Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Góð ávöxtun var á ríkisskuldabréfamarkaði í vikunni. Löng verðtryggð bréf hækkuðu um 1,26% og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 1,01%.  Stutt óverðtryggð bréf hækkuðu um 1%.

Á miðvikudag verður útboð hjá Fjársýslu ríkisins í óverðtryggðum ríkisbréfum RIKB12 0824. Samkvæmt endurskoðaðri útgáfuáætlun Lánamála ríkisins var ætlunin að gefa út um 140 milljarða af óverðtryggðu ríkisbréfum á árinu. Í lok nóvember nam útgáfan um 137 milljörðum og því ljóst að ef menn ætla að halda sig við útgáfuáætlunina verður útboðið nú frekar lítið.

Næsta stýrivaxtaákvörðun verður á miðvikudaginn og er almennt reiknað með að stýrivextir lækki um 50-75 punkta. Í ljósi þess hve verðbólgan er lág og lítil þensla í hagkerfinu er almennt talið að svigrúm til stýrivaxtalækkunar sé töluvert.

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,72%.  Mest hækkuðu bréf í Icelandair og nam hækkunin 5,88%. 

Heildarviðskipti í síðustu viku námu 347 m.kr.  Marel var með 99% af veltunni og endaði gengi félagsins í 100 og stóð það í stað á milli vikna.

Mest lækkuðu bréf Össurar, um 3,26% í lítilli veltu.  Gengi félagsins endaði ríflega 5% hærra í kauphöllinni á Íslandi en í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. 

Engin viðskiptavakt er lengur með hlutabréf félagsins á innlenda markaðnum eftir að Össur óskaði eftir afskráningu úr kauphöll Íslands þann 15.nóvember síðastliðin.

Stjórn Icelandair Group sendi frá sér afkomuviðvörun í síðustu viku þar sem EBITDA spá ársins var hækkuð úr 10,5 milljörðum króna í 11,5 milljarða. 

Þá var tilkynnt að hlutir í Icelandair væru nú komnir í 3.941.000.000 að nafnverði.  Félagið á 0,65% hluti í sjálfum sér og þeim hlutum fylgir ekki atkvæðisréttur.

Marel sendi frá sér tilkynningu vegna breytingar á hlutafé í kjölfar aukningar upp á 3.154.750 hluti.  Aukningin er tilkomin vegna kaupréttasamninga við starfsmenn. 

Í dag nema útgefnir hlutir í Marel því 730.291.247 að nafnverði og á félagið 37.500 hluti í sjálfu sér, þeim hlutum fylgir ekki atkvæðisréttur. 

Þá var birtur listi yfir 20 stærstu hluthafa Marels, 3 stærstu hluthafarnir eiga yfir 61% í félaginu.  Þetta eru Eyrir með 31,89%, Horn fjárfestingarfélag ehf með 20,68% og Grundvig Invest A/S með 8,45% hlut.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 147,00 0,00% -3,92% 5,76% -3,29% 13,51% 11,36%
FO-AIR 115,00 -0,86% 2,68% -3,36% -10,16% -18,44% -21,77%
FO-ATLA 190,00 0,00% 0,00% 26,67% 18,75% 18,75% 14,46%
ICEAIR 3,60 5,88% 20,00% 2,86% 16,13% -1,37% -5,26%
MARL 100,00 0,00% 4,17% 7,53% 25,31% 60,26% 60,00%
OSSR 208,00 -3,26% -2,80% 0,97% 10,64% 34,63% 52,38%
OMXI6ISK 929,71 -1,72% -1,72% -0,75% 2,78% 14,08% 17,57%

(Nasdaq OMX Nordic, 6. desember 2010)



Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  S&P 500 í  Bandaríkjunum hækkaði um 3,03%, DAX í Þýskalandi um 1,44%, FTSE í Bretlandi um 1,41% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 3,08%. 

Góðar fréttir af fasteignamarkaði og smásölu í Bandaríkjunum ásamt kaupum Seðlabanka Evrópu á evrópskum skuldabréfum (sér í lagi írskum og portúgölskum) var meðal annars ástæða hækkana á hlutabréfamörkuðum um heim allan. 

