Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,14%  í vikunni og óverðtryggð um 0,6%.  Mest hækkuðu löng óverðtryggð bréf og hækkaði RIKB 25 um 0,93% og RIKB 19 um 0,6%.  Nú er svo komið að krafa allra óverðtryggðra bréfa er komin undir 6% og vel undir 5% á styttri bréfum.

Meðalverðbólga á Íslandi á ársgrunni hefur verið 6,1% undanfarin 10 ár og 8,3% undanfarin 5 ár en það segir þó ekkert til um þá verðbólgu sem mun verða næstu árin.  Hins vegar mun sú litla verðbólga sem mælst hefur undanfarna mánuði líklega aukast þegar hagkerfið kemst almennilega af stað.

Þrýstingur á launahækkanir mun fara vaxandi og aukin eftirspurn ein og sér mun leiða til þess að verslun og þjónusta leitast við að auka álagningu sína.  Undanfarna þrjá mánuði hefur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs haft áhrif til hækkunar vísitölunnar og líklega mun það verða þannig áfram.

Fróðlegt verður að sjá hvort Ísland komist upp úr hjólum mikillar verðbólgu en ýmsir telja að viðtæk verðtrygging sé einn af stærri áhrifavöldum hennar. 

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan stóð nánast í stað á milli vikna.  Össur hækkaði mest, um rúmt 1%.  Mest lækkuði Eik banki og nam lækkunin 4,76% í litlum viðskiptum.

Veltan í síðustu viku var um 136 m.kr. og sem fyrr var mest velta með bréf í Össuri og Marel, ríflega 67 milljónir með hvort félag.  Í vikunni keypti forstjóri Össurar hf. Jón Sigurðsson 35.000 hluti í félaginu á genginu 199.

Í síðustu viku birtu tvö félög í vísitölunni hálfs árs uppgjör. 

Eik banki í Færeyjum skilaði hagnaði upp á 3 milljónir danskra króna eftir skatta á fyrstu 6 mánuðum ársins, á sama tíma í fyrra var tap upp á 69 milljónir danskra króna.  Vaxtatekjur bankans jukust um 25% á milli ára, einnig var aukning á þóknunartekjum á milli ára sem nam 10%. 

Launatengd gjöld og kostnaður hækkuðu um 13%.  Forstjóri bankans segir að þrátt fyrir að árið 2010 verði bankanum erfitt þá er enn spáð hagnaði af rekstri fyrir árið í heild.

Icelandair Group tapaði 2 ma.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins en um 5 ma.kr. árið 2009.  Heildartekjur félagsins jukust um 12% á milli ára.  Gosið í Eyjafjallajökli hafði veruleg áhrif á rekstur félagsins og er tjónið metið á um 1,5 ma.kr. 

Þrátt fyrir þetta hefur félagið hækkað EBITDA-spá ársins úr 7,6 ma.kr í 8,5 ma.kr fyrir árið í heild.  EBITDA fór úr 1,5 ma.kr. fyrstu 6 mánuði 2009 í 2,3 ma.kr. í ár.

Þá tilkynnti Icelandair Group í síðustu viku að fjárhagslegri endurskipulagningu væri lokið.  Fjárfestar hafa skráð sig fyrir 5,5 ma.kr að markaðsvirði í nýju hlutafé sem jafngildir 2,2 milljörðum nýrra hluta. 

FME veitti Framtakssjóði Íslands undanþágu frá yfirtökuskyldu á félaginu sem myndast við eign yfir 30%.  Framtakssjóðurinn skuldbatt sig til að leggja fram 3 ma.kr. og eignast þar með 1,2 milljarða hluta í félaginu á genginu 2,5 og með því 32,5% hlutafjár í félaginu. 

Þá skuldbatt Lífeyrissjóður Verslunarmanna sig til að fjárfesta fyrir 1 ma.kr. einnig á genginu 2,5.  Stærstu lánveitendur munu breyta skuldum  fyrir 3,6 ma.kr. í hlutafé á genginu 5.

Stefnt er að safna 2,5 ma.kr. í viðbót í nýju hlutafé en tilkynnt verður síðar um fyrirkomulag og tímasetningu þess útboðs.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 144,00 0,00% 0,00% -8,28% -1,37% 11,20% 18,52%
FO-ATLA 142,00 0,00% 5,19% -12,07% -10,69% -11,25% -48,75%
FO-EIK 80,00 -4,76% 1,27% -4,76% -0,25% 0,00% -6,98%
ICEAIR 3,40 0,00% -2,86% 9,68% 17,24% -6,85% -24,44%
MARL 91,50 0,88% 1,55% 8,67% 49,51% 46,63% 67,28%
OSSR 198,50 1,02% 7,30% 8,77% 21,78% 28,48% 69,66%
OMXI6ISK 935,04 -0,02% 3,19% 0,75% 11,62% 14,73% 23,07%

  (Nasdaq OMX Nordic, 16. ágúst 2010)


Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu mikið í liðinni viku. Heimsvísitalan lækkaði um 4,17%, Dax vísitalan í Þýskalandi lækkaði um 2,38%, Dow Jones lækkaði um 3,21% og Nikkei lækkaði um 4,03%.

