Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,42% í vikunni og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 1,23%. Löng óverðtryggð bréf lækkuðu hins vegar um 0,08%. Fjárfestar færðu sig því aðeins yfir í verðtryggt og hækkaði verðbólguálagið um 0,4 prósentustig og er nú nálægt 3,7% á bréf með 3-5 ára líftíma.

Ástæður fyrir snarpri hækkun verðtryggðra bréfa voru annars vegar þær að neysluverðsvísitalan hækkaði mun meira en fjárfestar reiknuðu með og hins vegar að viðræður um Icesave málið virtust vera að sigla í strand sem hefði í för með sér pólitíska og efnahagslega óvissu.

Sömu þættir höfðu neikvæð áhrif á óverðtryggðu bréfin þar sem há verðbólga og óvissa í Icesave draga úr líkum á verulegri lækkun stýrivaxta á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er 17. mars n.k.

Innlend hlutabréf

Lífleg viðskipti voru með bréf Marels í vikunni og hækkuðu þau um 12% í 465 milljóna króna veltu. Þess má geta að aðalfundur félagsins er næstkomandi miðvikudag kl. 15.

Heildarvelta OMXI6ISK vísitölunnar var 559 milljónir mest með bréf Marels eins og að ofan greinir en einnig voru viðskipti fyrir um 88 milljónir með bréf í Össuri.

Vísitalan hækkaði um 5,22% og má sjá hækkanir einstakra félaga í töflunni hér fyrir neðan en engin viðskipti voru með bréf Atlantic Airways og Atlantic Petroleum.

Færeyjabanki hefur sýnt ákveðinn vilja í að stækka og markað sér stefnu þar um sem hefur vakið áhuga fjárfesta en í vikunni fjárfesti Wellington Management Company í félaginu og á 6,39% hlut. Var einnig tilkynnt um innherjaviðskipti í vikunni þar sem formaður stjórnar Færeyjabanka var að bæta við sig litlum hlut.

Erfitt er að nálgast lista yfir stærstu hluthafa félagsins þar sem skv. hlutafélagalögum í Færeyjum ber þeim ekki skylda til að gera hann opinberan.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,7 -15,00% 36,00% 25,93% 13,33% -15,00% -11,46%
FO-AIR 141 0,00% 0,00% -4,08% -9,62% 0,00% -12,42%
FO-ATLA 153 0,00% -4,37% -7,83% -44,78% -4,37% -33,74%
FO-BANK 150 3,45% 13,64% 13,64% 3,81% 15,83% 50,75%
Marel 70 12,00% 16,09% 13,64% 20,48% 12,18% 37,80%
Össur 168,5 4,98% 5,31% 29,12% 36,99% 9,06% 83,55%
OMXI6ISK 879,17 5,22% 9,00% 12,90% 7,36% 7,88% 4,69%

(Nasdaq OMX Nordic, 1. mars 2010)

Erlend hlutabréf

Almenn lækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í Evrópu í síðustu viku.  Svo virðist sem áhyggjur af efnahag Grikklands sé fjárfestum ennþá ofarlega í huga. 

Hlutabréfaverð hækkaði þó almennt í Evrópu á föstudaginn þegar fréttir bárust af meiri hagvexti í Bretalandi en spár sögðu til um.  Hagvöxtur mældist 0,3% á fjórða ársfjórðungi 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir 0,1% hagvexti. 

Einnig bárust fréttir af því að stjórnvöld ríkja Evrópusambandsins væru að setja saman björgunarpakka fyrir Grikkland.

Hang Seng vísitalan í Kína hækkaði um 3,6% í síðustu viku eftir 1,85% lækkun vikuna þar á undan.  Er það mesta vikuhækkun vísitölunnar síðan í desember á síðasta ári.  Hlutabréfaverð hækkaði mikið eftir að Deutsche Bank mælti með kaupum í tveimur félögum í vísitölunni.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1124 -0,04% 0,36% -3,29% 6,26% -3,01% 50,94%
Þýskaland (DAX) 5598 -2,16% 0,64% -1,49% 6,82% -4,48% 48,05%
Bretland (FTSE) 5355 0,02% 3,00% 1,75% 12,15% -0,14% 41,12%
Frakkland (CAC) 3709 -1,61% -0,01% -0,38% 4,97% -4,44% 39,19%
Bandaríkin (Dow Jones) 10325 -0,69% 1,37% -1,40% 10,90% -0,99% 46,19%
Bandaríkin (Nasdaq) 1819 -0,23% 3,29% 1,73% 13,96% -2,24% 62,82%
Bandaríkin (S&P 500) 1104 -0,37% 1,40% -0,39% 10,67% -0,95% 50,25%
Japan (Nikkei) 10126 0,09% -0,32% 6,27% -3,40% -3,55% 34,40%
Samnorræn (VINX) 83 -0,14% 1,41% 8,13% 14,98% 5,34% 67,61%
Svíþjóð (OMXS30) 947 -1,03% -1,09% 0,35% 7,74% 0,58% 49,48%
Noregur (OBX) 318 -2,06% -2,53% -1,11% 19,56% -4,99% 68,28%
Finnland (OMXH25)  2072 0,37% 0,51% 7,46% 12,46% 2,96% 65,28%
Danmörk (OMXC20) 355 -1,11% 0,04% 7,76% 7,29% 6,50% 48,49%

(Bloomberg, 1. mars 2010)

Krónan

Krónan veiktist lítillega í síðustu viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,1% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 230,36 stigum.

Töluvert hefur verið rætt um gjalddaga skulda ríkissjóðs og orkufyrirtækja á næsta og þar næsta ári. Í september  á næsta ári er 300 milljón evra sambankalán ríkissjóðs á gjalddaga og í apríl 2012 er 250 milljón evra lán á gjalddaga.

Verði þessi bréf greidd mun það ganga nærri gjaldeyris varasjóði Seðlabanka Íslands, fáist ekki ný erlend fjármögnun, t.d. í tengslum við áætlun Íslands og AGS. Hins vegar má ljóst vera að Ísland mun reyna að semja um endurfjármögnun þessara skulda, og nær ljóst að engin myndi hugleiða að greiða þær og þannig nær þurrausa gjaldeyrisvaraforðann.

Má því segja að alið hafi verið á hræðsluáróðri í sambandi við áðurnefnda gjalddaga, en þó skal tekið fram að hér er ekki gert lítið úr alvöru málsins. Eigendur áðurnefndra skuldabréfa munu vilja fá fé sitt til baka og því líklegra en ella að vilji þeirra standi til þess að vinna með ríkissjóði Íslands til þess að hann fái staðið undir  skuldbindingum sínum.

Til viðbótar má nefna að margir aðrir aðilar munu þurfa að endurfjármagna erlendar skuldbindingar sínar, eins og t.d. Landsvirkjun sem skuldar um 2,6 ma. dala, þar af 282 milljónir dala á gjalddaga 2011 og um 200 milljónir dala á gjalddaga 2012. Staða aðila er þó misjöfn, en sjóðstreymi ýmissa fyrirtækja er ágætt í erlendri mynt og einnig gæti verið möguleiki að setja fram tryggingar.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 230,36 0,09% -1,29% -1,64% -0,67% -1,05% 21,81%
(Bloomberg, 1. mars 2010)
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.