Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Töluverðar sveiflur urðu á verði ríkisskuldabréfa í síðustu viku þótt vikubreytingin væri ekki mikil. Löng verðtryggð bréf lækkuðu um 0,33%, stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,82% og stutt óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,16%.

Í vikunni birti Hagstofa Íslands vísitölu neysluverðs miðað við verðlag í október.  Vísitalan hækkaði um 0,74% á milli mánaða sem er heldur meira en markaðsaðilar reiknuðu með. Stærstu liðir til hækkunar eru hitaveita, flugfargjöld, húsnæði og mat- og drykkjavörur. Tólf mánaða hækkun er 3,3%.

Markaðurinn tók þessum fréttum með því að selja út óverðtryggð bréf. Verð þeirra hækkaði hins vegar töluvert í lok vikunnar svo vikubreytingin varð nánast engin.



Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,27% í síðustu viku og voru það færeysku félögin Atlantic Petroleum (11,25%), Atlantic Airways (3,64%) og BankNordik (2,0%) sem hækkuðu mest.

Mikil velta var með bréf Össurar í síðustu viku eða alls fyrir 1,3 milljarða. Einn seljandi er þar með stærsta hlutinn en Eyrir seldi 1,4% hlut í Össuri fyrir 1,2 milljarða króna á genginu 215.

Össur og Marel birtu uppgjör í síðustu viku fyrir þriðja ársfjórðung.

Uppgjör Marels var mjög gott og jukust tekjur af kjarnastarfsemi um þriðjung miðað við sama tímabil fyrir ári. Hagnaður fyrir vexti og skatta var heldur lægri en fjórðunginn á undan, en líklegt er að félagið nái markmiði sínu fyrir árið í heild.

Pantanastaða er mjög góð og hafa pantanir í hverjum fjórðungi verið meiri en afgreiddar pantanir fjórðunginn á undan síðustu sjö fjórðunga sem verður að teljast mjög jákvætt.

Fjármögnun félagsins er ekki á nægilega traustum grunni en félagið hefur hafið viðræður við erlenda banka um endurfjármögnun og er líklegt að það muni ganga vel, því skuldastaða í hlutfalli við framlegð félagsins er vel viðunandi og mun sennilega halda áfram að batna.

Uppgjör Össurar fyrir 3. ársfjórðung var ekki alveg eins gott. Söluaukning er um 4% miðað við sama tímabil fyrir ári, framlegð vex þó nokkuð en hagnaður dregst saman um 16%. Þar vegur þungt neikvæð gengisþróun.

Sé horft til fyrstu níu mánaða ársins í samanburði við árið á undan, þá hefur árið gengið nokkuð vel. Rekstur Össurar er sterkur og fjárhagsstaða mjög sterk. Verð á bréfum Össurar er orðið nokkuð hátt eftir að hafa hækkað um 40% á árinu.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 153,00 2,00% 18,60% 6,25% -7,27% 18,18% 11,68%
FO-AIR 114,00 3,64% -4,20% -2,56% -10,24% -19,15% -22,45%
FO-ATLA 178,00 11,25% 10,90% 25,35% 10,22% 11,25% -11,00%
ICEAIR 3,50 0,00% 0,00% 2,94% 12,90% -4,11% 45,83%
MARL 97,60 -1,21% 5,74% 7,25% 4,27% 56,41% 44,81%
OSSR 215,00 0,94% -1,38% 9,41% 9,69% 39,16% 66,67%
OMXI6ISK 948,98 1,27% 3,14% 1,23% -5,48% 16,44% 16,85%

(Nasdaq OMX Nordic, 1. nóvember 2010)

Erlend hlutabréf

Lítil hreyfing var á heimsvísitölunni í vikunni en hún lækkaði um 0,04%. FTSE í Bretlandi lækkaði um 1,09%, Nikkei í Japan lækkaði um 2,38%, S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 0,04% og OBX í Noregi hækkaði um 1,82%

Tveggja prósenta hagvöxtur mældist í Bandaríkjunum á þriðja ársfjórðungi og var hann að mestu drifinn áfram af einkaneyslu.

Hagvöxtur  mældist 0,8% á þriðja ársfjórðungi í Bretlandi en það er meiri hagvöxtur en sérfræðingar höfðu spáð. Mikill niðurskurður hefur verið hjá hinu opinbera sem gefur til kynna að einkageirinn sé að vega upp niðurskurð hins opinbera.

Verðtryggð skuldabréf á ríkissjóð Bandaríkjanna voru seld með 0,55% neikvæðri kröfu og er það í fyrsta skipti sem útgefin skuldabréfaflokkur á ríkissjóð er neikvæður, bréfin voru til 5 ára. Fjárfestar virðast reikna með áframhaldandi verðbólgu í Bandaríkjunum næstu árin. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1221,35 -0,04% 3,21% 8,66% 1,97% 4,60% 10,49%
Þýskaland (DAX) 6601,37 -0,07% 5,69% 8,31% 8,53% 11,78% 22,97%
Bretland (FTSE) 5675,16 -1,09% 2,27% 8,78% 3,00% 5,67% 13,39%
Frakkland (CAC) 3833,50 -0,91% 4,70% 6,11% 1,28% -1,79% 7,15%
Bandaríkin (Dow Jones) 11118,49 -0,13% 2,67% 6,23% 1,00% 6,62% 14,47%
Bandaríkin (Nasdaq) 2479,39 1,15% 5,76% 11,21% 1,88% 10,50% 22,61%
Bandaríkin (S&P 500) 1183,26 0,04% 3,23% 7,41% -0,29% 6,11% 14,19%
Japan (Nikkei) 9202,45 -2,38% -2,65% -4,01% -17,21% -13,20% -8,77%
Samnorræn (VINX) 96,36 -1,76% 1,70% 7,13% 4,83% 21,26% 28,22%
Svíþjóð (OMXS30) 1089,32 -1,86% 0,58% 3,95% 3,30% 14,39% 15,24%
Noregur (OBX) 371,22 1,82% 7,09% 14,91% 8,17% 10,98% 25,83%
Finnland (OMXH25)  2450,09 -2,05% 1,66% 10,24% 9,42% 21,05% 33,32%
Danmörk (OMXC20) 424,20 -0,12% 2,85% 3,17% 3,00% 25,89% 30,75%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 1. nóvember 2010)

Krónan

Krónan styrktist aðeins í síðustu viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,58% og endaði í 206,17 stigum.

Hagstofan birti tölur um vöruskipti við útlönd í september. Afgangur var um 10,6 ma.kr. og er orðin um 88,6 ma.kr. fyrstu níu mánuðina. Það er 25,6 mö.kr. meiri afgangur en á sama tímabili 2009.

Þar vegur þungt verðhækkun á áli og aukið verðmæti sjávarafurða. Einnig minnkar útflutningur á flugvélum og skipum verulega, en útflutningur undir liðnum „aðrar vörur“ minnkar um 21,7 ma.kr.  Því má draga þá ályktun að afgangurinn sé enn hagkvæmari en ella.

Ein af forsendum seðlabankans við frekara afnám gjaldeyrishafta er sterkt innflæði vegna afgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum til að vega á móti auknu frjálsræði í fjármagnsflutningum . Þess ber þó að geta að útflæði vegna þáttatekna, ekki síst vaxtagreiðslna er nokkuð á reki og því óljóst hvernig heildarmyndin lítur út. 

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 206,17 -0,58% -0,21% -3,21% -9,16% -11,44% -13,10%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 1. nóvember 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.