Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf 

Í liðinni viku hækkuðu verðtryggð skuldabréf  um 0,85% og óverðtryggð skuldabréf um 0,49%.  Vaxtaferlar bæði verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa eru áfram tiltölulega flatir sem er athyglisvert þar sem sveiflur í verðbólgu og annarra hagstærða hafa löngum verið miklar hér á landi.

Ávöxtunarkrafa langra óverðtryggðra bréfa leitar áfram niður á við en ávöxtunarkrafa lengstu bréfanna sem eru á gjalddaga árið 2025 var í vikulok um 7,02% og hækkuðu bréfin um 0,65% í verði í vikunni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lokið annarri endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins og samþykkt lánafyrirgreiðslu að fjárhæð 160 milljónir dollara. Eftir þessa samþykkt má gera ráð fyrir lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum og Póllandi. Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir skuldabréfamarkaðinn en þó ber að hafa í huga að aflétting gjaldeyrishafta er forgangsmál í áætluninni og því er rými til vaxtalækkunar minna en ella.

Innlend hlutabréf 

OMXI6ISK vísitalan stóð nánast í stað á milli vikna og var heildarveltan 186 milljónir króna. Mest var veltan með bréf Marels fyrir 98 milljónir.

Meðalvelta OMXI6ISK  á dag það sem af er apríl eru rúmar 48 milljónir sem er talsvert undir þeim 99 milljónum sem var meðalvelta á hlutabréfamarkaðnum í mars.

Flest viðskipti í síðustu viku voru með bréf Bakkavarar eða 65 og lækkuðu bréf félagsins mest allra félaga á markaði, um 26,7% í 23 milljóna króna veltu. 

Föstudagurinn var síðasti viðskiptadagur með bréf Bakkavarar á markaði og hafa þau verið tekin úr OMXI6ISK vísitölunni.  Frá og með 19.apríl kemur Icelandair inn í vísitöluna í stað Bakkavarar.

Icelandair hækkaði mest í síðustu viku, um 3,03%.  Félagið er að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu og stefnt er að lokuðu hlutafjárútboði með innlendum fagfjárfestum til að styrkja frekar stoðir félagsins. 

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 0,99 -26,67% -34,00% -26,67% -23,85% -50,50% -12,39%
FO-AIR 129 -2,27% -2,27% -8,51% -12,24% -8,51% -25,65%
FO-ATLA 165 1,54% 1,23% 3,13% -17,50% 3,13% -0,36%
FO-BANK 160 0,63% 0,95% 20,75% 14,29% 23,55% 28,51%
Marel 83,8 1,95% 9,26% 34,29% 26,59% 34,29% 53,76%
Össur 190 -0,52% 3,83% 12,43% 52,61% 22,98% 105,41%
OMXI6ISK 962,24 -0,12% 5,17% 14,12% 19,29% 18,07% 46,82%

(Nasdaq OMX Nordic, 19. apríl 2010)

Erlend hlutabréf

S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 1,61% á föstudaginn.  Lækkunin kom í kjölfar frétta þess efnis að Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna (Securities Exchange Commission, SEC) hefur ákært Goldman Sachs um svik sem tengjast undirmáls verðbréfum.  Í lok dags höfðu hlutabréf félagsins lækkað um tæp 13%.  

Allar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu í síðustu viku eftir langt hækkunarferli.  Grikkland heldur áfram að vera í sviðsljósinu en gríska þingið hefur samþykkt að hækka skatta í tilraun til að minnka fjárlagahalla landsins.  Auk þess hafa stjórnvöld óskað eftir viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna mögulegrar efnahagsaðstoðar.

Röskun á flugsamgöngum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hefur einnig haft áhrif á hlutabréfamarkaði í Evrópu og víðar.  Flugfélög tapa gríðarlegum peningum á hverjum degi og mikil óvissa ríkir í greininni þar sem engin leið er að segja til um hversu lengi ástandið varir.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1222 -0,05% 2,64% 1,57% 4,41% 4,60% 38,69%
Þýskaland (DAX) 6181 -1,10% 2,86% 2,97% 5,15% 3,30% 31,58%
Bretland (FTSE) 5744 -0,43% 1,19% 3,70% 8,25% 5,62% 39,69%
Frakkland (CAC) 3987 -1,58% 0,89% -1,23% 1,74% 0,61% 28,08%
Bandaríkin (Dow Jones) 11.019 0,19% 2,58% 2,73% 9,18% 5,66% 35,51%
Bandaríkin (Nasdaq) 2013 0,94% 4,16% 6,19% 14,58% 8,20% 48,67%
Bandaríkin (S&P 500) 1192 -0,18% 2,78% 3,64% 8,58% 6,91% 37,09%
Japan (Nikkei) 11.102 -0,91% 0,78% 1,34% 6,57% 3,44% 22,47%
Samnorræn (VINX) 93 0,40% 2,17% 9,39% 17,49% 14,53% 50,16%
Svíþjóð (OMXS30) 1050 0,93% 1,96% 6,58% 10,47% 9,30% 35,49%
Noregur (OBX) 352 -0,39% 3,25% 0,33% 9,42% 1,91% 56,07%
Finnland (OMXH25)  2245 -0,93% 0,20% 6,28% 13,72% 9,14% 48,76%
Danmörk (OMXC20) 403 2,27% 5,12% 10,73% 16,89% 18,55% 50,91%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 19. apríl 2010)

Krónan

Krónan styrktist í síðustu viku um 0,44% og endaði samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans í 226,5 stigum. Kanadadalur  gaf mest eftir gagnvart krónu, 1,47% en Bandaríkjadalur gaf einnig verulega eftir eða um 1,18%. 

Í kjölfar annarrar endurskoðunar efnahagsáætlunar AGS á málefnum Íslands, sem áður var minnst á, má búast við að um 100 milljarðar króna muni bætast við gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.  Með þessu ætti að draga verulega úr áhyggjum af gjalddaga erlendra lána ríkissjóðs á árunum 2011 og 2012.

Að öðru jöfnu má búast við að þetta leiði til styrkingar krónunnar og lækkunar á skuldatryggingaálagi ríkisins. 

Á móti kemur neikvæð áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á ferðamannaþjónustuna í landinu.  Ef gosið dregst á langinn má reikna með lækkandi útflutningstekjum í greininni vegna tapaðra gjaldeyristekna af erlendum ferðamönnum.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 226,5039 0,44% -0,30% -3,23% -4,11% -2,71% 3,68

 (Bloomberg, 19. apríl 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.