokar nú kl. 15:30.

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram 12 mán
Bakkavör 2 0,00% 17,65% 37,93% 68,07% 0,00% -6,98%
FO-ATLA 160 0,00% -3,61% -54,93% -48,94% 0,00% -64,33%
FO-BANK 129 -0,39% -2,27% -7,19% 7,05% -0,38% 7,50%
FO-AIR 141 0,00% -4,08% -4,08% -11,32% -0,71% -18,97%
Marel 61,3 -1,76% -0,81% -6,98% 11,,45% -1,28% -22,70%
Össur 157 1,62% 15,44% 28,16% 36,52% 1,95% 63,03%
OMXI6ISK 819,03 0,50% 4,04% 2,09% 8,74% 0,50% -12,52%
Erlend hlutabréf 

Nýlega greindi breska dagblaðið The Guardian frá því að Ísland væri eitt þeirra fimm landa sem fór verst í heimskreppunni.  Löndin sem voru nefnd ásamt Íslandi voru Grikkland, Írland, Dubai og Spánn.  Öll þessi lönd hafa verið í umræðunni undanfarið vegna ýmissa vandamála.

Atvinnuleysi hefur verið mikið vandamál á Spáni og fjölgaði atvinnulausum þar um 25,4% á síðasta ári og mælist nú 19,3%.  Mikill fjárhagslegur vandi er einnig til staðar í Grikklandi, Írlandi og Dubai.

Miklu fjármagni var dælt í helstu hagkerfi heimsins á síðasta ári og mikil hlutabréfahækkun átti sér stað í löndum eins og Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og Kína eða svokölluðum BRIK löndum. Á árinu 2009 hækkaði hlutabréfaverð í Rússlandi um 111,6%, í Brasilíu um 82,7%, á Indlandi um 81% og um 79,2% í Kína.

Margt bendir til þess að árið 2010 verði einnig gott ár fyrir BRIK löndin á hlutabréfamarkaði. Spáð er að heimsframleiðsla muni aukast og að hún verði m.a. drifin áfram af löndum eins og Kína og Indlandi.   

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram 12 mán
DAX 6037,61 1,35% 5,69% 6,51% 32,94% 2,12% 27,17%
FTSE 5534,24 2,25% 6,21% 8,26% 35,40% 3,24% 25,62%
CAC 4045,14 2,76% 7,30% 7,41% 36,82% 3,68% 23,70%
Dow Jones 10618,19 1,91% 1,40% 7,64% 30,34% 1,82% 23,48%
Nasdaq 1892,59 1,74% 5,61% 9,54% 33,30% 1,74% 54,75%
S&P 500 1144,98 2,74% 3,49% 6,86% 30,24% 2,68% 28,60%
Nikkei 10681,66 2,39% 6,83% 7,81% 16,27% 2,39% 22,20%
OMXS30 973,4423 2,28% 3,48% 9,24% 26,97% 3,27% 43,31%
OBX 349,4364 2,98% 7,15% 15,69% 50,98% 4,47% 68,50%
OMXH25  2108,109 3,72% 8,31% 10,29% 39,41% 4,46% 34,57%
OMXC20 353,2317 4,91% 8,47% 8,34% 28,69% 6,96% 32,46%
Krónan 

Krónan veiktist lítilega í síðustu viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,67% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 234,37 stigum.

Þrátt fyrir ákvörðun forseta Íslands á mánudaginn var, þá hafði hún mjög óveruleg áhrif á gjaldeyrismarkaðinn. Ástæða þess eru gjaldeyrishöftin og lítil viðskipti með krónuna á millibankamarkaði.

Hins vegar má búast við að krónan gefi eftir þegar frá líður ef lánveitingar tengdar efnahagsáætlun Íslands berast ekki. Ástæða þess er að líklega mun Seðlabanki Íslands halda í gjaldeyrsforða sinn og síður grípa inn í markaðinn.

Miðað við stöðuna sem upp er komin og þær upplýsingar sem liggja fyrir eru meiri líkur en minni á að krónan veikist á næstu misserum.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram 12 mán
GVT ISK 234,3709 0,67% -1,72% -1,20% 0,82% 0,05% 7,01%
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.