Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,62% í vikunni og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,76%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 0,93%. Ríkistryggð skuldabréf hækkuðu því almennt í verði í vikunni. Verðhækkun bréfanna má rekja til þess að fjárfestar reikna með töluverðri lækkun stýrivaxta á næstu vaxtaákvörðunardögum.

Verðbólguálagið hefur farið lækkandi á árinu og er nú nálægt 3,3% á bréf með 3-5 ára líftíma sem er frekar lágt miðað við meðal verðbólgu síðustu ára.

Ástæðan fyrir þessu er sú að það eru töluverðar líkur á að verðlag verði stöðugt í ár þar sem fasteignaverð er á niðurleið og jafnframt eru töluverðar líkur á að krónan styrkist eitthvað á árinu en þessir tveir þættir ráða miklu um þróun neysluverðsvísitölunnar.

Gangi þetta eftir má reikna með því að verðbólguálagið verði áfram lágt og fari lækkandi þegar líða tekur á árið.

Á föstudaginn var ríkisbréfaútboð hjá Lánasýslu ríkisins. Í boði voru bréf í RB11 og RB25 og var tekið tilboðum í RB11 fyrir 8,7 milljarða að nafnverði og 1,5 milljarða í RB25. Niðurstaða útboðsins virtist fara vel í markaðsaðila því í kjölfarið var gengið á söluboð óverðtryggðra bréfa.  

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK lækkaði lítillega í síðustu viku í ríflega 204 milljón króna veltu.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir 129 milljónir króna og hækkuðu bréf félagsins um 2,5% í vikunni.

Mest hækkuðu bréf Bakkavarar um 60% í 5 viðskiptum hins vegar lækkuðu bréf Atlantic Petroleum mest í vikunni sem leið um 3,8%. Næst mesta lækkun var hjá Össuri og stóð gengi félagsins í 160,5 í vikulok en það hefur verið á bilinu 158-164,5 síðastliðinn mánuð.  

Össur er það félag í vísitölunni sem hefur hækkað lang mest á síðustu 12 mánuðum og nemur sú hækkun ríflega 71%. Á First North markaðinum hækkuðu bréf Century Aluminum um 13,95% í síðustu viku.  Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 363% á síðustu 12 mánuðum og er það í takt við mikla hækkun álverðs á sama tíma.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 2 60,00% 48,15% 33,33% 94,17% 0,00% 5,26%
FO-AIR 141 0,00% 0,00% -0,70% -9,62% 0,00% -12,42%
FO-ATLA 153 -3,77% -4,37% -7,83% -44,78% -4,37% -45,43%
FO-BANK 145 -0,68% 9,02% 8,21% 17,89% 11,97% 43,56%
Marel 62,5 2,46% 0,16% -8,76% 5,57% 0,16% 25,25%
Össur 160,5 -1,83% 0,94% 18,45% 31,56% 3,88% 71,11%
OMXI6ISK 835,53 -0,47% 1,90% 3,92% 6,40% 2,52% -0,64%

(Nasdaq OMX Nordic, 23. feb. 2010)

Erlend hlutabréf

Mikil hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í Evrópu í síðustu viku.  Þannig hækkaði FTSE vísitalan í London um 4,3%, Dax vísitalan í Þýskalandi um 4% og CAC vísitalan í Frakklandi  um 4,7%.   

Helstu ástæður þessara hækkana eru að fjárfestar hafa nú meiri trú en áður á að grísku ríkisstjórninni takist að hafa taumhald á fjárlagahalla landsins auk þess sem menn treysta á eftirlit og aðstoð Evrópusambandsins.

Breski bankinn Barclays birti gott uppgjör fyrir árið 2009 og nam hagnaður fyrir skatta 11,64 milljörðum punda sem er 92% hækkun frá árinu áður.  Árið 2008 nam hagnaðurinn 6,07 milljörðum punda fyrir skatta.

Hlutabréfavísitölur  í Bandaríkjunum hækkuðu töluvert í síðustu viku eða um 3%.  Er það mesta vikuhækkun hlutabréfa í Bandaríkjunum á þessu ári.  Sambland af góðum hagtölum og afkomu fyrirtækja hefur aukið trú fjárfesta á að bata sé að vænta í bandarísku efnahagslífi.

Þrátt fyrir miklar hækkanir í Evrópu og Bandaríkjunum lækkaði Hang Seng vísitalan í Kína um 1,85% í síðustu viku eftir að stjórnvöld ákváðu að hækka bindiskyldu banka.  Bindiskyldan er hækkuð til að reyna að draga úr útlánum banka og þannig kæla hagkerfið niður.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1139 2,51% -1,34% -0,98% 4,99% -2,91% 46,79%
Þýskaland (DAX) 5722 4,03% 0,43% 1,00% 4,70% -3,99% 42,47%
Bretland (FTSE) 5358 4,35% 1,06% 2,05% 10,48% -0,99% 37,80%
Frakkland (CAC) 3770 4,76% -1,47% 0,94% 4,11% -4,37% 36,86%
Bandaríkin (Dow Jones) 10402 3,12% 2,25% 0,82% 9,43% -0,25% 41,23%
Bandaríkin (Nasdaq) 1823 2,54% 1,59% 3,34% 11,33% -1,99% 55,48%
Bandaríkin (S&P 500) 1109 3,19% 1,59% 1,63% 8,09% -0,53% 44,04%
Japan (Nikkei) 10124 0,32% -1,79% 9,51% 1,58% -1,38% 40,24%
Samnorræn (VINX) 83 3,48% 3,48% 7,17% 11,57% 4,44% 61,33%
Svíþjóð (OMXS30) 957 2,78% 0,22% 0,16% 4,30% 0,15% 49,83%
Noregur (OBX) 324 4,28% 0,04% 2,29% 16,95% -4,09% 72,59%
Finnland (OMXH25)  2064 3,76% 1,74% 5,95% 10,63% 1,87% 56,32%
Danmörk (OMXC20) 359 2,58% 3,92% 8,39% 9,17% 7,06% 42,50%

 (Bloomberg, 23. feb. 2010)

Krónan

Krónan styrktist í síðustu viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,66% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 230,15 stigum. Þróun einstakra gjaldmiðla var mjög misjöfn; dollar lækkaði um 0,19% í verði gagnavart krónu, evra 0,66% og pund 1,67%. 

Japanskt jen gaf hins vegar verulega eftir og lækkaði um 2,36% í verði gagnvart krónu. Af helstu gjaldmiðlum var það einungis kanada dalur og sænsk króna sem hækkuðu í verði gagnvart íslensku krónunni.

Frá áramótum hefur gengisvísitalan lækkað um 1,14% og krónan því styrkst sem því nemur. Frá því hún var hvað veikust, um miðjan nóvember, er styrkingin nálægt 4%. Sé litið til tæknigreiningar er krónan í styrkingarfasa. Það sem vekur sérstaka athygli er að 100 daga hlaupandi meðaltal er orðið niðurhallandi. Slíkt staða hefur ekki verið uppi síðan um mitt ár 2007 eða töluvert fyrir hrun.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 230,15 -0,66% -1,72% -1,74% -3,27% -1,14% 21,94%
(Bloomberg, 23. feb. 2010)
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.