Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um tæpt prósent í vikunni og löng óverðtryggð bréf hækkuðu um tæp 0,6%.

Verðtryggðu bréfin komu því vel til baka eftir töluverða lækkun í kjölfarið á verðbólgumælingunni í janúar. Óverðtryggðu bréfin hafa hins vegar hækkað nokkuð stöðugt í verði frá verðbólgumælingunni.

Það er orðið nokkuð ljóst að inn í verðlagninguna eru komnar væntingar fjárfesta um jákvæða niðurstöðu í Icesave málinu og hraðri lækkun stýrivaxta í kjölfarið.

Næsta verðbólgumæling verður birt 24. febrúar og verður forvitnilegt að sjá hver hún verður en mælingin í janúar sýndi verðhjöðnun sem kom flestum á óvart. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans verður 19 mars n.k.

Á þeim tímapunkti ætti staða Icesave málsins að vera orðin nokkuð skýr og mun staða þess máls trúlega ráða mestu um hvort og þá hversu mikið stýrivextir verða lækkaðir.

Innlend hlutabréf

OMXNASDAQ tók í notkun nýtt viðskiptakerfi á öllum norrænu mörkuðunum í síðustu viku sem á að vera mun hraðvirkara heldur en Saxess kerfið sem áður var notað. Þessi breyting hefur truflað upplýsingagjöf frá upplýsingaveitum sem sérhæfa sig í að draga saman upplýsingar úr kauphöllinni.

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 3% í vikunni. Heildarfjöldi viðskipta í vikunni voru 61.

Mest hækkun var á bréfum Marel 5,2% og Atlantic Airways 3,7% en lækkun varð á bréfum Bakkavarar 16,7% og Atlantic Petroleum 0,6%.

Færeyjabanki fylgir eftir stefnu sinni um frekari vöxt og tilkynnti í vikunni um yfirtöku á 12 útibúum Sparbankans danska en útibúin dreifast á Jótland, Fjón og Grænland. Jafnframt tilkynnti bankinn um að samið hefði verið við Danske Bank um markaðsvakt á bréfum Færeyjabanka.

Marel hefur verið nokkuð í fréttum eftir að uppgjör félagsins fyrir síðasta ár var birt, hefur það verið að straumlínulaga reksturinn með því að selja frá sér einingar sem ekki er talinn vera hluti af kjarnastarfsemi þess.

Miklar afskriftir viðskiptavildar af þessum einingum setti einmitt mjög mark sitt á uppgjörið. Vonandi skilar þetta sér í bættri framlegð af rekstri sem ásamt auknum pöntunum gæti gert félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,25 -16,67% -34,21% -16,67% 10,62% -37,50% -33,16%
FO-AIR 141 0,00% 0,00% 0,71% -9,62% 0,00% -14,55%
FO-ATLA 159 -0,62% -0,62% -4,22% -42,62% -0,62% -58,09%
FO-BANK 146 6,96% 12,31% 7,75% 20,16% 12,74% 32,73%
Marel 61 5,17% -1,45% -11,47% 11,52% -2,24% 18,45%
Össur 163,5 2,83% -1,21% 20,66% 39,74% 5,83% 72,11%

OMXI6ISK

839,45

3,02%

0,50%

4,09%

10,49%

3,00%

-10,74%

(Nasdaq OMX Nordic, 15. feb. 2010)

Erlend hlutabréf

Hlutabréf í Evrópu hafa verið að lækka undanfarið og er ástæðan ótti fjárfesta að efnahagsbati í Evrópu sé ekki jafn mikill og menn gerðu sér vonir um. Hagvöxtur  á evrusvæðinu nam aðeins 0,1% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en menn voru búnir að gera sé vonir um að vöxturinn yrði 0,4%.

