Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,67% og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,93%. Stutt óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,43%.

Á miðvikudaginn voru stýrivextir lækkaðir um eina prósentu, og eru nú 4,5%. Þetta var heldur meiri lækkun en markaðurinn reiknaði með. Þau skilaboð komu ennfremur frá SÍ að trúlega væri rúm fyrir frekari lækkun stýrivaxta.

Gjaldeyrishöftin munu þó ráða mestu um hvernig stýrivextir þróast næstu mánuði. Verði þau viðvarandi er svigrúmið meira en ella.Á miðvikudaginn fór fram útboð á óverðtryggðum flokki ríkisbréfa, RIKB 12 0824. Tilboðum var tekið fyrir rúma 5 milljarða að nafnvirði með 2,37% ávöxtunarkröfu. 

Við útboð í flokknum sem fór fram 19. nóvember, var ávöxtunarkrafan 3,9% og því er ljóst að fjármögnunarkostnaður ríkisins fer lækkandi. Það getur ríkið fyrst og fremst þakkað gjaldeyrishöftunum.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 2,0% í síðustu viku og hækkaði Atlantic Petroleum mest eða um 12,63%. Mest velta var með Marel af félögum vísitölunnar fyrir rúmlega 4,9 milljarða.

Horn fjárfestingarfélag ehf., sem er í eigu Landsbankans seldi í síðustu viku tæplega 50 milljón hluti í Marel á genginu 95. Er hér um tæp 7% af heildarhlutafé Marels að skipta um hendur.

Hlutafjárútboð Icelandair hófst á miðvikudaginn í síðustu viku og stendur til kl. 16 þann 23. desember.  Núverandi hluthafar hafa forgangsrétt að 799 milljónum hluta, starfsmenn að 160 milljónum hluta og svo eru 100 milljón hlutir ætlaðir til almennings.  Útboðsgengi er 2,5 á hlut.

Nú eru stýrivextir á Íslandi í sögulegu lágmarki og í því tilliti er vert að velta fyrir sér sambandi vaxta og hlutabréfamarkaða. Að öllu óbreyttu ættu lágir vextir og lækkandi að ýta undir áhuga fjárfesta á öðrum fjárfestingarkostum en innlánum og ríkistryggðum skuldabréfum. Þar koma hlutabréf sterklega til greina.

Fleira verður þó að koma til ef takast á að blása nýju lífi í íslenska hlutabréfamarkaðinn þar sem sá markaður er ákaflega veikburða. Það er ljóst að það þarf fleiri áhugaverð hlutafélög inn á markaðinn svo það takist.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 142,00 -3,40% -6,89% 1,43% -5,33% 9,65% 7,58%
FO-AIR 118,00 2,61% 0,00% -0,84% -7,81% -16,31% -19,73%
FO-ATLA 214,00 12,63% 12,63% 37,18% 38,96% 33,75% 28,92%
ICEAIR 3,50 -2,78% 0,00% 0,00% 12,90% -4,11% -4,11%
MARL 100,00 0,00% 5,82% 6,38% 18,34% 60,26% 57,48%
OSSR 212,00 1,92% 3,41% -1,40% 15,53% 37,22% 52,52%
OMXI6ISK 948,34 2,00% 3,10% -1,04% 4,98% 16,36% 19,28%

(Nasdaq OMX Nordic, 13. desember 2010)


Erlend hlutabréf

Hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í vikunni.  S&P 500 í  Bandaríkjunum hækkaði um 1,32%, DAX í Þýskalandi um 0,84%, Nikkei í Japan um 0,33% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 0,78%.   

DAX hlutabréfavísitala Þýskalands hefur hækkað um 18,03% frá áramótum og um 18,24% frá byrjun september.  Hagvöxtur í Þýskalandi er með því hæsta sem mælist á evrusvæðinu eða 3,4% fyrstu 9 mánuði ársins.  Ennfremur hefur verið góður gangur í þýskri smásölu og atvinnulausum hefur farið fækkandi sautján mánuði í röð en atvinnuleysi mælist nú 7,5%.

Peningastefnunefnd Englandsbanka ákvað í síðustu viku að gera enga breytingu á stýrivöxtum en þeir eru í dag 0,5%. Til samanburðar þá eru stýrivextir 0,1% í Japan og 0,25% í Bandaríkjunum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1256,52 0,78% 1,63% 8,84% 16,27% 7,54% 8,74%
Þýskaland (DAX) 7006,17 0,84% 5,69% 12,30% 16,27% 18,03% 22,15%
Bretland (FTSE) 5812,95 1,19% 0,58% 4,76% 12,91% 7,71% 10,81%
Frakkland (CAC) 3857,35 2,85% 1,17% 2,89% 9,02% -1,53% 1,90%
Bandaríkin (Dow Jones) 11410,32 0,32% 1,95% 8,21% 11,74% 9,42% 8,97%
Bandaríkin (Nasdaq) 2637,54 1,81% 4,74% 15,39% 17,56% 16,23% 20,42%
Bandaríkin (S&P 500) 1240,40 1,32% 3,43% 10,56% 13,63% 11,24% 12,11%
Japan (Nikkei) 10211,95 0,33% 5,85% 10,43% 6,07% -2,39% 1,84%
Samnorræn (VINX) 102,19 0,07% 5,61% 7,45% 16,32% 28,51% 31,51%
Svíþjóð (OMXS30) 1139,16 -0,91% 4,63% 5,97% 12,69% 20,34% 20,58%
Noregur (OBX) 383,17 0,24% 1,87% 11,18% 19,12% 13,49% 16,41%
Finnland (OMXH25)  2538,43 -0,31% 2,99% 7,52% 17,51% 25,64% 30,27%
Danmörk (OMXC20) 447,67 2,34% 4,36% 7,31% 11,98% 33,78% 35,67%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 13. desember 2010)


Krónan

Gengi krónunnar styrktist örlítið í vikunni og lækkaði gengisvísitalan um 0,12% og endaði í 205,6 stigum. Frá áramótum hefur vísitalan lækkað um 11,7% og krónan því styrkst sem því nemur.

Í vikunni bárust fréttir af nýju ICESAVE samkomulagi sem lítur út fyrir að vera mun hagkvæmara en því sem hafnað var fyrr á árinu. Um mjög jákvæðar fréttir er að ræða. Vonir standa til að ef samkomulagið verður samþykkt af stjórnvöldum muni það leiða til hærra  lánshæfismats ríkissjóðs og lægra skuldatryggingaálags. Í framhaldinu ætti að aukast aðgengi innlendra aðila að erlendu lánsfé.

Varðandi afnám gjaldeyrishaftanna þá mun lausn Icesave ekki hafa áhrif á þau í bráð því seðlabankinn hefur gefið út að ekki verði stigið næsta skref fyrr en í fyrsta lagi í mars. Hinsvegar virðist vera að enn sé gengisáhætta veruleg fyrir ríkisstjóð vegna Icesave.

Ástæða þess er að skuldbindingar innstæðusjóðsins eru fastar í krónum en samkomulagið við Breta og Hollendinga er í erlendri mynt. Því kann svo að vera að afnám haftanna geti dregist enn frekar, telji seðlabankinn að afnámið leiði til veikingar krónunnar. 

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 205,5601 -0,12% 1,26% 0,23% -3,50% -11,70% -12,31%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 13. desember 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.