Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Verðtryggð skuldabréf hækkuðu töluvert í vikunni – lengri bréfin um 0,89% og styttri um 0,64%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 1,4%. Ávöxtun vikunnar var því mjög góð og má rekja hana til vaxtaákvörðunar SÍ.

Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti um 100 punkta og eru þeir nú 7%. Þetta er mun stærra skref en þau sem stigin hafa verið að undanförnu, en á árinu hefur SÍ þrepað stýrivextina niður í 50 punkta skrefum.

Athygli vekur að SÍ lækkar vexti þetta mikið þrátt fyrir viðvarandi óvissu um niðurstöðu Icesavemálsins og hvernig bönkunum muni reiða af í kjölfar dóms hæstaréttar um hvaða vexti gengistryggðu lánin muni bera.

 

Innlend hlutabréf

Færeysku bankarnir Eik Bank (-5,63%) og Bank Nordik (-2,78%) lækkuði í síðustu viku sem leiddi til 0,64% lækkunar OMXI6ISK vísitölunnar. Á móti hækkuðu Icelandair, Marel og Össur en engin viðskipti voru með Atlantic Petroleum. 

Heildarveltan var rúmar 151 mkr., mest með Marel og Össur að venju en engu að síður er langt síðan að viðskipti hafa verið með jafn mörg félög vísitölunnar í einni og sömu vikunni. 

Koma lífeyrissjóðirnir til með að bjarga íslenska hlutabréfamarkaðinum? Eftir kaup Framtakssjóðs Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum má segja að augu fjárfesta beinist einna helst í þá átt þegar horft er til félaga sem gætu leitað eftir skráningu í íslensku kauphöllina. En mjög brýnt er orðið að eitthvað verði gert til að lífga íslenska hlutabréfamarkaðinn við.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 140,00 -2,78% -2,78% -7,89% -3,11% 8,11% 13,82%
FO-ATLA 142,00 0,00% 0,00% -12,07% -7,19% -11,25% -48,75%
FO-EIK 75,50 -5,63% -4,43% -10,12% -4,43% -5,63% -12,21%
ICEAIR 3,50 2,94% 0,00% 12,90% 20,69% -4,11% -10,26%
MARL 92,00 0,55% -0,54% 22,67% 46,03% 47,44% 55,41%
OSSR 200,00 0,76% 7,53% 13,64% 21,21% 29,45% 63,93%
OMXI6ISK 929,01 -0,64% 1,29% 6,16% 10,43% 13,99% 18,31%

(Nasdaq OMX Nordic, 23. ágúst 2010)

Erlend hlutabréf

Í vikunni lækkaði heimsvísitalan um 0,82%, FTSE í Bretland lækkaði um 1,34%, Dow Jones í Bandaríkjunum lækkaði um 0,74%, samnorræna vísitalan Vinx lækkaði um 1,02% og Nikkei í Japan lækkaði um 0,80%.

Mjög mikil hagvöxtur er í Kína sem virðist vera orðið annað stærsta hagkerfi heimsins en landsframleiðslan var 1,33 þúsund milljarðar USD á öðrum ársfjórðungi en landsframleiðsla Japans var 1,28 þúsund milljarðar USD á sama tíma. Bandaríkin eru enn lang stærsta hagkerfi heimsins en landsframleiðsla Bandaríkjanna árið 2009 var 14 þúsund milljarðar USD.

Evrópski seðlabankinn heldur áfram að dæla peningum inn í hagkerfið en bankinn lánaði spænskum bönkum 130 milljarða evra fyrstu 6 mánuði ársins, grískir bankar hafa fengið 116 milljarða evra og portúgalskir bankar hafa fengið 49 milljarða evra.

Þessi  ríki glíma við gríðarlega erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum.  Efnahagsvandinn er talinn vera verstur í Grikklandi en þar hafa innistæður í bönkum lækkað mikið það sem af er ári. Ástæðan er sú að grískir efnamenn hafi flúið með fé sitt úr  landi og heimili og fyrirtæki landsins þurfa að ganga á sparnað til að ná endum saman. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1106,91 -0,82% -2,12% 1,88% -3,08% -6,39% 1,22%
Þýskaland (DAX) 6005,16 -1,72% -2,20% 3,45% 7,61% 1,23% 10,40%
Bretland (FTSE) 5195,28 -1,34% -1,55% 3,31% -1,59% -3,37% 7,82%
Frakkland (CAC) 3526,12 -2,33% -1,46% 3,60% -4,12% -9,70% -1,70%
Bandaríkin (Dow Jones) 10213,62 -0,74% -2,02% 0,20% -0,67% -2,06% 7,44%
Bandaríkin (Nasdaq) 1825,75 0,42% -2,65% 0,16% 1,78% -1,86% 11,48%
Bandaríkin (S&P 500) 1071,69 -0,65% -2,81% -1,47% -2,09% -3,89% 4,44%
Japan (Nikkei) 9179,38 -0,80% -3,33% -6,83% -11,93% -13,56% -10,95%
Samnorræn (VINX) 88,68 -1,02% -1,91% 8,10% 7,36% 11,34% 18,94%
Svíþjóð (OMXS30) 1020,63 -1,53% -3,55% 6,97% 8,30% 7,20% 11,64%
Noregur (OBX) 323,77 -0,79% -1,71% 3,76% 2,12% -4,00% 17,05%
Finnland (OMXH25)  2222,34 -1,61% -0,02% 9,30% 7,82% 9,55% 18,97%
Danmörk (OMXC20) 398,29 -3,46% -2,39% 6,72% 12,23% 19,15% 21,49%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 23. ágúst 2010)

Krónan

Gengi krónunnar var nær óbreytt milli vikna, en gengisvísitalan lækkaði um 0,04% og endaði í 207,67.  Seðlabanki Íslands lækkað vexti sína í vikunni um 1 prósentustig. Gengi krónunnar tók litlum sem engum breytingum við þetta stóra skref bankans, en krónunni er haldið nokkuð fastri með gjaldeyrishöftum.

Bankinn tilkynnti fyrirhuguð kaup á gjaldeyri í lok ágúst en tilgangurinn er að styrkja þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er tekinn að láni.

Bankinn ætlar að fara hægt í sakirnar með það í huga að kaupin hafi sem minnst áhrif á gengi krónunnar en kaupin ein og sér leiða til veikingar krónunnar. Einnig kom fram að óráðið er hvenær hægt verður að slaka frekar á gjaldeyrishöftunum.

Áður hefur komið fram sú skoðun markaðsfrétta ÍV að líklegt sé að höftin verði við lýði mun lengur en Seðlabankinn hefur gefið til kynna. Með lækkandi vöxtum samhliða afnámi hafta gæti skapast of mikill þrýstingur á krónuna. Ein af ástæðum þess er að innlendir stóreignamenn kunni að vilja koma sér undan mikilli skattaheimtu og færa fé sitt úr landi.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 207,67 -0,04% -1,69% -3,94% -9,50% -10,80% -12,36%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 23. ágúst 2010)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.