Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Í liðinni viku breyttist verð skuldabréfa frekar lítið. Löng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,04% og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,8%. Stutt óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,66%.

Á föstudaginn fór fram útboð óverðtryggðra ríkisbréfa, RIKB 12 0824 hjá Lánamálum ríkisins. Tilboðum var tekið fyrir um 1,5 milljarð að nafnverði og var ávöxtunarkrafan 4,3%.

Frekar lítil eftirspurn var í útboðinu eða rúmir 3 milljarðar. Í síðasta útboði sem var 21. september var öllum tilboðum í þennan flokk hafnað sökum þess að krafan þótti of há en þá var lokakrafa á markaði 3,83%.

Það er mikill óróleiki á skuldabréfamarkaði um þessar mundir og markaðurinn stefnulaus og ljóst að óljós og misvísandi skilaboð frá SÍ hjálpa ekki.

Ekki var það heldur til að hjálpa markaðnum þegar breyting var gerð á samningi á milli aðalmiðlara og Lánamála ríkisins en með nýja samningnum var hámarksmunur kaup- og sölutilboða hækkaður í annars vegar 0,6%  (RB19) og hins vegar 1,2% (RB25) fyrir lengstu ríkisbréfin. Þessi breyting gerir markaðinn stirðari en ella og því minnkar viðskiptahæfni þessara bréfa.


Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 0,88% í síðustu viku.  Mest hækkaði gengi Össurar eða um 1,84%. Mesta lækkunin var hjá BankNordik og nam lækkunin 1,43% í mjög litlum viðskiptum.

Í síðustu viku var veltan á markaðnum rúmar 836 mkr. og var stærsti hluti veltunnar í einum viðskiptum með Össur upp á 663 mkr.

Engin viðskipti voru í síðustu viku með Icelandair og Eik banka en lokað er með viðskipti með bréf Eik.

Lokagengi Össurar í Kaupmannahöfn var 11 DKK sem er í kringum 227 ISK. Lokagengi félagsins í Kauphöllinni hér heima var hins vegar 221. Bréfin eru því ódýrari á Íslandi en í Danmörku.

Þeir sem eiga bréfin úti gætu því selt þau þar og flutt andvirðið til Íslands og keypt Össur í kauphöllinni hér. Gjaldeyrishöftin leyfa slíkt en ferlið er þunglamalegt og því varla fýsilegur kostur.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 138,00 -1,43% -1,43% -4,17% -13,21% 6,56% -1,78%
FO-ATLA 160,00 -0,31% 2,56% 18,52% -1,54% 0,00% -20,00%
FO-EIK 20,00 0,00% -71,22% -74,68% -76,19% -75,00% -80,39%
ICEAIR 3,50 0,00% 0,00% 0,00% 6,06% -4,11% 59,09%
MARL 92,00 1,10% -2,13% 1,88% 11,92% 47,44% 40,24%
OSSR 221,00 1,84% 2,79% 19,14% 15,71% 43,04% 80,41%
OMXI6ISK 935,68 0,88% -2,36% 3,22% -2,88% 14,81% 15,52%

(Nasdaq OMX Nordic, 11. október 2010)

Erlend hlutabréf

Hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku. S&P 500 í  Bandaríkjunum hækkaði um 1,71%, DAX í Þýskalandi um 1,29%, Nikkei í Japan um 1,96% og heimsvísitalan MSCI World hækkaði um 2,19%.  

Lítið var um jákvæðar fréttir af efnahagsmálum í vikunni og virðist hlutabréfaverð hafa hækkað vegna væntinga um að Seðlabanki Bandaríkjanna muni nú dæla peningum í fjármálakerfið.  Áfram eru dökkar horfur í atvinnumálum og fækkaði störfum til að mynda um 95.000 í Bandaríkjunum í september.

Óvænt lækkun stýrivaxta í Japan í vikunni ásamt ákvörðun þarlendra stjórnvalda að auka fjármagn í umferð hafði einnig jákvæð áhrif á hlutabréfamarkað um heim allan.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1206,36 2,19% 6,21% 10,83% -1,11% 3,53% 6,13%
Þýskaland (DAX) 6291,67 1,29% 1,47% 3,97% 0,90% 5,85% 10,41%
Bretland (FTSE) 5657,61 1,18% 3,14% 10,55% -1,67% 4,83% 9,93%
Frakkland (CAC) 3763,18 1,93% 1,36% 6,25% -6,76% -4,06% -0,60%
Bandaríkin (Dow Jones) 11006,48 1,71% 5,20% 7,93% 0,08% 5,55% 11,57%
Bandaríkin (Nasdaq) 2401,91 1,33% 7,11% 9,35% -2,12% 5,85% 12,28%
Bandaríkin (S&P 500) 1165,15 1,71% 5,01% 8,09% -2,45% 4,49% 8,74%
Japan (Nikkei) 9684,81 1,96% 3,79% 0,04% -14,42% -9,08% -4,27%
Samnorræn (VINX) 95,61 0,33% 1,94% 9,58% 4,09% 20,61% 26,67%
Svíþjóð (OMXS30) 1085,51 0,29% 2,06% 6,11% 4,43% 14,62% 21,25%
Noregur (OBX) 357,17 1,57% 4,45% 11,87% 1,11% 5,16% 16,46%
Finnland (OMXH25)  2466,82 1,92% 5,61% 15,24% 9,07% 22,24% 29,06%
Danmörk (OMXC20) 415,66 0,87% 0,60% 3,01% 6,30% 24,39% 26,00%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 11. október 2010)

Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,33% og endaði í 205,6473. Krónan hefur styrkst undanfarið í mjög hægum skrefum. Það hefur gerst þrátt fyrir að SÍ hafi keypt gjaldeyri á markaði í hverri viku til að takmarka möguleika krónunnar á frekari styrkingu.

Með þessu er SÍ annars vegar að byggja upp gjaldeyrisforðann og hins vegar að tryggja að krónan verði ekki of sterk en það myndi draga úr útflutningstekjum og ýta undir innflutningi á neysluvörum.

Veikur gjaldmiðill gerir viðkomandi þjóð samkeppnishæfari í alþjóðaviðskiptum og nú keppast margar ríkisstjórnir við að veikja gengi gjaldmiðla sinna til að bæta samkeppnisstöðuna og er talað um að gjaldmiðlastríð ríki í heiminum.

Í síðustu viku var Arnór Sighvatsson með erindi  á morgunfundi sem Íslensk verðbréf hf. stóðu fyrir.  Erindi Arnórs bar heitið „Leiðin úr viðjum gjaldeyrishafta“. 

Þar kom margt áhugavert fram, m.a. að SÍ ætli að endurskoða áætlun um afnám gjaldeyrishafta frá grunni. Hann sagði ennfremur að í undirbúningsvinnunni yrði lagt upp með að þau skref sem stigin yrðu myndu hafa lágmarksáhrif á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaðinn.

Í skoðun er að fjárfestar geti skipt  krónueignum fyrir skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum. Það yrði  gert í útboðum og því framhjá mörkuðunum og ætti því að hafa lágmarksáhrif á markaðina.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 205,65 -0,33% -0,86% -4,14% -9,59% -11,67% -13,43%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 11. október 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.