Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu mikið í vikunni – lengri bréfin um 2,66% og styttri um 1,47%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu heldur minna eða um 0,76%.  Ávöxtun vikunnar var því mjög góð.

Ástæða mikillar hækkunar á verðtryggðum bréfum síðustu vikurnar er m.a. væntar gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur. Telja má líklegt að önnur orkufyrirtæki hækki gjaldskrár sínar í kjölfarið. 

Í kjölfar hærra raforkuverðs er ljóst að fyrirtæki sem reiða sig á rafmagn þurfa að hækka verð á sínum vörum s.s. garðyrkjubændur og bakarar.  Því má búast við töluverðu verðbólguskriði vegna þessa.

Seðlabankinn lækkaði vexti um 100 punkta á síðasta vaxtaákvörðunardegi og voru allir meðlimir peningastefnunefndar sammála um þessa lækkun. Búast má við að SÍ lækki vexti aftur töluvert á næsta vaxtaákvörðunardegi sem verður 22. september n.k. 

Rökin fyrir því eru m.a. að landsframleiðsla er að dragast saman en fyrri tölur Hagstofunnar gáfu til kynna að hún myndi aukast. Núverandi stefna í skattamálum og viðhorf til erlendra fjárfesta eru til þess fallin að ýta undir samdráttinn og því nauðsynlegt fyrir SÍ að draga enn frekar úr peningalegu aðhaldi.

 
Innlend hlutabréf

Það var lítið að gerast á hlutabréfamarkaðnum í vikunni.  Færeysku bankarnir BankNordik og Eik Bank auk Marels lækkuðu í verði og nam lækkun OMXI6ISK vísitölunnar í heild 1,41%.

Heildarveltan var rúmar 242 milljónir, mest með Marel og Össur að venju.   


Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 139,00 -1,42% -3,47% -8,55% -9,15% 7,34% 1,09%
FO-ATLA 150,00 0,00% 5,63% -6,25% -1,96% -6,25% -37,88%
FO-EIK 72,00 -5,88% -14,29% -8,86% -7,10% -10,00% -16,28%
ICEAIR 3,50 0,00% 2,94% 12,90% 6,06% -4,11% -10,26%
MARL 93,00 -0,85% 2,20% 16,54% 32,86% 49,04% 56,30%
OSSR 206,00 0,24% 4,83% 9,57% 22,99% 33,33% 60,31%
OMXI6ISK 936,75 -1,41% 0,16% 3,56% 6,86% 14,94% 14,29%

(Nasdaq OMX Nordic, 6. september 2010)


Erlend hlutabréf

Miklar hækkanir voru almennt á hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  FTSE hlutabréfavísitalan í London hækkaði um 4,37%, Dax í Þýskalandi um 3,08%, Nasdaq í Bandaríkjunum um 4,40% og Nikkei í Japan um 1,37%.  Rekja má hækkanir í vikunni til aukinnar framleiðslu í Bandaríkjunum og einnig eru merki um aukinn hagvöxt í Kína og Ástralíu.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum heldur áfram að aukast og mælist nú 9,6%.  Í ágúst töpuðust 54 þúsund störf og þar af tíu þúsund í einkageiranum en spár gerðu ráð fyrir að 120 þúsund störf myndu tapast í það heila. 

Atvinnuleysi í Þýsklandi hélst óbreytt milli júlí og ágúst og mælist nú 7,6%, en almennt stóð atvinnuleysi í stað á evrusvæðinu á sama tíma.  Þetta hafði góð áhrif á markaðinn en samt sem áður telja menn að efnahagsbatinn verði hægur næstu mánuði.

Samanlagður hagvöxtur allra 27 Evrópuríkjanna var 1% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs.  Þetta er mesti vöxtur sem sést hefur á milli fjórðunga í þrjú ár. Á sama tímabili er hagvöxtur á evrusvæðinu meiri en í hinum stóru hagkerfum heimsins.


Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1119,15 3,93% -1,80% 6,72% -3,33% -3,16% 5,21%
Þýskaland (DAX) 6134,62 3,08% -1,71% 3,60% 4,69% 3,28% 14,27%
Bretland (FTSE) 5428,15 4,37% 2,17% 6,28% -2,71% 0,65% 12,29%
Frakkland (CAC) 3672,20 4,88% -0,91% 6,56% -5,84% -6,46% 2,32%
Bandaríkin (Dow Jones) 10447,93 2,99% -1,93% 5,19% -1,12% 0,19% 10,66%
Bandaríkin (Nasdaq) 1870,31 4,40% -1,71% 2,09% -0,97% 0,54% 14,18%
Bandaríkin (S&P 500) 1104,51 3,80% -1,53% 3,72% -3,00% -0,95% 8,67%
Japan (Nikkei) 9114,13 1,37% -3,53% -6,06% -10,30% -11,81% -8,70%
Samnorræn (VINX) 91,91 4,46% -0,25% 6,80% 5,36% 15,47% 25,55%
Svíþjóð (OMXS30) 1047,99 2,86% -1,25% 6,42% 5,39% 10,52% 18,00%
Noregur (OBX) 338,06 5,51% -1,00% 7,08% 1,18% 0,10% 25,12%
Finnland (OMXH25)  2289,43 4,25% 0,35% 9,21% 6,09% 13,33% 23,30%
Danmörk (OMXC20) 408,29 3,77% -2,50% 2,97% 10,21% 21,47% 24,63%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 6. september 2010)


Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,94% og endaði í 206,06 stigum.  Þegar líða tók á vikuna varð styrkingin þónokkur.  Eflaust spilar innflæði vegna ferðamanna stórt hlutverk, en gjalddagar kreditkorta vegna júlí/ágúst mánaðar voru í byrjun mánaðarins.

Seðlabankinn hefur hafið kaup á gjaldeyri og hafði það léttvæg áhrif á gengi krónunnar, enda vilji bankans að svo verði.  Leiða má líkur að því að Seðlabankinn kunni að sporna við frekari styrkingu krónunnar. Ástæðan er sú að með sterkari krónu veikist samkeppnisstaða innlendra atvinnuvega sem myndi draga úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum. 

Það eitt og sér hefði síðan áhrif á hagvöxt til lækkunar.  Á móti kemur að skuldsetning einkageirans er mikil í erlendri mynt og eru tekjur litlar eða engar í erlendri mynt.  Skuldastaðan kann þó að breytast til batnaðar því algengar myntir í erlendum lánum eru japanskt jen og svissneskur franki. 

Þær myntir eru mjög sterkar á móti öðrum helstu myntum og líklegt að þær gefi eftir seinni hluta ársins.  Einnig gæti staða þessara aðila breyst verulega þegar Hæstiréttur hefur dæmt um vexti gengistryggðu lánanna.  Það fer þó eftir því hversu víðtækur dómurinn verður, þ.e. hversu mikið fordæmisgildi hann hefur.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 206,06 -0,94% -2,06% -3,55% -10,03% -11,49% -11,92%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 6. september 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.