Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Í vikunni lækkuðu löng verðtryggð skuldabréf um 0,88% og millilöng verðtryggð lækkuðu um 0,62%. Millilöng óverðtryggð bréf lækkuðu mest, eða um 1,14%.

Á miðvikudaginn lækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 0,25%. Þetta var minni lækkun en markaðsaðilar reiknuðu með auk þess sem gefið var í skyn að þetta yrði síðasta lækkunin að sinni. Markaðurinn brást við með skarpri lækkun á verði skuldabréfa.

Á föstudaginn fór fram útboð í tveimur flokkum ríkisbréfa, RIKB 16 og RIKB 31. Eftirspurnin í útboðinu var mjög lítil og verð bréfa í lægri kantinum. Ástæðuna má rekja til mikillar óvissu en nú styttist í að SÍ birti áætlun sína um afnám gjaldeyrishafta. Margir óttast að sú áætlun geti haft neikvæð áhrif á verð skuldabréfa.

Við teljum hins vegar líklegt að mjög varlega verði farið í afnám hafta og hugsanleg áhrif vegna þess muni hafa minni áhrif á markaðinn en takmarkað framboð fjárfestingakosta hefur.


Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 0,62%. Mest hækkuðu bréf Icelandair eða um 2,7%. Bréf Össurar lækkuðu mest, um 2,44%. Gengi Össurar er þó um 5% hærra í kauphöllinni hér heima en í Kaupmannahöfn. Félagið birtir ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.   

Talsverð velta var á markaðnum í síðustu viku og nam heildarveltan ríflega 1,4 milljörðum króna.  Langmest velta var með bréf Marels, í kringum 1,1 milljarð.

Marel skilaði í síðustu viku nokkuð góðu uppgjöri fyrir árið 2010. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 34% á milli ára. Pantanabók félagsins styrkist  með hverjum fjórðungnum vegna stöðugs framboðs nýrra vara og betri markaðsaðstæðna.  Þá náði félagið að tryggja sér fjármögnun á mjög hagstæðum kjörum í lok árs.  Hagnaður ársins eftir skatta nam 13,6 milljónum evra.

Stjórn Marels ákvað í síðustu viku að hækka hlutafé um 5.277.750 kr. að nafnvirði.  Með þessu er verið að efna kaupréttarsamninga við starfsmenn sem gerðir voru árin 2006 og 2007, gengið í samningunum er71,51 kr. á hlut samanborið við 117,5 s.l. föstudag.  Hlutafé Marels nemur 735.568.997 kr. að nafnverði eftir hækkun.

Icelandair bíður eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins svo hægt verði að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Samþykkið er nauðsynlegt til að klára sölu á eignum til félags í eigu lánveitenda.

Icelandair hefur tekið aftur til sín hluti SmartLynx og Travel Service þar sem hluthafar og lánadrottnar þessara félaga samþykktu ekki sölu hlutanna. Gert var ráð fyrir að söluvirðið næmi 7,6 milljörðum. Samkvæmt tilkynningu stendur enn til að selja eignirnar og mun söluferli því halda áfram.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 135,00 -1,46% -5,26% -11,76% -6,25% -4,93% -1,10%
FO-AIR 112,00 0,00% -3,45% 0,00% -4,27% -3,45% -20,57%
FO-ATLA 214,00 0,00% -1,61% 12,63% 50,70% -1,61% 33,75%
ICEAIR 4,19 2,70% 30,94% 39,67% 23,24% 33,02% 44,48%
MARL 117,50 0,43% 7,80% 22,40% 29,55% 17,50% 102,59%
OSSR 200,00 -2,44% 0,00% -6,54% 1,78% -1,48% 25,79%
OMXI6ISK 986,47 -0,62% 3,98% 4,28% 5,47% 5,65% 21,07%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 7. febrúar 2011) 

Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku. S&P 500 hækkaði um 2,74%, FTSE í Bretlandi um 2,09%, Nikkei í Japan um 1,77% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 2,30%.

Jákvæðar hagtölur frá Kína og Bandaríkjunum höfðu góð áhrif á markaði í liðinni viku. Atvinnuleysi lækkaði til að mynda óvænt milli mánaða í Bandaríkjunum og mælist nú 9%. Auk þess hafa uppgjör fyrirtækja verið betri en spár gerðu ráð fyrir.

S&P 500 hlutabréfavísitalan hefur nú hækkað um 94% frá því hún náði lágmarki í mars árið 2009. Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni hafa 287 fyrirtæki í S&P 500 vísitölunni birt uppgjör sitt frá 10. janúar og af þeim hafa yfir 73% sýnt meiri hagnað á hlut en spár gerðu ráð fyrir.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1331,65 2,30% 3,92% 5,29% 15,57% 4,03% 21,56%
Þýskaland (DAX) 7216,21 1,60% 5,69% 6,88% 15,33% 4,41% 32,84%
Bretland (FTSE) 5997,38 2,09% 0,27% 2,13% 12,53% 1,70% 18,57%
Frakkland (CAC) 4047,21 1,12% 5,02% 3,65% 9,24% 6,70% 13,91%
Bandaríkin (Dow Jones) 12092,15 2,30% 3,58% 5,66% 13,50% 4,45% 20,77%
Bandaríkin (Nasdaq) 2769,30 3,10% 2,45% 7,38% 21,01% 4,39% 29,34%
Bandaríkin (S&P 500) 1310,87 2,74% 3,10% 6,94% 16,87% 4,23% 22,95%
Japan (Nikkei) 10543,52 1,77% 0,48% 10,04% 9,85% 3,55% 5,32%
Samnorræn (VINX) 106,65 0,01% -0,68% 9,06% 15,67% 0,72% 33,54%
Svíþjóð (OMXS30) 1139,31 -0,97% -1,44% 4,01% 7,28% -1,11% 22,10%
Noregur (OBX) 403,32 2,72% 0,67% 6,81% 17,54% 0,72% 26,51%
Finnland (OMXH25)  2668,02 -0,67% 0,86% 7,38% 17,11% 2,27% 34,28%
Danmörk (OMXC20) 460,44 -1,41% -1,04% 6,82% 9,83% 0,69% 31,36%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 7. febrúar 2011)

Krónan

Gengi krónunnar veiktist aðeins í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,25% og endaði í 213,09 stigum.

Seðlabankinn birti tölur um raungengi og lækkaði það um 2,8% í janúar miðað við verðlag. Það lækkaði einnig í desember eftir að hafa hækkað nær óslitið eitt og hálft ár þar á undan.

Ástæða lækkunarinnar er veiking krónunnar og verðhjöðnun undanfarna tvo mánuði, en raungengið er reiknað út frá hlutfallslegu verðlagi milli Íslands og helstu viðskiptalanda og gengisþróunar. Raungengi krónunnar er því mælikvarði á samkeppnisstöðu innlendra atvinnuvega út á við.

Raungengið er um 19% undir meðaltali síðustu 10 ára og svipað sé miðað við undanfarin 30 ár.

Óvarlegt er að búast við hraðri leiðréttingu raungengisins með tilheyrandi styrkingu krónunnar. Ástæða þess er sú að íslenska hagkerfið þarf á sterkri samkeppnisstöðu að halda til viðhalda miklum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum svo unnt sé greiða vexti af erlendum skuldum hagkerfisins og greiða þær niður.

Sé horft til nokkurra ára er líklegt að Seðlabankinn muni sporna við verulegri styrkingu á gengi krónunnar með því að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 214,09 0,25% 2,41% 4,37% 0,18% 2,91% -8,51%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 7. febrúar 2011)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.