Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Vikan byrjaði rólega en eftir stýrivaxtalækkun og ræðu seðlabankastjóra varð talsverð hækkun á markaði. Löng verðtryggð bréf hækkuðu um 1,98% í vikunni, stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,68% og stutt óverðtryggð bréf hækkuðu um 3,09%.

Stýrivextir lækkuðu um 0,75 prósentustig í vaxtaákvörðun seðlabankans á miðvikudaginn sem var í takt við spá markaðsaðila. Með þessari lækkun eru stýrivextir komnir í 5,5%.

Nú fer trúlega að sjá fyrir endann á vaxtalækkunarferlinu. Við reiknum þó með 50 punkta lækkun stýrivaxta á næsta vaxtaákvörðunardegi sem verður 3 desember n.k. Framhaldið ræðst að mestu af samspili hagvaxtar og hvernig staðið verður að afnámi gjaldeyrishafta.

Á föstudaginn fór fram útboð á óverðtryggðum  bréfum í flokki RIKB16 og verðtryggðum bréfum í flokki RIKS21.  Í RIKB16 var tilboðum tekið fyrir rúma 12 milljarða að nafnverði og var ávöxtunarkrafan 5,56%.  Í RIKS21 var tilboðum tekið fyrir rúma 3 milljarða og var ávöxtunarkrafan 3,25%.

Í síðasta útboði þessara flokka var ávöxtunarkrafan 6,01% í RIKB16 og 3,52% í RIKS21. Ríkið er því að fjármagna sig á betri kjörum nú en var þá.



Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 0,32%.  Mest lækkuðu bréf Icelandair group í litlum viðskiptum, lækkunin nam 14,3% og endaði gengið í 3,0 kr á hlut.  Nýir hlutir í félaginu voru skráðir á fimmtudeginum eftir útboð til fagfjárfesta. Hlutirnir voru seldir á genginu 2,5 krónur á hlut.

Lítil viðskipti voru á markaði í vikunni, veltan nam rúmlega 85 milljónum króna.

Eina félagið sem hækkaði var Atlantic Petroleum sem skilaði nokkuð góðu ársfjórðungsuppgjöri og hækkaði félagið um 6,74%. Í kjölfarið hækkuðu stjórnendur áætlanir um rekstrarhagnað fyrir árið vegna aukinnar framleiðslu og hærra verðs á olíu.

BankNordik skilaði tapi á 3.ársfjórðungi og skýrist það fyrst og fremst af niðurfærslu á veðum tengdum útlánum bankans.  Fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður félagsins 365 milljónum danskra króna og kemur það aðallega til vegna sölu á Bakkafrost Holding í upphafi árs.

Áætlanir stjórnenda um hagnað fyrir skatta og breytingar á eignasafni fyrir árið í heild hafa verið lækkaðar úr 470-510 milljónir niður í 360-400 milljónir DKK.

Atlantic Airways skilaði hagnaði upp á 8,4 milljónir DKK fyrir fyrstu 9 mánuði ársins og er það ríflega 31% betri afkoma en á sama tímabili í fyrra. Stjórnendur eru mjög sáttir við fjórðunginn, sérstaklega þar sem rekstrarumhverfi hefur verið erfitt á árinu. 

Seðlabanki Íslands hefur að beiðni Össurar veitt öllum hluthöfum, sem hafa eignast hlutabréf í félaginu fyrir 1.nóvember 2010, heimild til að umbreyta bréfunum og færa þau af íslenska markaðnum á þann danska.

Það mun hafa þau áhrif að seljanleiki bréfanna eykst mikið. Aftur á móti mun þessi heimild, ef fjárfestar nýta sér hana í ríkum mæli hafa neikvæð áhrif á kauphöllina hér heima, en Össur er stærsta félagið í kauphöllinni á Íslandi. 

Marel sendi út tilkynningu í síðustu viku þar sem félagið mun gera eigendum skuldabréfa tveggja flokka sem skráð eru á Íslandi skilyrt tilboð um endurkaup á bréfunum. 