Hagvöxtur í Þýskalandi mældist 2,2% á öðrum ársfjórðungi ársins en svo mikill hagvöxtur hefur ekki mælst þar í landi undanfarin 20 ár. Ástæða hagvaxtarins er rakin til aukins útflutnings en útflutningur af evrusvæðinu nýtur nú veikari evru. 

Meðalhagvöxtur á evrusvæðinu var 1% á öðrum fjórðungi og heldur Þýskaland áfram að draga vagninn á evrusvæðinu, en tveir þriðju hagvaxtar svæðisins á tímabilinu má rekja til Þýskalands.

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, segir að seðlabankinn muni auka peningamagn í umferð og fjárfestingar til langs tíma til þess að efla efnahag landsins. 

Þessar yfirlýsingar höfðu ekki jákvæð áhrif á markaðinn til skemmri tíma.  Aftur á móti telja menn að efnahagshorfur til lengri tíma séu bjartar. Fjármálakerfi landsins hefur náð þó nokkrum stöðugleika og stærstu bankar landsins eru farnir að skila hagnaði í takt við væntingar.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1106,07 -4,17% 1,25% -1,80% -1,89% -5,56% 3,72%
Þýskaland (DAX) 6110,41 -2,38% 0,99% 0,71% 9,08% 2,39% 14,89%
Bretland (FTSE) 5275,44 -0,94% 1,98% -0,04% 0,32% -2,81% 11,60%
Frakkland (CAC) 3610,91 -2,83% 2,65% 0,91% -2,08% -8,73% 2,79%
Bandaríkin (Dow Jones) 10303,15 -3,21% 2,03% -2,98% 0,33% -1,20% 10,53%
Bandaríkin (Nasdaq) 1818,80 -4,41% 0,85% -4,63% 0,93% -2,23% 12,86%
Bandaríkin (S&P 500) 1079,25 -3,71% 1,35% -4,97% -1,43% -3,21% 7,49%
Japan (Nikkei) 9253,46 -4,03% -2,25% -12,10% -8,35% -12,80% -13,22%
Samnorræn (VINX) 89,61 -3,14% 1,45% 1,62% 9,70% 11,65% 23,34%
Svíþjóð (OMXS30) 1036,45 -2,70% 0,03% 5,09% 10,78% 8,75% 18,05%
Noregur (OBX) 326,34 -4,89% 2,90% -0,99% 3,31% -3,81% 20,59%
Finnland (OMXH25)  2258,72 -1,60% 4,85% 5,37% 11,14% 10,18% 22,48%
Danmörk (OMXC20) 412,99 -1,55% 0,14% 1,49% 15,61% 21,74% 24,35%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 16. ágúst 2010)

 

Krónan

Gengi krónunnar styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,77% og endaði í 207,74.  Krónan styrkist enn gagnvart evru og lækkaði evra um 1,26% í verði í vikunni. Síðastliðna 3 mánuði nemur lækkunin 6,44% og 14,83% frá áramótum. 

Yfir sumarmánuðina nýtur krónan innflæðis vegna erlendra ferðamanna en einnig hafa viðskiptakjör útflutningsvara batnað undanfarin misseri.

Seðlabankinn gaf þann 23. júní út að hann stefndi að kaupum á gjaldeyri.  Það ætti að halda aftur af frekari styrkingu eða jafnvel veikja krónuna.  Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hefur evran lækkað í verði um 2,25% frá 23. júní.  Evran hefur verið að styrkjast nokkuð frá þessum tíma og fást nú 3,6% fleiri dollarar fyrir hverja evru.

Flest bendir til þess að evrusvæðið sé komið fyrir vindinn og mun krónan njóta góðs af því a.m.k meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði.  Þar má nefna ágætt afurðaverð útflutningsvara, sem fer jafnvel hækkandi og auknar tekjur af ferðamönnum vegna vaxandi kaupmáttar í Evrópu. 

Einnig ætti krónan að fylgja evrunni nokkuð og styrkjast frekar en hitt í skjóli haftanna en viðskipti eru þó fremur strjál á millibankamarkaði með krónur. 

Síðan verður að koma í ljós hvað Seðlabanki Íslands telur ásættanlegt að krónan styrkist mikið.  Bankinn gæti þá selt krónur og byggt upp gjaldeyrisforðann og þannig viðhaldið sterkri samkeppnisstöðu landsins með veiku raungengi.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 207,74 -0,77% -1,93% -4,48% -9,53% -10,77% -11,17%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 16. ágúst 2010)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.