Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Verð skuldabréfa lækkaði mikið í vikunni.  Verðtryggð bréf lækkuðu öll nema stystu bréfin sem hækkuðu lítillega.  Mest lækkuðu lengstu bréfin, um 8,14%.  Eins var með óverðtryggðu bréfin, hækkun á stysta flokknum, en lengsti flokkurinn lækkaði um 7,18%.

Lækkunin kom að mestu leyti fram á miðvikudag, í kjölfar vaxtalækkunar Seðlabanka Íslands og ekki síst vegna orða forsvarsmanna bankans um frekara afnám gjaldeyrishafta.  Spákaupmenn hafa haft mikil áhrif til hækkunar á verði bréfanna undanfarin misseri og há verðlagning ásamt skuldsettri fjármögnun skýrir eflaust stærstan hluta af þeim öfgakenndu viðbrögðum sem áttu sér stað.

Markaðurinn hefur þó heldur verið að jafna sig og er verðlagning nú mun eðlilegri en fyrir þessa leiðréttingu.  Lengstu flokkar óverðtryggðra bréfa hafa þó haldið áfram að lækka í verði. 

Næsta skref í afnámi haftanna verður líklega að fjárfestar sem eiga löng bréf geti flutt fjármuni sína úr landi, samkvæmt því sem fram hefur komið hjá forsvarsmönnum Seðlabankans.  Gangi þetta eftir setur það þrýsting á krónuna sem gæti leitt til aukinnar verðbólgu. Rökrétt er því að  krafa á löngum óverðtryggðum bréfum hækki fremur en krafa á verðtryggðum. 

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,55% í síðustu viku.  Össur hækkaði mest félaga í vísitölunni, um 0,46% í viðskiptum upp á ríflega 37 milljónir króna.

Mest lækkuðu bréf í Eik Banka og Marel, um rúm 4%.  Langmest velta var með bréf Marels, fyrir 375 milljónir króna.

Veltan nam ríflega 433 milljónum króna sem er talsvert meira en í síðustu viku. Sem fyrr var mest velta með bréf Marels og Össurar.

Einungis 7 viðskipti voru í síðustu viku með færeysku félögin í íslensku kauphöllinni á móti 152 viðskiptum í kauphöllinni í Kaupmannahöfn þar sem þau eru einnig skráð á markað. 

Framtakssjóður Íslands gerði samkomulag við Landsbankann um kaup á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. og þar með sjávarútvegsfyrirtækinu Icelandic Group hf.  Sjóðurinn mun beita sér fyrir skráningu fyrirtækisins á markað á næstu 18-24 mánuðum.  Líklegt er að Icelandic verði skráð í tveim kauphöllum, hér heima og erlendis.

Sú von forstjóra kauphallarinnar að 15 félög yrðu skráð á markað á þessu ári hafa ekki gengið eftir, enda hafa ýmis mál tafið fyrir því að fyrirtækin komist á markað.  Brýn þörf er á fjölgun félaga á markaði, þannig að fjárfestar hafi fleiri valkosti en innlán, ríkisbréf og þau fáu félög sem eru á hlutabréfamarkaði.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 138,00 -0,72% -2,13% -6,12% -13,75% 6,56% -2,47%
FO-ATLA 160,50 0,31% 7,00% 7,00% 0,63% 0,31% -31,47%
FO-EIK 67,00 -4,29% -12,42% -18,29% -22,09% -16,25% -22,09%
ICEAIR 3,50 0,00% 0,00% -6,67% 6,06% -4,11% 59,09%
MARL 91,00 -4,11% -1,09% 1,11% 14,47% 45,83% 51,83%
OSSR 218,00 0,46% 8,46% 20,78% 14,44% 41,10% 79,42%
OMXI6ISK 963,82 -0,55% 3,43% 6,11% 0,54% 18,26% 20,21%

(Nasdaq OMX Nordic, 27. september 2010)

Erlend hlutabréf

Hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  S&P 500 í  Bandaríkjunum hækkaði um 2,07%, DAX í Þýskalandi um 1,43%, FTSE í Bretlandi um 1,66% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 2,35%.  Nikkei hlutabréfavísitalan í Japan lækkaði hins vegar um 1,6%.

Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu fjórðu vikuna í röð eftir að fréttir bárust af aukinni eftirspurn eftir neyslu-, fjárfestingar-, og tæknivörum.  Fréttirnar róuðu fjárfesta sem hafa haft áhyggur af erfiðleikum í bandarísku efnahagslífi eins og hækkandi atvinnuleysi. 

S&P 500 hefur það sem af er september hækkað um 9,47%. Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni er þó september sögulega versti mánuður ársins hvað hlutabréf varðar.  Að meðaltali hefur hlutabréfaverð lækkað um 0,7% í september frá árinu 1950.

Almennt hefur verið góður gangur á hlutabréfamörkuðum í september á þessu ári og hefur til að mynda DAX í Þýskalandi hækkað um 6,30% það sem af er mánuðinum, FTSE í Bretlandi um 7,14%, MSCI heimsvísitalan um 9,47% og Nikkei í Japan um 7,34%.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1163,33 2,35% 8,61% 9,59% -0,87% 1,25% 6,06%
Þýskaland (DAX) 6298,30 1,43% 6,10% 4,01% 3,17% 5,99% 13,13%
Bretland (FTSE) 5598,48 1,66% 7,74% 11,05% -1,73% 3,53% 10,27%
Frakkland (CAC) 3782,48 1,62% 8,09% 7,72% -4,95% -3,68% 1,40%
Bandaríkin (Dow Jones) 10860,26 2,38% 6,99% 7,06% 0,09% 4,14% 12,36%
Bandaríkin (Nasdaq) 2381,22 2,85% 10,57% 7,09% -0,58% 4,94% 13,88%
Bandaríkin (S&P 500) 1148,67 2,07% 7,90% 6,68% -1,54% 3,01% 9,99%
Japan (Nikkei) 9471,67 -1,60% 6,81% -1,38% -12,67% -8,94% -6,46%
Samnorræn (VINX) 96,11 1,28% 9,47% 10,23% 6,28% 20,52% 27,15%
Svíþjóð (OMXS30) 1095,59 1,26% 7,44% 7,17% 6,55% 15,02% 21,65%
Noregur (OBX) 348,13 0,96% 9,32% 12,09% 3,28% 3,23% 21,19%
Finnland (OMXH25)  2382,14 0,42% 8,50% 10,67% 4,72% 17,22% 23,51%
Danmörk (OMXC20) 419,28 1,55% 6,74% 4,12% 9,21% 24,74% 27,18%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 27. september 2010)

Krónan

Krónan veiktist örlítið í liðinni viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,22% og endaði í 207,05.  Krónan gaf eftir á móti evru og hækkaði hún í verði um 0,78% og kostaði í lok vikunnar um 154,7 krónur.  Bandaríkjadalur lækkaði hinsvegar um 1,6% í verði.

Seðlabanki Íslands lækkaði vexti um 0,75% og hafði það ekki  teljandi áhrif á krónuna.  Forsvarsmenn bankans tala um að stutt sé í frekari afnám gjaldeyrishafta, en við teljum að afnámið muni ganga fremur hægt fyrir sig.  Áform um afnám gjaldeyrishafta er farið að hafa áhrif á peningastefnuna, ekki síst frekari lækkun vaxta. Er það gert til að sporna við útflæði og veikingu krónunnar. 

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 207,05 0,22% -0,89% -2,96% -9,36% -11,07% -11,79%

 (Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 27. september 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.