Þau ríki sem draga mest úr hagvexti á svæðinu eru Grikkland, Ítalía og Spánn, en einnig spilar inn í að helsta hagkerfi evrusvæðisins, Þýskaland, skilaði engum hagvexti á 4. ársfjórðungi en spár gerðu ráð fyrir vexti um 0,2%. Ljósi punkturinn á evrusvæðinu er Frakkaland en þar jókst hagvöxtur á 4. ársfjórðungi um 0,6%.

Það er mjög mikilvægt fyrir evrusvæðið að Þýskaland fari að ná sér á strik, þýskur útflutningur er í örum vexti en lítil einkaneysla og fjárfestingar halda hagvexti þar niðri.

Evran hefur verið að gefa eftir og er ástæðan m.a. sú að skortstaða spákaupmanna og vogunarsjóða gegn evrunni hefur aldrei verið jafn mikil og um þessar mundir. 

Af norrænu mörkuðunum er það að frétta að Nordea kom með ágætis uppgjör fyrir árið 2009. Hagnaður bankans fyrir skatta nam 20,8 milljörðum danskra króna (490 milljörðum íslenskra króna), en það er fimmfaldur hagnaður Danske Bank fyrir sama ár.

Nordea þakkar þennan hagnað fyrir varfærnislega útlánastefnu sína, útlánatap bankans fyrir 2009 var 11 milljarðar danskra króna (260 milljarðar íslenskra króna) eða tvöfalt minna en hjá Danske Bank. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1108 1,15% -7,39% -4,40% 4,07% -5,23% 32,29%
Þýskaland (DAX) 5500 1,22% -5,86% -2,73% 4,19% -7,15% 25,34%
Bretland (FTSE) 5142 1,84% -5,17% -2,32% 9,75% -4,42% 23,48%
Frakkland (CAC) 3599 0,99% -8,41% -4,84% 3,62% -7,99% 20,82%
Bandaríkin (Dow Jones) 10099 1,03% -4,81% -1,67% 8,34% -3,15% 28,64%
Bandaríkin (Nasdaq) 1779 1,92% -4,58% -0,53% 10,40% -4,36% 43,84%
Bandaríkin (S&P 500) 1076 0,97% -5,33% -1,64% 7,11% -3,55% 30,07%
Japan (Nikkei) 10092 0,35% -8,82% 2,49% -5,51% -5,06% 28,72%
Samnorræn (VINX) 81 0,62% -2,91% 1,75% 11,31% 0,76% 40,84%
Svíþjóð (OMXS30) 931 -0,49% -4,60% -4,28% 5,62% -2,70% 36,64%
Noregur (OBX) 311 -2,46% -9,95% -1,16% 14,88% -8,36% 47,63%
Finnland (OMXH25)  1989 -0,63% -3,22% 1,38% 8,92% -2,01% 35,20%

Danmörk (OMXC20)

350

-0,29%

-2,28%

5,87%

6,51%

4,27%

30,09%

(Bloomberg, 15. feb. 2010)

Krónan

Krónan veiktist aðeins í síðustu viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,18% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 231,69 stigum.

Lítil viðskipti eru á millibankamarkaði með krónuna og skýrast breytingar á gengisvísitölunni fyrst og fremst af innbyrðis sveiflum á gjaldmiðlum sem í vísitölunni eru.

Krónan er í gíslingu gjaldeyrishaftanna og getur sig lítið hreyft. Gjaldeyrisviðskipti fara að mestu fram hjá millibankamarkaðinum og því er verðmyndun ófullkomnari en ella.

Það er ljóst að gjaldeyrishöft eru óheppileg til lengri tíma og ljóst að erfitt verður að vinda ofan af þeim og í raun illmögulegt nema aðgengi að erlendu fjármagni sé tryggt.

Það virðist hins vegar standa og falla með lausn Icesave málsins. Icesave málið er því sem flest strandar á um þessar mundir og því ljóst að það verður að leysast fyrr en seinna svo endurreisn efnahagslífsins geti haldið áfram.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 231,69 0,18% -0,61% -2,05% -1,38% -0,48% 21,19%

(Bloomberg, 15. feb. 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.