Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu í vikunni um 0,33% og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,46%. Verð millilangra óverðtryggðra bréfa stóð í stað.

Í vikunni fór fram útboð í óverðtryggðum flokki ríkisbréfa, RIKB12. Þátttaka í útboðinu var góð og var tilboðum tekið fyrir tæpa 9 milljarða króna að nafnverði á ávöxtunarkröfunni 3,23%. Þetta var mun meiri eftispurn en í síðasta útboði flokksins sem var 7. janúar s.l., en þá var tilboðum tekið fyrir 1,7 milljarða á 2,8% kröfu.

Óverðtryggð bréf hafa lækkað töluvert í verði frá áramótum þrátt fyrir töluvert mikla verðhjöðnun í febrúar. Á sama tíma hafa verðtryggð bréf hækkað í verði. Það er því ljóst að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafa verið að aukast. Trúlega eru það væntingar um að afnám gjaldeyrishafta veiki krónuna og einnig að niðurstaða kjarasamninga ýti upp verðlaginu.

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 0,77%.  Mest hækkuðu bréf Atlantic Petroleum, um 2,27%. Mest lækkun var á bréfum BankNordik, um 11,43% en matsfyrirtækið Moodys lækkaði lánshæfiseinkunn bankans í vikunni.  Einnig var lánshæfismat hjá fjórum öðrum dönskum bönkum lækkað og aðrir fjórir settir á athugun með hugsanlega lækkuðu mati.

Nokkuð mikil viðskipti voru á markaðinum í síðustu viku eða fyrir um 2,4 milljarða króna.  Veltan var nánast öll með bréf Icelandair og Marel. Viðskipti með bréf Icelandair námu um1,7 milljarði króna og í kringum 550 milljónir króna með bréf Marels.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna flögguðu viðskiptum í Icelandair á föstudag, vegna aukningar á eignarhlut.  LSR fór úr 4,84% hlut upp í 6,03% og LV úr 9,67% hlut í 12,07%.  Skilanefnd Landsbankans seldi út allan hlut sinn til lífeyrissjóðanna ásamt fleiri fjárfesta á genginu 4,3.

Í vikunni birti Icelandair group afkomu fyrir árið 2010.  Heildarvelta ársins jókst um 10% milli ára. EBITDA ársins endaði í 12,6 milljörðum króna og var það 4,4 milljörðum hærra en árið 2009. Hagnaður ársins eftir skatta var 4,6 milljarðar.  Ljóst er að þessi niðurstaða er mun betri en áætlanir og afkomuspár höfðu gefið til kynna. 

Stjórnendur félagsins meta árið 2011 þannig að hækkandi eldsneytisverð og aukin samkeppni muni hafa þau áhrif að  að EBITDA verði 9,5 milljarðar króna og framlegð lækki frá árinu 2010.  

Stjórn Icelandair Group hf. er að skoða hvort hlutabréf félagsins verði einnig tekin til viðskipta í annarri kauphöll á Norðurlöndunum.

Í vikunni tilkynnti Arion banki um sölu á 34% hlut í Högum til dreifðs hóps lífeyrissjóða og fjárfesta ásamt kauprétti að 10% viðbótarhlut. Kaupverð er 4,1 milljarður. Skráning í kauphöll er fyrirhuguð síðar á árinu. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Hagar eru langstærsta verslunarfyrirtæki landsins og reka meðal annars Hagkaup og Bónus.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 124,00 -11,43% -10,47% -17,88% -11,43% -12,68% -14,48%
FO-AIR 111,00 -0,89% -4,31% -5,93% -5,13% -4,31% -21,28%
FO-ATLA 225,00 2,27% 5,63% 18,42% 58,45% 3,45% 47,06%
ICEAIR 4,50 -2,17% 9,49% 36,36% 28,57% 42,86% 55,17%
MARL 117,50 0,86% 3,98% 20,88% 27,72% 17,50% 88,00%
OSSR 199,00 0,51% -1,49% -5,24% -0,50% -1,97% 23,99%
OMXI6ISK 976,53 -0,77% -0,04% 4,46% 5,12% 4,58% 16,88%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 21. febrúar 2011)

Erlend hlutabréf

Hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum heims fyrir utan norðurlöndin.  S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 1,04%, heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 1,61% og Dax í Þýskalandi hækkaði um 0,75%.

