Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Vikan var róleg á skuldabréfamarkaði. Löng verðtryggð bréf lækkuðu um 1,0%, stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 0,4% og óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,5%.

Á föstudaginn fór fram útboð á óverðtryggðum bréfum í flokknum RIKB12 og RIKB16. Einungis einu af þrettán gildum tilboðum var tekið í flokknum RIKB12 og er líklegt að erlendir fjárfestar séu að færa sig úr RIKB10 sem er á gjalddaga í desember.

Tilboðum í RIKB 12 var tekið fyrir 8 milljarða að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 3,9%. Í flokknum RIKB 16 var tilboðum tekið fyrir rúma 5 milljarða að nafnverði á ávöxtunarkröfunni 5,65%.

Skuldabréfamarkaðurinn er frekar stefnulaus um þessar mundir og trúlegt að markaðsaðilar séu að draga andann fram að næstu áhugaverðu tölum en vísitala neysluverðs fyrir desember verður birt 25. nóvember n.k. og næsta stýrivaxtaákvörðun SÍ verður 8. desember n.k.


Innlend hlutabréf

Í síðustu viku hækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,63%. Mest hækkuðu bréf í Marel og nam hækkunin 2,86%.  Heildarviðskipti í síðustu viku námu 763 m.kr. Mest voru viðskipti með BankNordik eða fyrir ríflega 619 m.kr í einum viðskiptum og lækkaði félagið um 1% í síðustu viku.

Icelandair Group skilaði góðu uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung í vikunni. Hagnaður eftir skatta nam 5,2 ma.kr. en var 4 ma.kr á sama tíma í fyrra. Fyrir fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður 3,2 ma.kr en tap var upp á 1 ma.kr. í fyrra.

Bætt afkoma skýrist einkum af auknu framboði og aukinni sölu á Norður-Atlantshafsmarkaði. Þá hefur félagið hækkað spá um hagnað fyrir afskriftir úr 9,5 milljörðum í 10,5 milljarða fyrir árið í heild.

Þá hefur stjórn Icelandair ákveðið að fara í opið hlutafjárútboð til þess að hækka hlutafé félagsins um 500 -1.059 milljónir hluti. Verð hvers hlutar verður 2,5 en gengi félagsins var í 3,3 við lokun markaða á föstudag. Markmiðið er að ljúka útboðinu fyrir árslok.

Stjórn Össurar hefur óskað eftir afskráningu félagsins úr kauphöll NASDAQ OMX á Íslandi og verður félagið þá einungis skráð í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Um 64% af hlutabréfum félagsins eru nú til viðskipta á danska markaðnum. 

Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir íslenskan hlutabréfamarkað þar sem Össur er stærsta fyrirtækið á markaðnum.

Tilboð Marel um endurkaup á skuldabréfaflokknum MARL 06 1 sem er á gjalddaga 8.febrúar 2012 var vel tekið og hafa um 66% eiganda samþykkt skilyrt tilboð félagsins.

Þá hyggst Marel einnig greiða upp skuldabréfaflokk MARL 09 1 en hann er uppgreiðanlegur hvenær sem er fyrir gjalddaga í nóvember 2011. Þetta er háð þeim skilyrðum að félagið nái viðunandi fjármögnun.

Uppkaupin draga úr gjaldeyrisáhættu félagsins og eru um leið  mikilvægt skref til að tryggja stöðuga og hagkvæma nýja fjármögnun.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 151,00 -0,98% 0,67% 7,86% -0,66% 16,60% 12,69%
FO-AIR 118,00 0,00% 7,27% 0,85% -7,09% -16,31% -16,90%
FO-ATLA 190,00 0,00% 18,75% 33,80% 17,65% 18,75% 14,46%
ICEAIR 3,30 -5,71% -5,71% -5,71% 6,45% -9,59% -19,51%
MARL 97,20 2,86% -0,51% 5,65% 29,60% 55,77% 41,90%
OSSR 210,00 2,44% -3,23% 5,00% 19,32% 35,92% 54,98%
OMXI6ISK 934,81 1,63% -0,84% 0,62% 6,82% 14,70% 16,27%

(Nasdaq OMX Nordic, 22. nóvember 2010)

Erlend hlutabréf

Í vikunni lækkaði heimsvísitalan um 0,03%, FTSE í Bretland lækkaði um 0,90%, Dow Jones í Bandaríkjunum hækkaði um 0,22%, samnorræna vísitalan Vinx hækkaði um 0,41% og Nikkei í Japan hækkaði um 3,06%.

