Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Vikan var mun rólegri en undanfarnar vikur. Löng verðtryggð bréf hækkuðu um 1,61% en stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 0,14%. Stutt óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,86%.

Skuldabréfamarkaðurinn hefur róast undanfarið eftir miklar sveiflur í september. Ástæðan er trúlega sú að flestir telja að það sé enn langt í afnám gjaldeyrishafta og jafnframt að afnám þeirra í skrefum komi til með að hafa minni áhrif á skuldabréfamarkaðinn en áður var talið.

Á miðvikudaginn fór fram útboð á RIKV 11 0215 ríkisvíxlum hjá Lánamálum ríkisins. Tilboðum var tekið fyrir rúma 12 milljarða að nafnverði og voru flatir vextir 4,1%. Síðasta útboð ríkisvíxla var í september og voru flatir vextir þá 4,51%. Ríkið er því að fá mun betri kjör nú en þá.


Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 3,17% á milli vikna. Mest hækkaði BankNordik, um 14,5% í lítilli veltu. Mest lækkuðu bréf Össurar, um 2,71%.

Veltan í síðustu viku nam tæpum 232 milljónum króna og var Marel með 85% af veltunni. Á föstudag barst tilkynning frá félaginu um formlegar viðræður við alþjóðlega banka um fjármögnun fyrirtækisins sem ætti að leiða til stöðugrar og hagkvæmari fjármögnunar til lengri tíma.

Markaðurinn tók vel í þessa frétt og hækkuðu bréf Marels um 4,12% á föstudag, um 7,1% í síðustu viku og endaði gengi félagsins í 98,5.

Bæði BankNordik og Atlantic Petroleum voru með lægra lokagengi í kauphöllinni í Kaupmannahöfn á föstudag heldur en í þeirri íslensku. Munurinn var 4,4% hjá Atlantic og 2,2% hjá BankNordik. Það var hins vegar mjög lítil velta með bréf þessara félaga á íslenska markaðnum.

Eik Banki hefur verið yfirtekinn af danska tryggingasjóðnum Finansiel Stabilitet og rann bankinn inn í nýtt dótturfélag sjóðsins, Eik Banki Föroya P/F.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 158,00 14,49% 13,67% 9,72% -1,25% 22,01% 12,86%
FO-ATLA 160,00 0,00% 0,00% 18,52% -3,03% 0,00% -20,00%
FO-EIK 20,00 0,00% -71,43% -74,68% -77,40% -75,00% -80,20%
ICEAIR 3,50 0,00% 0,00% 0,00% 2,94% -4,11% 94,44%
MARL 98,50 7,07% 3,79% 9,32% 17,54% 57,85% 48,79%
OSSR 215,00 -2,71% -0,92% 16,85% 13,16% 39,16% 72,69%
OMXI6ISK 965,36 3,17% -0,39% 6,52% 0,32% 18,45% 19,68%

(Nasdaq OMX Nordic, 18. október 2010)

Erlend hlutabréf

Almenn hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku. Heimsvísitalan hækkaði um 1,14%,  Dax í Þýskalandi um 3,19%, Dow Jones í Bandaríkjunum um 0,51% og samnorræna vísitalan VINX hækkaði um 1,22%.

Ástæðan fyrir hækkunum í vikunni má rekja til þess að mörg fyrirtæki voru að skila góðum uppgjörum á þriðja ársfjórðungi.

JP Morgan skilaði 4,4 milljörðum dala í hagnað og jókst hagnaðurinn um 23% miðað við sama ársfjórðung í fyrra.

Bandaríski örgjörvaframleiðandinn Intel skilaði þremur milljörðum dala í hagnað og jókst hagnaðurinn um 18% frá sama tímabili í fyrra.

Verð á gulli heldur áfram að hækka og hefur náð sögulegum hæðum, gullverð stendur nú í 1370 dölum á únsu. Hækkunin á gulli er talin vera afleiðing af því að seðlabankastjóri Bandaríkjanna gaf í skyn að bankinn þurfi að leggja bandarískum efnahag aukið fé. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1226,07 1,14% 5,82% 12,25% 0,10% 4,70% 5,81%
Þýskaland (DAX) 6492,30 3,19% 4,15% 7,07% 4,63% 8,56% 12,60%
Bretland (FTSE) 5703,37 0,84% 3,06% 10,04% -1,16% 4,88% 9,38%
Frakkland (CAC) 3827,37 1,71% 2,16% 8,63% -4,62% -3,40% -0,66%
Bandaríkin (Dow Jones) 11062,78 0,51% 4,29% 9,56% 0,40% 6,09% 10,67%
Bandaríkin (Nasdaq) 2468,77 2,79% 6,61% 13,30% -0,50% 8,80% 14,46%
Bandaríkin (S&P 500) 1176,19 0,96% 4,50% 10,45% -1,34% 5,48% 8,14%
Japan (Nikkei) 9500,25 -0,92% -1,33% 0,96% -14,44% -9,94% -7,40%
Samnorræn (VINX) 96,77 1,22% 1,39% 9,39% 3,83% 20,39% 25,05%
Svíþjóð (OMXS30) 1094,52 0,83% 0,81% 5,41% 3,85% 14,60% 17,56%
Noregur (OBX) 362,98 1,63% 4,53% 13,63% 2,53% 6,23% 16,32%
Finnland (OMXH25)  2449,88 -0,69% 2,64% 13,99% 8,48% 19,79% 26,09%
Danmörk (OMXC20) 420,47 1,16% 1,42% 2,30% 3,99% 24,37% 23,37%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 18. október 2010)

Krónan

Krónan veiktist í síðustu viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,51% og endaði í 206,69. Gengisvísitala krónunnar hefur lækkað um 11,22% frá áramótum og verð evrunnar um 13,4%. Undanfarnar vikur hefur krónan verið nokkuð stöðug og er gengisvísitalan á svipum slóðum og um miðjan september.

Seðlabankinn hóf regluleg kaup á gjaldeyri í lok ágúst og virðist vera að hann nái að halda aftur af frekari styrkingu krónunnar með þeim, þrátt fyrir verulegan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd.

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð lækkaði nokkuð skarpt í vikunni og virðist vera að fréttir um að hagstæð niðurstaða sé að nást í Icesave málinu sé að hafa þar áhrif. Álagið fór úr 305 punktum og niður fyrir 286 punkta.

Hins vegar hafa stjórnvöld áður talið sig vera með „hagstæðann Icesavesamning í höndunum“ og því á eftir að koma í ljós hvernig þingmenn taka þessum nýja samningi.

Ef málið klárast á næstunni er líklegt að skuldatryggingarálagið lækki verulega og jafnframt að fjármögnun innlendra aðila á erlendum mörkuðum verði auðveldari. 


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 206,69 0,51% -0,84% -3,42% -9,27% -11,22% -13,00%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 18. október 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.