Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,07% í vikunni en stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,06%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu töluvert eða um 0,92%.

Töluverðar sveiflur voru á verði ríkistryggðra bréfa í síðustu viku. Framan af vikunni lækkuðu þau í verði en tóku mikinn kipp á föstudaginn og gekk lækkun vikunnar nánast til baka í löngu verðtryggðu bréfunum. Trúlega hafði það áhrif á verðmyndunina að Íbúðalánasjóður var með útboð 27. apríl.

Vísitala neysluverðs var birt á fimmtudeginum og hækkaði verðlagið um 0,25% sem var heldur minna en markaðsaðilar reiknuðu með. Þetta jók bjartsýni á að það verði heldur meiri stýrivaxtalækkun en ella á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er 5. maí n.k. Við teljum líklegt að stýrivextir verði lækkaðir um 50-75 punkta á þeim fundi.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um rúm 4% á milli vikna, heildarveltan var með mesta móti í síðustu viku eða um 583 milljónir króna.

Langmest velta var með bréf Marels, um 463 milljónir króna en félagið skilaði góðu fyrsta ársfjórðungs uppgjöri í vikunni sem leið.   Hagnaður eftir skatta á tímabilinu nam 5,6 milljónum evra á móti tapi upp á 1,7 milljón evra á sama tímabili 2009.

Þrjú félög í vísitölunni hækkuðu en tvö lækkuðu og eitt stóð í stað á milli vikna.  Mest hækkaði Marel, um rúm 12%.

Össur skilaði einnig nokkuð góðu uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung í síðustu viku og nam hagnaður tímabilsins 10 milljónum USD sem er 28% aukning frá fyrra ári. 

Þá skilaði Icelandair Group uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung 2009 sem og uppgjöri fyrir 2009 í heild. Tap eftir skatta á fjórða fjórðungnum nam 9,6 milljörðum króna á móti 10,6 milljörðum fyrir sama tímabil 2008. Tapið á árinu 2009 nam 10,7 milljörðum en var 7,5 milljarðar árið 2008.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu má fyrst og fremst rekja tap ársins til of mikillar skuldsetningar á árunum á undan.  Fjárhagsleg endurskipulagning er á lokastigum og er nauðsynlegt að það klárist sem fyrst þannig að tryggt sé að reksturinn standi undir vaxta- og greiðslubyrði lána.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 165 3,13% 3,13% 25,00% 20,44% 27,41% 39,83%
FO-AIR 127 -0,78% -3,79% -9,93% -13,61% -9,93% -26,80%
FO-ATLA 161,5 -2,12% 1,25% 0,94% -19,25% 0,94% -2,47%
ICEAIR 3,1 0,00% 3,33% 3,33% 19,23% -15,07% -38,00%
MARL 93,6 12,36% 19,24% 54,97% 37,85% 50,00% 87,20%
OSSR 196 2,08% 4,53% 24,05% 51,94% 26,86% 110,30%
OMXI6ISK 1003,98 4,07% 6,22% 24,21% 23,93% 23,19% 54,83%

(Nasdaq OMX Nordic, 03. maí 2010)

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu í síðustu viku um 1,7 til 2,7% eftir að hafa hækkað jafnt og þétt síðan í byrjun febrúar.  Ástæðurnar eru meðal annars hið mikla mengunarslys sem varð í Mexíkóflóa í vikunni og lögreglurannsókn sem Goldman Sachs sætir fyrir fjársvik.

Í vikunni voru einnig birtar hagtölur í Bandaríkjunum og mældist hagvöxtur þar 3,2% á fyrsta fjórðungi sem var lítillega undir spám sem hljóðuðu upp á 3,3% hagvöxt.  Hins vegar mældist einkaneysla meiri en gert var ráð fyrir.

Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu líka mikið í vikunni en nú um helgina var tilkynnt um umfangsmikla fjárhagsaðstoð til handa Grikkjum frá evruríkjunum til viðbótar þeirri aðstoð sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði áður heitið. 

Fróðlegt verður að fylgjast með hvort þessar fréttir komi til með að minnka áhyggjur fjárfesta eða hvort fleira þurfi að koma til.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1208 -2,11% -1,17% 5,24% 8,56% 2,58% 33,74%
Þýskaland (DAX) 6136 -1,98% -2,17% 7,55% 13,95% 2,40% 27,90%
Bretland (FTSE) 5618 -2,87% -3,34% 5,71% 10,25% 2,59% 30,87%
Frakkland (CAC) 3817 -3,35% -6,47% -0,53% 5,27% -4,14% 19,41%
Bandaríkin (Dow Jones) 11009 -1,71% 0,75% 7,19% 12,66% 5,57% 34,05%
Bandaríkin (Nasdaq) 2001 -2,66% 2,10% 12,10% 19,14% 7,54% 43,25%
Bandaríkin (S&P 500) 1187 -2,49% 0,73% 8,15% 13,51% 6,42% 35,23%
Japan (Nikkei) 10925 1,31% -2,03% 6,28% 12,80% 4,84% 23,17%
Samnorræn (VINX) 92 -0,84% 0,89% 10,35% 24,39% 15,38% 46,42%
Svíþjóð (OMXS30) 1054 -0,21% 1,24% 8,23% 14,20% 10,31% 37,43%
Noregur (OBX) 348 -2,22% 0,93% 3,12% 17,03% 1,91% 52,56%
Finnland (OMXH25)  2249 -0,10% -2,15% 6,94% 21,69% 9,83% 39,81%
Danmörk (OMXC20) 412 2,70% 7,58% 16,13% 27,13% 22,40% 49,97%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 03. maí 2010)

Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,67% og endaði í 226,40 stigum samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands. Af helstu myntum þá styrktist engin þeirra gagnvart krónunni, en japanskt jen og Kanadadalur gáfu mest eftir.

Frá áramótum hefur Kanadadalur hækkað mest í verði af helstu myntum, 6,7% og Bandaríkjadalur um 3,2%. Aðrar myntir hafa gefið eftir, en þar hafa dönsk króna og evra lækkað mest í verði, um 5,5%.

Sé horft til tæknigreiningar yfir lengra tímabil er ljóst að krónan er í styrkingarfasa, en merki um viðsnúning kom fram í lok janúar. Veikingarferlið hafði staðið yfir frá því um miðjan nóvember 2007 en nú bendir flest til áframhaldandi styrkingar.

Framundan er tímabil verulegs innflæðis á gjaldeyri vegna ferðamanna, en að öllu jöfnu er innflæði vegna sölu á þjónustu mjög hagkvæmt þar sem minna þarf að erlendum aðföngum samfara þeirri sölu, en við útflutning á ýmsum vörum.   Eldgosið í Eyjafjallajökli gæti þó sett strik í reikninginn þar sem það kemur trúlega til með að draga úr ferðamannastraumi til Íslands.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 226,40 -0,67% -0,03% -1,88% -3,79% -2,09% 3,21%

(Bloomberg, 03. maí 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.