Þetta eru einu eftirstandandi skuldir félagsins í íslenskum krónum. Endurkaupin eru hluti af áætlun Marels um að tryggja sér stöðuga og hagkvæma fjármögnun, sem mun auðvelda frekari samþættingu á starfsemi félagsins.  Endurkaupin eru háð því að það náist viðunandi fjármögnun áður en gengið verður frá kaupunum.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 153,00 0,00% 10,87% 6,25% -4,37% 18,15% 12,09%
FO-AIR 112,00 -1,75% -5,88% -4,27% -11,81% -20,00% -20,57%
FO-ATLA 190,00 6,74% 18,75% 33,80% 17,65% 18,75% 5,85%
ICEAIR 3,00 -14,29% -14,29% -11,76% -3,23% -17,81% 7,14%
MARL 96,00 -1,64% 4,46% 5,84% 11,11% 53,85% 41,38%
OSSR 214,00 -0,32% 1,05% 1,14% 0,28% 16,07% 15,84%
OMXI6ISK 945,95 -0,32% 1,05% 1,14% 0,28% 16,07% 15,84%

(Nasdaq OMX Nordic, 8. nóvember 2010)

Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 3,64%, DAX í Þýskalandi um 2,32%, FTSE í Bretlandi um 3,64%, Nikkei í Japan um 4,6% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 3,52%.

Hlutabréfaverð hækkaði eftir að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, tilkynnti ákvörðun bankans að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 600 milljarða Bandaríkjadala fram til júní 2011.  Þannig hyggst hann blása lífi í efnahag þjóðarinnar sem einkennst hefur af miklu atvinnuleysi og lítilli verðbólgu. 

Englandsbanki ákvað í vikunni að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5%.  Einnig var tilkynnt að ekki stæði til að auka lausafé í umferð en hagvöxtur hefur reynst meiri en spár gerðu ráð fyrir eða 0,80% á þriðja ársfjórðungi.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1263,41 3,52% 4,54% 9,76% 15,02% 8,24% 11,71%
Þýskaland (DAX) 6754,2 2,32% 5,69% 7,69% 17,95% 13,16% 22,83%
Bretland (FTSE) 5875,35 3,64% 3,76% 10,09% 14,59% 8,45% 14,15%
Frakkland (CAC) 3916,73 2,17% 3,79% 5,11% 15,13% -0,77% 5,36%
Bandaríkin (Dow Jones) 11444,08 2,98% 3,98% 7,42% 10,25% 9,74% 14,17%
Bandaríkin (Nasdaq) 2479,39 2,89% 7,37% 12,69% 13,83% 13,65% 22,09%
Bandaríkin (S&P 500) 1225,85 3,64% 5,21% 9,29% 10,35% 9,93% 14,64%
Japan (Nikkei) 9625,99 4,60% 1,50% 0,94% -6,09% -7,71% -0,58%
Samnorræn (VINX) 98,11914 1,83% 2,96% 6,40% 19,43% 23,17% 29,51%
Svíþjóð (OMXS30) 1098,689 1,62% 1,57% 2,98% 10,56% 16,25% 17,18%
Noregur (OBX) 377,57 1,71% 5,72% 10,05% 18,81% 11,28% 24,80%
Finnland (OMXH25)  2503,439 2,18% 1,46% 9,04% 25,08% 23,14% 32,86%
Danmörk (OMXC20) 431,3222 1,68% 4,14% 3,19% 16,64% 28,57% 31,75%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 8. nóvember 2010)  

Krónan

Krónan styrktist í síðustu viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,47% og endaði í 205,20 stigum. Flestir af helstu gjaldmiðlum lækkuðu í verði gagnvart krónu, Bandaríkjadalur mest, um 2,28% og japanskt jen um 2,26%. Svissneskur franki hækkaði hins vegar mest, um 0,85%.

Verð á Bandaríkjadal er komin undir 110 krónur og hefur ekki verið lægra síðan um miðjan október 2008. Dýrastur var hann hins vegar í byrjun desember 2008, um 149 krónur og hefur hann því lækkað um 26% frá þeim punkti.

Eins og áður hefur komið fram lækkaði Seðlabanki íslands vexti um 0,75 prósentustig og hafa vextir líklega aldrei verið eins lágir að sögn seðlabankastjóra. Vextir gegn veði til sjö daga eru nú 5,5%.

Már Guðmundsson lagði mikla áherslu á það í ræðu sinni að næstu skref í afnámi haftanna munu ekki verða fyrr en í fyrsta lagi í mars. Með orðum sínum er seðlabankinn að reyna að róa skuldabréfamarkaðinn og draga úr sveiflum, en þær hafa verið mjög miklar frá því vextir voru lækkaðir 22. september síðastliðin.

Þá voru orð Más um gjaldeyrishöft túlkuð á þann veg að frekara afnám væri handan við hornið og kom það af stað lækkunarspíral á ríkistryggðum bréfum.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 205,2034 -0,47% -0,15% -1,94% -7,04% -11,86% -14,51%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 8. nóvember 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.