Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Í vikunni hækkuðu verðtryggðu bréfin og óverðtryggðu bréfin lækkuðu í verði. Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,35% og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,39%. Millilöng óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,34%.

Á föstudaginn fór fram útboð á ríkisvíxlum til þriggja og sex mánaða. Tilboðum var tekið fyrir um 15 milljarða og voru flatir vextir um og undir 3%. Í báðum flokkum bárust tilboð fyrir hátt í helmingi hærra nafnverð en tekið var.

Fjárfestar virðast því hafa mun meiri áhuga á stuttum ríkistryggðum bréfum en löngum en það var lítil eftirspurn í síðasta ríkisbréfaútboði sem var í vikunni á undan en þá voru í boði löng ríkisbréf.

Næsta útboð ríkisbréfa verður n.k. föstudag. Það verður fróðlegt að sjá hvaða flokkar verða í boði og hvernig eftirspurnin í þá verður.


Innlend hlutabréf

8. febrúar s.l.  lést Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar. Þórður var 59 ára gamall og hafði gengt starfi forstjóra Kauphallarinnar frá árinu 2002. Starfsmenn Íslenskra verðbréfa votta fjölskyldu og ættingjum Þórðar samúð sína.

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 0,24%.  Mest hækkuðu bréf  Icelandair, um 9,8%.  Heildarvelta með bréf í vísitölunni nam tæpum 665 milljónum króna. Mest velta var með bréf Marels, fyrir um 289 milljónir króna.

Eins og fram kom í síðustu vikufréttum skilaði Marel nokkuð góðu uppgjöri fyrir árið 2010 og í síðustu viku birtu þeir lista yfir tuttugu stærstu hluthafa að lokinni hlutafjáraukningu. Í hluthafalistanum kemur fram að Eyrir Invest ehf er stærsti einstaki hluthafinn með 31,67% hlut,  Horn fjárfestingarfélag ehf með 13,77% hlut og Grundtvig Invest A/S með 8,38% hlut. 

Össur skilaði góðu uppgjöri í vikunni fyrir árið 2010 og sýnir áfram stöðuga arðsemi.  EBITDA framlegð nam 74 milljónum USD eða 21% af sölu.   Tekjur jukust um 8,4% frá fyrra ári og hagnaður ársins jókst um 55.3% frá árinu 2009 og nam 35 milljónum USD sem er 10% af sölu. 

Stjórnendur Össurar eru bjartsýnir fyrir árið 2011, þeir  gera ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 4-6% og EBITDA hlutfalli í kringum 20-21%.

Á kynningarfundi Össurar í vikunni kom fram þrýstingur frá íslenskum lífeyrissjóðum, sem eiga um 15% hlutafjár í félaginu, um að stjórn Össurar endurskoði áform um afskráningu félagsins úr kauphöllinni á Íslandi.  Kallað var eftir umræðum um málið á aðalfundi í mars n.k. 

Í tilkynningu frá Icelandair Group hf.  í liðinni viku kom fram að fjárhagslegri endurskipulagningu  samstæðunnar væri nú að fullu lokið og að öll skjöl sem tengjast henni hafi verið undirrituð.   Markaðurinn tók þessum fréttum mjög vel sem endurspeglaðist í 9,8% hækkun á gengi félagsins.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 140,00 3,70% 0,00% -8,20% -2,78% -1,41% -4,11%
FO-AIR 112,00 0,00% -3,45% -5,08% -4,27% -3,45% -20,57%
FO-ATLA 220,00 2,80% 1,85% 15,79% 54,93% 1,15% 38,36%
ICEAIR 4,60 9,79% 24,32% 31,43% 35,29% 46,03% 58,62%
MARL 116,50 -0,85% 4,48% 23,28% 27,32% 16,50% 90,98%
OSSR 198,00 -1,00% -1,98% -3,41% -0,25% -2,46% 21,10%
OMXI6ISK 984,12 -0,24% 1,82% 6,99% 5,25% 5,39% 17,23%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 14. febrúar 2011)

Erlend hlutabréf

Almenn hækkun var á erlendum hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  S&P 500 hækkaði um 1,39%, FTSE í Bretlandi um 1,09%, Nikkei í Japan um 0,59% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 0,70%.

