Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Verð skuldabréfa breyttist mikið í vikunni. Löng verðtryggð bréf lækkuðu um 3,16% og stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 1,99%. Löng óverðtryggð bréf lækkuðu um 1,26%.

Mikil lækkun varð á verðtryggðum bréfum í kjölfar birtingar verðbólgutalna. Það kom á óvart að verðlag mældist óbreytt milli mánaða en flestir reiknuðu með 0,25-0,3% hækkun. Sala verðtryggðra bréfa var þó mjög ýkt og ljóst að markaðurinn er mjög viðkvæmur þessa dagana.

Ástæðu þess má meðal annars rekja til síðustu stýrivaxtaákvörðunar SÍ en þá voru stýrivextir lækkaðir um 75 punkta og bent á að það yrði að stíga varlega til jarðar m.a. vegna þess að næstu skref í afnámi gjaldeyrishafta yrðu stigin næstu misserin.

Síðar kom fram að það sé ekki að gerast á næstu vikum heldur sé frekar horft til næstu mánaða. Athyglisvert verður að sjá hvaða leið SÍ fer þegar næstu skref verða stigin og hvaða áhrif þau munu hafa á skuldabréfamarkaðinn.



Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 3,77% í síðustu viku þar af lækkaði Eik Banki mest eða um rúm 70% og Össur um 0,5%.

Rólegt hefur verið á innlendum hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur enda margir spákaupmenn komnir yfir á skuldabréfamarkaðinn, en þar hefur verið töluverð velta og miklar sveiflur.

Mjög lítil velta var með hlutabréf í síðustu viku fyrir utan 133 milljóna veltu með bréf Össurar síðasta dag vikunnar sem náði heildarveltunni upp í 209 milljónir.

Á föstudag voru viðskipti stöðvuð með bréf FO-EIK til að gæta jafnræðis fjárfesta en félagið er illa statt í kjölfar mikilla afskrifta og kröfu danska fjármálaeftirlitsins um frekari afskriftir.  Helstu yfirmenn bankans hafa sagt af sér og félaginu gefinn frestur til þess að auka eigið fé.

Leituðu forsvarsmenn EIK Banka meðal annars hingað til Íslands þar sem slitastjórn Kaupþings tók vel í umleitanir þeirra um aðkomu að endurreisn bankans.

Í vikunni tilkynnti Nýherji að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins væri lokið en endurskipulagningin felur í sér aukningu á hlutafé um 120 milljónir að nafnverði á genginu 7, fasteign félagsins er seld en leigð aftur og samið um langtímalán við viðskiptabanka félagsins.

Í tilkynningu félagsins er tekið fram að um helmingur hlutafjáraukningarinnar komi frá nýjum hluthöfum, að söluverð fasteignar félagsins í Borgartúni 37 er kr. 1.650 milljónir og kaupandinn er Íslandsbanki.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 140,00 1,45% 0,72% -4,11% -12,50% 8,11% 3,32%
FO-ATLA 160,50 0,00% 7,00% 18,89% 0,63% 0,31% -31,47%
FO-EIK 20,00 -70,15% -72,22% -74,68% -76,19% -75,00% -76,74%
ICEAIR 3,50 0,00% 0,00% 0,00% 16,67% -4,11% 59,09%
MARL 91,00 0,00% -2,15% 2,94% 15,92% 45,83% 39,14%
OSSR 217,00 -0,46% 5,34% 19,23% 15,73% 40,45% 75,71%
OMXI6ISK 927,48 -3,77% -0,99% 3,74% -1,87% 13,80% 15,52%

(Nasdaq OMX Nordic, 4. október 2010)


Erlend hlutabréf

Allar helstu hlutabréfavísitölur heims lækkuðu lítillega í vikunni.  S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 0,18% og Nikkei í Japan lækkaði um 0,14%.  Þá lækkaði OMXC20 hlutabréfavísitalan í Danmörku um 1,71% en sú vísitala hefur staðið sig hvað best frá áramótum og hefur hækkað um 21,36%.

