Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,1% í vikunni og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,25%. Millilöng óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,34%.

Fyrsta útboð ársins hjá Lánamálum ríkisins var á föstudaginn. Seld voru bréf í RIKB12 og RIKB16 fyrir 4,9 milljarða á kröfu sem var rétt fyrir ofan kauphlið markaðarins sem gefur til kynna að fjárfestar séu ekki æstir í að kaupa þessi bréf á núverandi verðum.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu vikum. Innlánsvextir banka munu fara lækkandi og það er trúlegt að SÍ lækki stýrivexti um 50-75 punkta á næsta vaxtaákvörðunardegi.

Næsta útboð Lánamála ríkisins verður 13. janúar en þá verða boðnir út ríkisvíxlar. Næsta ríkisbréfaútboð verður svo 21. janúar. Næsti vaxtaákvörðunardagur SÍ er 2. febrúar.


Innlend hlutabréf

Árið 2011 fór ágætlega af stað á íslenskum hlutabréfamarkaði og hækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,31% í vikunni.  Af þeim félögum sem eru skráð í vísitöluna hækkaði Marel mest eða um 8,00% en Össur lækkaði mest eða um 1,23%. Gengi hlutabréfa í Icelandair hækkaði svo um 0,63%.

Eftir vel heppnað hlutafjárútboð í lok síðasta árs hefur Icelandair nú gert samning um viðskiptavakt við Landsbankann og Saga Fjárfestingarbanka. Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutabréf í Icelandair í því skyni að eðlilegt markaðsverð skapist á hlutabréfunum.

Þetta eru mjög jákvæðar fréttir og gerir fjárfestingar í félaginu mun áhugaverðari en áður. Það má búast við einhverri sölupressu með bréf félagsins á næstu dögum þar sem hluti þeirra sem tóku þátt í útboðinu munu selja strax og innleysa þar með ágætan hagnað en gengi félagsins nú er um 20% hærra en gengið í útboðinu.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 142,00 0,00% -5,33% 2,90% -1,39% 0,00% 9,65%
FO-AIR 116,00 0,00% 0,87% -0,85% -0,85% 0,00% -17,14%
FO-ATLA 215,00 -1,15% 25,36% 34,38% 59,26% -1,15% 34,38%
ICEAIR 3,17 0,63% -9,43% -14,32% -9,43% 0,63% -13,15%
MARL 108,00 8,00% 8,00% 17,52% 20,00% 8,00% 75,61%
OSSR 200,50 -1,23% -5,42% -9,48% 7,51% -1,23% 28,53%
OMXI6ISK 946,01 1,31% 0,84% 1,06% 4,43% 1,31% 16,06%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 10. janúar 2011)

Erlend hlutabréf

Almenn hækkun var á erlendum hlutabréfavísitölum í síðustu viku. Heimsvísitala MSCI hækkaði um 0,14%, FTSE í Bretlandi hækkaði um 1,43%, Nikkei í Japan hækkaði um 3,05%, S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 1,16% og samnorræna VINX vísitalan hækkaði um 1,41%.

Greiningarfyrirtækið CMA Datavision hefur nýlega tekið  saman verstu og bestu skuldara heims. Evrópa á sex þjóðir á topp 10 af verstu skuldurum heims og þar trónir Grikkland á toppnum og telur CMA að það séu 58,8% líkur á greiðslufalli næstu fimm árin.

Evrópa á jafnmarga fulltrúa á lista sex bestu og þar er Noregur efst á blaði en CMA telur einungis 2,10% líkur á greiðslufalli Noregs nætu fimm árin. Athygli vekur að norðurlöndin utan Íslands (sem er nr. 53 á listanum) eru öll á meðal sjö bestu skuldara  heims þar af í þremur efstu sætunum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1281,41 0,14% 1,98% 5,92% 17,40% 0,10% 6,94%
Þýskaland (DAX) 6947,84 0,49% 5,69% 10,06% 14,17% 0,15% 14,70%
Bretland (FTSE) 5984,33 1,43% 2,69% 5,51% 16,29% 1,17% 7,86%
Frakkland (CAC) 3865,58 1,60% -0,58% 1,91% 7,89% 0,79% -5,20%
Bandaríkin (Dow Jones) 11674,76 0,92% 2,32% 6,07% 14,48% 0,84% 9,95%
Bandaríkin (Nasdaq) 2703,17 1,91% 2,49% 12,54% 23,07% 1,90% 16,66%
Bandaríkin (S&P 500) 1271,50 1,16% 2,51% 9,13% 17,95% 1,10% 11,05%
Japan (Nikkei) 10529,76 3,05% 3,22% 9,93% 9,97% 3,05% -2,38%
Samnorræn (VINX) 107,75 1,41% 5,68% 12,95% 22,77% 1,64% 30,11%
Svíþjóð (OMXS30) 1159,45 0,34% 1,77% 6,80% 12,76% 0,32% 19,09%
Noregur (OBX) 400,59 0,05% 4,63% 12,25% 25,68% 0,13% 14,73%
Finnland (OMXH25)  2665,15 1,40% 4,50% 7,53% 23,02% 0,92% 25,83%
Danmörk (OMXC20) 465,56 1,75% 5,13% 13,23% 15,76% 2,86% 33,24%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 10. janúar 2011)

Krónan

Gengi krónunnar veiktist í fyrstu viku ársins og hækkaði gengisvísitalan um 0,21% og endaði í 208,47. Af helstu myntum hækkaði bandaríkjadalur mesti í verði, um 2,23%, kanadadalur 2,13% og sterlingspund um 1,82%. Evra lækkaði hins vegar mest, um 0,69% og dönsk króna um 0,65%.

Í vikunni kom fram að seðlabankinn hafi á liðnu ári  átt í viðræðum við innlend fjármálafyrirtæki um aðgerðir til að draga úr gjaldeyrismisræmi í efnahagsreikningum viðkomandi aðila. Bankinn hefur nú opinberað að hann hafa keypt jafnvirði 24,6 ma.kr. af gjaldeyri og gert framvirka samninga um kaup á um 47,9 ma.kr. til viðbótar á næstu árum.

Um verulega jákvæðar fréttir er að ræða fyrir báða aðila. Gjaldeyrisforði seðlabankans styrkist nokkuð og efnahagur viðkomandi fjármálastofnana batnar. Einnig er uppsöfnun á gjaldeyri hjá innlendum fjármálafyrirtækjum merki um að afgangur af viðskiptum við útlönd sé að skila sér til landsins.

Ennfremur er líklegt að útflutningsgreinar s.s. sjávarútvegurinn sé að greiða niður erlendar skuldir í bönkunum og því hafi bankarnir svigrúm til að selja gjaldeyri fyrir krónur.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 208,4737 0,21% 0,76% 1,86% -2,36% 0,21% -10,87%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 10. janúar 2011)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.