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna Ben Bernanke sagði í vikunni að efnahagsbati væri merkjanlegur í hagkerfinu en áfram mætti búast við háu atvinnuleysi.  Góðar hagtölur hafa birst að undanförnu og bjartsýni forstjóra fer vaxandi. 

Danska hlutabréfavísitalan OMXC20 hækkaði einnig í vikunni eða um 1,05%.  Vísitalan hækkaði þrátt fyrir að Amagerbanken, sem er einn af elstu bönkum Danmerkur, hafi verið lýstur gjaldþrota.  Auk þess var uppgjör Danske Bank undir væntingum og afskriftir bankans á útlánum vöktu athygli en þær reyndust 25,6 milljarðar DKK á síðasta ári.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1340,99 0,70% 2,44% 8,46% 21,51% 4,76% 21,10%
Þýskaland (DAX) 7371,20 2,15% 5,69% 10,05% 21,29% 7,19% 34,74%
Bretland (FTSE) 6062,90 1,09% 1,28% 4,87% 15,23% 3,03% 18,21%
Frakkland (CAC) 4101,31 1,34% 3,54% 7,66% 14,22% 8,40% 14,60%
Bandaríkin (Dow Jones) 12273,26 1,50% 4,12% 9,66% 19,12% 6,01% 21,53%
Bandaríkin (Nasdaq) 2809,44 1,45% 1,96% 11,56% 29,26% 5,90% 28,67%
Bandaríkin (S&P 500) 1329,15 1,39% 2,78% 10,84% 23,15% 5,69% 23,58%
Japan (Nikkei) 10605,65 0,59% 2,04% 8,76% 15,42% 4,86% 7,64%
Samnorræn (VINX) 106,56 -0,08% -1,11% 9,93% 19,31% 0,62% 32,59%
Svíþjóð (OMXS30) 1139,97 0,06% -2,58% 4,42% 10,28% -1,09% 22,72%
Noregur (OBX) 404,08 0,19% 0,99% 7,93% 25,02% 1,90% 31,21%
Finnland (OMXH25)  2666,77 -0,05% -0,67% 7,55% 18,06% 1,45% 34,04%
Danmörk (OMXC20) 465,27 1,05% 0,65% 8,24% 13,11% 2,09% 33,57%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 14. febrúar 2011)

Krónan

Gengi krónunnar veiktist í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,29% og endaði í 214,71 stigi.

Hagstofan birti fyrir nokkru bráðabirgðatölur fyrir vöruviðskipti á liðnu ári. Fluttar voru út vörur fyrir 560,6 ma.kr en inn fyrir 442,1 ma kr. og afgangur því tæpir 119 ma.kr. Á föstu verðlagi er afgangurinn rúmir 28 ma. kr meiri en árið 2009.

Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir janúar 2011 var afgangur af vöruskiptum um 8,5 ma.kr og dróst nokkuð saman frá því í desember. Ástæða þess var meðal annars aukning á innflutningi rekstrar- og fjárfestingavara. Það verður að teljast jákvætt og vísbending í þá átt að umsvif fyrirtækja fari vaxandi og að fjárfesting sé að sama skapi að aukast. 

Seðlabankinn telur Hagstofuna hafa vanmetið fjárfestingu á liðnu ári og verður í því ljósi áhugavert að sjá endurskoðaðar tölur um landsframleiðslu m.t.t. fjárfestinga. Fjárfesting fyrirtækja í virðisaukandi verkefnum er ein af meginforsendum þess að hagkerfið nái sér á strik, en veikt raungengi krónunnar ætti að ýta undir arðsemi innlendra fjárfestingaverkefna.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 214,707 0,29% 1,68% 4,30% 2,11% 3,20% -8,03%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 14. febrúar 2011)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.