Markaðsfréttir - síðasta vika

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,86% í vikunni og verðtryggð bréf hækkuðu um 0,68%. Verðtryggð bréf halda því áfram að hækka og ljóst að það er töluverður verðbólguótti á meðal fjárfesta. Óverðtryggðu bréfin komu líka aðeins til baka eftir töluverða lækkun í vikunni á undan.

Þróun Icesave málsins mun hafa sterk áhrif á skuldabréfamarkaðinn næstu vikurnar. Eftir því sem lausn þess máls dregst á langinn mun eftirspurn í verðtryggð bréf verða meiri en í óverðtryggð.

Krónan hefur ekki hreyfst mikið frá áramótum en eftir því sem gengur á núverandi gjaldeyrisforða Seðlabankans mun trú á krónunni minnka og jafnframt geta Seðlabankans til að styðja við hana. Forsenda stöðugs gengis er tryggt aðgengi ríkisins að erlendu fjármagni.

Innlend hlutabréf

Enn er frekar rólegt á hlutabréfamarkaðinum þó að veltan hafi farið úr 80 milljónum í yfir 300 milljónir á milli vikna. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með hækkunum Össurar í vikunni.

Að einhverju leiti má rekja hækkunina til fréttar af sölusamningi sem félagið gerði undir lok síðasta árs sem ýtti undir væntingar markaðarins um að tekjur verði umfram áætlanir. Þetta ásamt greiningu SEB sem við höfum áður greint frá hefur styrkt trú markaðarins á félaginu. 

Athyglisvert var að hækkunin kom fyrst fram í kauphöllinni í Kaupmannahöfn en svo fylgdi sú íslenska á eftir. Fór gengi félagsins hæst í 170 en endaði vikuna í 168 sem gerir 7% hækkun í vikunni. Síðastliðna 12 mánuði hefur Össur hækkað um rúm 72%.

Mesta veltan var með bréf Össurar 225 milljónir og Marel 80 milljónir af um 311 milljóna heildarveltu félaga í OMXI6ISK vísitölunni. Utan vísitölunnar var um 22 milljóna velta með bréf Century Aluminum. 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram 12 mán
Bakkavör 1,95 -2,50% 0,00% 50,00% 38,30% -2,50% 1,04%
FO-AIR 141 0,00% 0,00% -4,08% -11,32% 0,00% -16,07%
FO-ATLA 160 0,00% -3,61% -20,00% -46,11% 0,00% -59,17%
FO-BANK 130 0,78% 1,56% -7,14% 7,00% 0,39% 15,04%
Marel 62,4 1,79% -1,73% -5,74% 15,34% 0,00% -11,61%
Össur 168 7,01% 11,26% 34,94% 48,02% 8,74% 72,48%
OMXI6ISK 843,15 2,95% 3,28% 4,53% 11,68% 3,46% -5,75%
Erlend hlutabréf

Efnahagslíf heimsins er að ná sér á strik,  það er mat helstu seðlabankastjóra heimsins sem telja að efnahagslífið sé að komast aftur í samt lag eftir gríðarlega erfiðleika síðustu tveggja ára. Eru það einkum svonefnd nýhagkerfi, svo sem Kína, sem hafa dregið vagninn.

Afkoma Alcoa, móðurfélags Fjarðaráls, fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs olli miklum vonbrigðum enda langt undir væntingum fjárfesta. Alls tapaði Alcoa 277 milljónum dollara eða tæplega 35 milljörðum kr. Þessi tíðindi höfðu slæm áhrif á Alcoa og lækkuðu bréf félagsins um 5,4%

Mikill samdráttur er hjá Boeing bandarísku flugvélasmiðjunni. Boeing hefur tilkynnt að pantanir á nýjum flugvélum hafi dregist saman um 60% á liðnu ári miðað við árið á undan. Ástæðan fyrir því er heimskreppan og minni eftirspurn eftir flugferðum og miklum erfiðleikum í flugrekstri.

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram 12 mán
DAX 5875,97 -2,68% 1,10% 2,65% 18,42% -1,04% 35,02%
FTSE 5455,37 -1,42% 5,21% 5,35% 24,59% 1,01% 31,85%
CAC 3954,38 -2,24% 4,44% 3,53% 23,13% 0,67% 31,36%
Dow Jones 10609,65 -0,05% 2,72% 6,14% 21,34% 1,74% 28,12%
Nasdaq 1864,52 -1,48% 3,16% 7,20% 22,08% 0,23% 55,62%
S&P 500 1136,03 -0,77% 3,04% 4,45% 20,81% 1,88% 33,63%
Nikkei 10982,1 1,70% 7,03% 5,83% 15,54% 2,93% 31,89%
OMXS30 970,6463 -0,29% 3,53% 4,46% 15,08% 1,83% 54,15%
OBX 345,3018 -1,18% 3,66% 11,08% 35,45% 1,45% 68,22%
OMXH25  2057,95 -2,38% 6,10% 7,05% 28,29% 1,70% 40,90%
OMXC20 359,2736 1,71% 7,71% 6,08% 22,92% 6,94% 38,85%
Krónan

Krónan styrktist lítillega í síðustu viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,11% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 234,11 stigum. Á innlendum millibankamarkaði eru viðskipti með krónur og evrur. Krónan styrktist í vikunni um 0,31% á móti evru og hefur verið óbreytt frá áramótum.

Nær engar sveiflur hafa verið á gengi krónunnar frá áramótum, en síðustu vikur fyrir áramót styrkist hún nokkuð. Þessi stöðugleiki vekur nokkra athygli, sér í lagi í ljósi ákvörðunar forseta Íslands að staðfesta ekki hin umdeildu Icesave lög.

Einnig fengu erlendir aðilar greidda vexti um áramót sem þeir gátu selt fyrir erlendan gjaldeyri. Þrátt fyrir þessa staðreynd þá hefur krónan haldist stöðug og geta nokkur atriði skýrt af hverju hún hefur ekki veikst.

Í fyrsta lagi gæti verið að erlendir aðilar eigi tiltölulega lítið af bankainnstæðum á Íslandi. Í öðru lagi að seðlabankinn hafi hleypt þessum viðskiptum framhjá millibankamarkaðinum eða beitt inngripum á honum. 

Í þriðja lagi gæti verið að umræddir aðilar vilji halda krónueignum sínum og ávaxta áfram hér á landi en slíkt er þó fremur ólíklegt í ljósi þess hvernig mál hafa þróast.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram 12 mán
GVT ISK 234,107 -0,11% -1,83% -1,26% 0,85% 0,16% 6,91%
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.