Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Í liðinni viku hækkuðu verðtryggð skuldabréf  um 0,45% og óverðtryggð skuldabréf um 0,46%.  Löng óverðtryggð bréf hafa hækkað mjög mikið í verði og er ávöxtunarkrafa á bréfum á gjalddaga 2019 og 2025 komin undir 7%, sem er mjög lágt. Stuttu bréfin endurspegla að töluverði leyti væntingar til vaxtaþróunar næstu misserin.

Varðandi verðtryggðu bréfin þá er krafan á þeim um 15 punktum (0,15%) ofan við þau 3,5% sem almennt er talið vera gólf í ávöxtunarkröfu á verðtryggðum ríkistryggðum bréfum.  Þó er krafa á stysta bréfinu, HFF14 um 3,1%, en það endurspeglar líkast til að væntingar um verðbólgu eru meiri til styttri en lengri tíma.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 0,26% í síðustu viku, heildarvelta félaganna sex var 137 milljónir.  Mest velta, um 80 milljónir, var með BankNordik (áður Færeyjabanki) sem nú hefur fengið auðkennið BNORDIK í kauphöll.  Það sem eftir stendur af veltunni skiptist nokkuð jafnt niður á íslensku félögin þrjú Icelandair, Marel og Össur.

Eina félagið sem hækkaði í vikunni var Össur um rúm 1% en mesta lækkun var á bréfum Icelandair um tæp 9%.  Töluverð röskun hefur verið á áætlunarflugi Icelandair með tilheyrandi kostnaði og ríkir nokkur óvissa um áhrif eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli á ferðamannaiðnaðinn í heild sinni.  Framvinda eldsumbrotanna næstu vikurnar getur haft úrslitaáhrif á ferðamannasumarið 2010.

Nú fara uppgjör 1. ársfjórðungs að birtast og verður spennandi að sjá hvernig félögunum hefur gengið í því rekstrarumhverfi sem þau nú búa við.  Marel verður með kynningarfund fimmtudaginn 29. apríl.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 160 0,00% -23,00% 19,85% 15,52% 23,55% 33,33%
FO-AIR 128 -0,78% -3,03% -9,22% -12,93% -9,22% -26,22%
FO-ATLA 165 0,00% 1,23% 3,13% -17,50% 3,13% -0,36%
ICEAIR 3,1 -8,82% 3,33% -15,07% 40,91% -15,07% -38,00%
MARL 83,3 -0,60% 5,18% 33,49% 22,86% 33,49% 73,36%
OSSR 192 1,05% 3,23% 18,52% 53,60% 24,27% 111,45%
OMXI6ISK 964,7 0,26% 1,23% 16,83% 20,17% 18,37% 49,02%

(Nasdaq OMX Nordic, 26. apríl 2010)

Erlend hlutabréf

Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum héldu áfram að hækka í síðustu viku og frá áramótum hafa helstu hlutabréfavísitölur hækkað frá 7,4 til 10,5%.   Hækkunin skýrist af betri hagtölum og uppgjörum en spár sögðu til um.  Sem dæmi þá jókst sala á nýjum fasteignum um 23,8% í mars samanborið við sama mánuð í fyrra og er það mesta ársaukning frá júlí árið 2005.

Misjöfn þróun varð á evrópskum hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  FTSE vísitalan í London lækkaði um 0,31% og CAC í Frakklandi um 0,89%.  Hins vegar hækkaði DAX í Þýskalandi um 1,27%.  Grikkir hafa nú formlega beðið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið um efnahagsaðstoð.  Vangaveltur hafa þó verið á markaði um hvort aðstoðin sé nægileg en hún nemur 45 milljörðum evra.

Helstu hlutabréfavísitölur í Asíu lækkuðu í vikunni, Hang Seng í Kína lækkaði um tæp 3% og Nikkei í Japan um 1,7%.  Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur samþykkt að greiða háa sekt til bandarískra yfirvalda þar sem þeir tilkynntu ekki um galla eins og skylt er samkvæmt lögum. Toyota lækkaði um 3,38% í vikunni og hefur lækkað um 8% frá áramótum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1219 0,32% 2,68% 7,17% 7,50% 4,87% 38,89%
Þýskaland (DAX) 6260 1,27% 3,25% 11,47% 12,00% 6,07% 35,19%
Bretland (FTSE) 5724 -0,31% 1,06% 9,22% 11,02% 6,48% 38,68%
Frakkland (CAC) 3951 -0,89% 0,21% 5,00% 6,76% 1,55% 28,83%
Bandaríkin (Dow Jones) 11204 1,71% 3,26% 9,91% 13,54% 7,44% 38,73%
Bandaríkin (Nasdaq) 2055 2,11% 5,26% 13,94% 17,67% 10,48% 49,67%
Bandaríkin (S&P 500) 1217 2,12% 4,35% 11,46% 14,09% 9,16% 40,53%
Japan (Nikkei) 10914 -1,69% 1,54% 8,14% 7,75% 5,87% 28,22%
Samnorræn (VINX) 94 1,21% 4,39% 18,34% 24,07% 18,38% 51,98%
Svíþjóð (OMXS30) 1067 1,65% 4,53% 13,90% 16,96% 12,85% 37,84%
Noregur (OBX) 356 1,28% 5,70% 10,82% 17,44% 5,65% 63,39%
Finnland (OMXH25)  2251 0,28% 0,08% 13,23% 20,20% 12,03% 47,42%
Danmörk (OMXC20) 407 1,27% 8,10% 19,13% 24,65% 23,47% 54,63%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 26. apríl 2010)

 Krónan

Krónan veiktist í síðustu viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,63% og endaði samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans í 227,93 stigum. Sveiflur hafa minnkað mikið undanfarna mánuði og ljóst er að krónan er í hægfara styrkingarfasa.

Norðurlöndin hafa staðfest að það fé sem þau hafa heitið að lána Íslandi muni berast. Matsfyrirtækið Moody‘s breytti lánshæfismati ríkisjóðs úr neikvæðum í stöðugar á föstudaginn. Líklegt er að fleiri matsfyrirtæki fylgi í kjölfarið. Undrun sætir að skuldatryggingaálagið lækki ekki við þessar fréttir og eins að krónan styrkist ekki, þrátt fyrir að ríkissjóður geti auðveldlega greitt upp gjalddaga erlendra lána á árunum 2011 og 2012.  

Ávöxtunarkrafa á skuldabréf ríkissjóðs sem er á gjalddaga 1. desember 2011 heldur áfram að lækka og er nú um 7,8%, en var um 9,15% undir lok mars þegar Seðlabankinn tilkynnti um kaup á bréfum í flokknum. Líklegt er að Seðlabankinn hafi haldið kaupunum áfram, en slíkt er mjög hagkvæmt fyrir hann og þar með ríkissjóð.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 227,9324 0,63% 0,02% -2,82% -3,55% -2,71% 2,02%

(Bloomberg, 26. apríl 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.