Kínverska hagkerfið er orðið annað stærsta hagkerfi heimsins á eftir Bandaríkjunum.  Japanska hagkerfið hefur verið annað stærsta hagkerfi heimsins síðastliðin 42 ár.  Mikil vöxtur hefur verið í Kína undanfarna áratugi sem er  megin ástæða fyrir þessum breytingum, en aftur á móti hefur jenið einnig verið að styrkjast mikið og samdráttur í einkaneyslu verið að dragast verulega saman.

Góður gangur er á þýska hagkerfinu, hagvöxtur í Þýskalandi árið 2010 var 3,60% og er það mesti hagvöxtur sem mælst hefur í þýskalandi frá því Austur og Vestur Þýskaland sameinuðust árið 1990.  Hagvöxtur í Frakklandi fyrir árið 2010 mældist 1,50%.

Moody‘s lækkaði lánshæfismat fimm banka í Danmörku. Ástæðan fyrir þessum lækkunum má rekja til gjaldþrots Amagerbanken og að dönsk stjórnvöld séu óhrædd við að láta danska banka fara í þrot með þeim afleiðingum að innlán og aðrar kröfur tapist.  Lækkun á lánshæfismati hafði ekki miklar afleiðingar á dönsku vísitöluna sem hækkaði um 1,13% í vikunni.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1362,62 1,61% 4,61% 10,30% 24,58% 6,45% 20,11%
Þýskaland (DAX) 7426,81 0,75% 5,69% 8,19% 23,29% 7,08% 29,39%
Bretland (FTSE) 6082,99 0,33% 2,92% 5,85% 16,80% 2,85% 13,25%
Frakkland (CAC) 4157,14 1,38% 3,24% 7,44% 17,62% 9,01% 10,02%
Bandaríkin (Dow Jones) 12391,25 0,96% 4,38% 10,60% 21,32% 7,03% 19,12%
Bandaríkin (Nasdaq) 2833,95 0,87% 5,37% 12,54% 30,01% 6,83% 26,30%
Bandaríkin (S&P 500) 1343,01 1,04% 4,65% 11,94% 25,32% 6,79% 21,08%
Japan (Nikkei) 10842,80 2,24% 5,67% 8,33% 18,28% 6,15% 7,25%
Samnorræn (VINX) 106,06 -0,47% 0,11% 8,22% 19,16% -0,54% 26,66%
Svíþjóð (OMXS30) 1117,23 -2,00% -3,04% 0,47% 9,33% -3,44% 16,56%
Noregur (OBX) 402,79 -0,32% 1,93% 7,03% 23,78% 0,09% 23,60%
Finnland (OMXH25)  2645,98 -0,78% -0,07% 6,27% 19,09% 0,69% 28,22%
Danmörk (OMXC20) 470,51 1,13% 2,14% 8,49% 17,93% 2,65% 30,92%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 21. febrúar 2011)

Krónan

Gengi krónunnar veiktist í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,70% og endaði í 215,98 stigum.

Í vikunni birti seðlabankinn skýrslu um áætlaða skuldastöðu landsins. Þar kemur fram að bankinn áætlar að hrein erlend staða þjóðarbúsins við útlönd hafi ekki verið betri síðan árið 1987 og nemi um 23% af vergri landsframleiðslu. Þar undanskilur seðlabankinn skuldir og eignir hinna föllnu banka og einnig eignir og skuldir Actavis.

Sé horft til undirliggjandi viðskiptajafnaðar, en þar undanskilur seðlabankinn þann hluta þáttatekjujafnaðar sem tengist fjármálastofnunum í slitaferli og horfir einnig framhjá vaxtatekjum og -gjöldum hjá Actavis, þá er áætlaður viðskiptajöfnuður síðasta árs um 12,8% af vergri landsframleiðslu eða um 200 milljarðar króna.

Bankinn telur rétt að horfa framhjá Actavis vegna þess að um er að ræða tekjur og gjöld á milli tengdra aðila. Um gríðalega mikinn afgang er að ræða ef rétt reynist, sem skiptir verulegu máli við það að ná niður erlendum skuldum þjóðarbúsins og draga úr vaxtabyrði.

Horfa verður til þess að líkast til tekur nokkur ár að ljúka uppgjöri á föllnu bönkunum og skýrist myndin því ekki verulega fyrr en því er lokið. Einnig er nokkur óvissa um áhrif af endanlegu uppgjöri stórra eignarhaldsfélaga sem eru með miklar erlendar eignir og skuldir.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 215,98 0,70% 0,77% 4,69% 2,57% 3,82% -6,90%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 21. febrúar 2011)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.