Ástæðan fyrir miklum hækkunum á hlutabréfum í Japan var sú að hagvöxtur mældist 3,9% en sérfræðingar voru búnir að spá 2,5% hagvexti þannig að hagvöxtur var langt umfram væntingar.

General Motors var aftur skráð á markað eftir gjaldþrot í júní 2009, en það var þriðja stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna. General Motors skilaði góðum hagnaði á þriðja ársfjórðungi eða 1,96 milljörðum dala.

Það þarf að fara 11 ár aftur í tímann eða til ársins 1999 til að finna meiri hagnað á einum ársfjórðungi en þá var hagnaður 2,05 milljarðar dala.

Írska ríkið hefur óskað formlega eftir 70-90 milljarða evru láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Bretland hefur einnig boðið Írum 7 milljarða punda lán til viðbótar og hafa þessar aðgerðir haft jákvæð áhrif á markaðinn en markaðurinn túlkar þessar aðgerðir þannig að Írum verði bjargað frá gjaldþroti.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1235,33 -0,03% 1,01% 12,94% 15,06% 5,72% 7,82%
Þýskaland (DAX) 6843,55 1,62% 5,69% 14,76% 18,22% 15,67% 21,69%
Bretland (FTSE) 5732,83 -0,90% 0,44% 11,00% 13,90% 6,54% 9,81%
Frakkland (CAC) 3860,16 0,78% 0,53% 10,29% 13,35% -1,21% 4,28%
Bandaríkin (Dow Jones) 11203,55 0,22% 0,64% 9,69% 9,91% 7,44% 8,58%
Bandaríkin (Nasdaq) 2518,12 0,09% 1,56% 15,52% 12,97% 10,97% 17,34%
Bandaríkin (S&P 500) 1199,73 0,10% 1,41% 11,95% 10,30% 7,59% 9,93%
Japan (Nikkei) 10022,39 3,06% 7,30% 10,19% 3,38% -4,09% 6,50%
Samnorræn (VINX) 97,65 0,41% 0,12% 10,76% 19,32% 22,89% 26,11%
Svíþjóð (OMXS30) 1110,55 1,46% 0,63% 9,44% 17,11% 17,37% 17,38%
Noregur (OBX) 374,42 -0,96% 3,65% 16,72% 20,37% 11,37% 18,78%
Finnland (OMXH25)  2490,44 0,44% -0,40% 12,20% 22,39% 22,67% 27,58%
Danmörk (OMXC20) 432,95 0,32% 2,36% 9,15% 15,65% 29,12% 30,72%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 22. nóvember 2010) 

Krónan

Krónan veiktist örlítið í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,04% og endaði í 205,09 stigum. Verð helstu mynta breyttust lítið í verði gagnvart krónu, en þrjár myntir skáru sig úr og lækkuðu nokkuð, japanskt jen (-1,18%), svissneskur franki (-1,26%) og kanadadalur (-0,70%).

Flökt á gengi krónunnar hefur minnkað verulega á árinu og er enn að minnka og virðist Seðlabankinn hafa góða stjórn á genginu. Gengi krónunnar hefur sveiflast á þröngu bili síðan snemma í október. Svipaða sögu er að segja af skuldatryggingarálaginu á ríkissjóð, það hefur lækkað nær stöðugt það sem af er ári og stendur í um 273 punktum.

Viðskipti með skuldabréf ríkissjóðs í evrum sem eru á gjalddaga í desember á næsta ári hafa verið á ávöxtunarkröfu undir 6% síðan í ágúst og er það veruleg lækkun frá því sem hæst var á árinu. Seðlabankinn hefur reyndar verið kaupandi að þessum bréfum sem hefur stutt við kröfulækkunina.

Allt eru þetta vísbendingar um vaxandi tiltrú á því að ríkissjóður muni ráða við erfiða stöðu. Náist hagstæður samningur í Icesave málinu á næstu vikum ætti það að geta haft veruleg áhrif á þau atriði sem nefnd hafa verið.

Einnig gæti það flýtt því að ríkissjóður reyni fyrir sér á erlendum lánsfjármörkuðum, en hann mun ryðja brautina fyrir ýmsa innlenda aðila sem þurfa á erlendu lánsfjármagni að halda.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 205,09 0,04% -0,86% -2,05% -5,84% -11,90% -12,73%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 22. nóvember 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.