Samnorræna hlutabréfavísitalan VINX hækkaði um 4,5% í síðustu viku en sú vísitala hefur hækkað um 28,14% frá áramótum.  Hlutabréfavísitala Svíþjóðar OMXS 30 hækkaði um 3,55% á sama tíma og norska hlutabréfavísitalan OBX hækkaði um 4,21%.  Methagvöxtur mældist í Svíþjóð á þriðja ársfjórðungi eða 6,90% miðað við sama tímabil árið 2009. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1247,15 3,08% -1,39% 9,76% 17,63% 6,73% 6,69%
Þýskaland (DAX) 6947,72 1,44% 5,69% 13,11% 17,23% 16,87% 19,67%
Bretland (FTSE) 5745,32 1,41% -1,92% 5,95% 12,42% 6,46% 8,27%
Frakkland (CAC) 3750,55 0,62% -4,07% 1,97% 8,74% -4,54% -2,32%
Bandaríkin (Dow Jones) 11382,09 2,71% -0,54% 8,94% 14,60% 9,15% 9,56%
Bandaríkin (Nasdaq) 2591,46 2,27% 0,48% 16,01% 16,78% 14,20% 18,10%
Bandaríkin (S&P 500) 1224,71 3,03% -0,09% 10,88% 15,01% 9,83% 10,74%
Japan (Nikkei) 10178,32 1,38% 5,62% 9,31% 2,69% -3,60% 1,44%
Samnorræn (VINX) 102,1207 4,50% 4,37% 11,07% 18,52% 28,14% 29,64%
Svíþjóð (OMXS30) 1149,564 3,55% 3,40% 8,99% 16,05% 20,53% 18,63%
Noregur (OBX) 382,25 4,21% 1,87% 13,49% 21,25% 13,35% 16,06%
Finnland (OMXH25)  2551,736 2,49% 1,72% 11,21% 20,72% 25,28% 29,80%
Danmörk (OMXC20) 437,426 2,10% 1,52% 7,47% 10,25% 30,06% 29,70%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 6. desember 2010)


Krónan

Gengi krónunnar var nær óbreytt í vikunni og hækkaði gengisvísitalan um 0,03% og endaði í 205,80 stigum. Evran lækkaði í verði um 0,32%, en dollar hækkaði í verði um 0,47%. Meiri ró hefur færst yfir alþjóðlega markaði eftir að Írar sóttu um neyðarlán þó erfitt sé að spá fyrir um framvinduna.

Í vikunni birti Hagstofa Íslands bráðabirgðatölur um viðskipti með þjónustu fyrir þriðja ársfjórðung. Samkvæmt því var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 35,3 milljarða króna á fjórðunginum.

Seðlabankinn birti í framhaldinu bráðabirgðatölur um viðskiptajöfnuð fyrir sama tímabil. Viðskiptajöfnuður var jákvæður um 23,8 ma.kr. sem er sá mesti sem verið hefur í að minnsta kosti tvo áratugi. Afgangur af viðskiptum með vörur og þjónustu var 57,2 ma.kr en halli af þáttatekjum var um 33,4 ma.kr. Í þeim tölum eru reiknuð vaxtagjöld vegna föllnu bankanna sem munu líkast til ekki verða greidd.  Sé tekið tillit til þess var viðskiptajöfnuðurinn jákvæður um 61,7 ma.kr. Tölunum ber þó að taka með fyrirvara og gætu þær tekið verulegum breytingum við endurskoðun.

Um mjög jákvæð tíðindi er að ræða, en mikilvægt er að greiðslujöfnuður landsins sé jákvæður því slíkt myndar grunn undir endurreisn á efnahag Íslands.  Þetta gefur um leið möguleika á að greiða niður erlendar skuldir þjóðarbúsins sem er mjög jákvætt.

Miklu skiptir að hvergi verði á slakað í þeirri viðleitni að Íslendingar auki vægi innlendrar framleiðslu á vöru og þjónustu, dragi úr innflutningi og stórefli útflutning. Það mun eitt og sér lækka erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu og einnig auka möguleika á hraðari niðurgreiðslu á erlendum skuldum landsins. 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 205,7989 -0,03% 0,20% -0,33% -3,94% -11,60% -13,02%

  (Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 6. desember 2010)



Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.