Fjármálaráðuneyti Japans hefur sagt frá því að þeir notuðu um 200 milljarða jena í september til þess að koma í veg fyrir styrkingu jensins með því að selja jen og kaupa dollar. Gengi dollars hefur ekki verið lægra gagnvart jeni í 15 ár.

Forsætisráðherra Kína segir að Kína ætli að halda áfram að styðja við evruna með kaupum á gjaldmiðlinum og evrópskum ríkisskuldabréfum. Kínverjar hafa lofað því að halda áfram að kaupa ríkisskuldabréf á ríki eins og Grikkland og Spán sem eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1179,19 0,20% 4,66% 14,24% -2,36% 1,35% 8,75%
Þýskaland (DAX) 6211,34 -1,38% 0,35% 5,52% -1,27% 3,33% 12,59%
Bretland (FTSE) 5592,90 -0,07% 2,52% 15,02% -3,13% 2,81% 11,55%
Frakkland (CAC) 3692,09 -2,39% -0,43% 9,20% -9,37% -7,11% 0,18%
Bandaríkin (Dow Jones) 10829,68 -0,26% 3,65% 11,80% -0,89% 3,85% 14,14%
Bandaríkin (Nasdaq) 2370,75 -0,43% 6,13% 13,34% -1,32% 4,48% 15,75%
Bandaríkin (S&P 500) 1146,24 -0,18% 3,78% 12,09% -2,70% 2,79% 11,81%
Japan (Nikkei) 9404,23 -0,14% 2,93% 1,93% -16,88% -11,05% -3,60%
Samnorræn (VINX) 95,29 -0,85% 2,89% 13,12% 3,47% 18,33% 29,60%
Svíþjóð (OMXS30) 1082,37 -1,21% 2,31% 9,04% 3,40% 12,66% 23,55%
Noregur (OBX) 351,66 1,01% 3,58% 17,19% 2,20% 3,19% 24,31%
Finnland (OMXH25)  2420,40 1,61% 5,12% 16,80% 5,48% 18,40% 30,62%
Danmörk (OMXC20) 412,10 -1,71% 0,08% 4,68% 6,68% 21,36% 25,54%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 4. október 2010)


Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,35% og endaði í 206,32. Bandaríkjadalur er að gefa eftir gagnvart evru, og er vikubreytingin 2,2%.

Samkvæmt tæknigreiningu er dollari í veikingarferli gagnvart evru, en þó líklega ofseldur til skemmri tíma. Ástæðan kann að vera að Evrópa í heild er að ná sér hraðar upp úr kreppunni en Bandaríkin, þó staða Evrópuríkja sé afar misjöfn.

Hér heima birti Hagstofan tölur um vöruskipti fyrir fyrstu átta mánuðina. Afgangur í ágúst var um 7 milljarðar og er því orðinn 75,5 milljarðar á árinu. Mestu munar um hækkun á verði áls, en útflutningur sjávarafurða eykst einnig nokkuð.

Tölur um þjónustujöfnuð fyrir sama tímabil hafa ekki verið birtar en á fyrri helmingi ársins er talið að afgangur hafi verið um 12,3 milljarðar króna. Fróðlegt verður að sjá hvernig sumarið hefur komið út, en það lítur út fyrir að ferðamannasumarið hafi verið nokkru betra en menn töldu þegar eldsumbrotin stóðu sem hæst.

Mjög mikilvægt er að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum verði verulegur á næstu árum til að vega á móti miklum halla af þáttatekjum. Veikt raungengi krónunnar styður við það, og því er ákjósanlegt í því tilliti að verðlags- og launahækkanir verði hóflegar og gengi krónunnar verði nokkuð stöðugt við núverandi gildi.  

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 206,32 -0,35% 0,05% -3,16% -9,52% -11,38% -12,31%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 4. október 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.