Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,11% í vikunni og millilöng verðtryggð bréf lækkuðu um 0,09%. Löng óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,3%. Það var því lítil nettó verðbreyting í vikunni.

Töluverðar verðbreytingar urðu hins vegar innan vikunnar. Verðtryggð bréf hækkuðu fyrri hluta vikunnar en lækkuðu í lok hennar. Þar hafði áhrif að íbúðalánasjóður reiknar með að gefa út um 8 milljarða umfram það sem áætlanir ársins hljóðuðu upp á.

Það var mikill söluþrýstingur á óverðtryggð bréf í vikunni en kauphliðin var mjög sterk svo verðbreytingin varð lítil. Það sem mælir með kaupum er annars vegar að það er margt sem bendir til þess að verðbólga ársins verði lítil og þá sérstaklega seinni hluta ársins og hins vegar má búast við að stýrivextir verði komnir vel niður í árslok.

Það sem mælir gegn óverðtryggðum bréfum nú er annars vegar töluverð verðbólga í mars og það má búast við að það verði áfram verðbólguskrið í apríl. Hins vegar er ljóst að nú ríkir töluverð óvissa með Icesave málið þar sem pólitískur óróleiki hefur aukist í kjölfar atkvæðagreiðslunnar á laugardaginn en seinkun á lausn Icesave deilunnar hægir á stýrivaxtarlækkunarferlinu.

 

Innlend hlutabréf

Meðalvelta á dag í febrúar með hlutabréf var í kringum 89 milljónir, í síðustu viku nam meðalvelta ríflega 68 milljónum.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir nálægt 228 m.kr.

Aðeins eitt félag í OMXI6ISK hækkaði í síðustu viku, Færeyja banki hækkaði um 2% í veltu upp á 3,5 m.kr.  Vísitalan stóð nánast í stað á milli vikna.

Mest lækkuðu bréf í Bakkavör um 5,88%.  Kröfuhafar Bakkavarar samþykktu í síðustu viku nauðasamning félagsins með 90% atkvæða.  Við þetta verður öllum gjalddögum lána félagsins frestað til 2014 og hluti lána verður breytt í hlutafé á genginu 1. 

Þá fá Bakkavararbræður, þeir Lýður og Ágúst, möguleika á að eignast um 25% í félaginu ef rekstraráform ganga eftir.  Gengið er út frá því að um engar afskriftir verði að ræða á þeim 63,9 milljörðum króna sem Bakkavör skuldar. 

Í lok mars verður svo hluthafafundur þar sem kynntir verða nauðasamningarnir og meðal annars lagt til að félaginu verði breytt í einkahlutafélag og afskráð af markaði á meðan endurskipulagning stendur yfir.

Eyrir Invest sem er næst stærsti hluthafi Össurar seldi 3,7% hlut í félaginu á markaði í Kaupmannahöfn, er hlutur Eyris þá kominn niður í 15,1%.  Eyrir er áfram annar stærsti hlutafi í Össuri eftir söluna.

Á First North markaðinum hækkuðu bréf í Century Aluminum um 16,1% í síðustu viku í veltu upp á ríflega 10 m.kr.  Gengi félagsins stóð í 1.719 en á síðustu 12 mánuðum hefur það lægst farið í 135,5 og hæst í 2.088.  Á þessu tímabili hefur álverð hækkað nokkuð mikið.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,6 -5,88% 6,67% -5,88% -8,57% -20,00% -13,04%
FO-AIR 133 -5,67% -5,67% -9,52% -5,00% -5,67% -22,22%
FO-ATLA 153 0,00% -4,37% -7,83% -36,64% -4,37% -1,31%
FO-BANK 153 2,00% 12,09% 15,91% 8,90% 18,15% 53,00%
Marel 70 0,00% 20,69% 13,27% 16,86% 12,18% 29,63%
Össur 167,5 -0,59% 5,35% 23,16% 26,42% 8,41% 96,83%
OMXI6ISK 876,59 -0,29% 7,58% 11,07% 5,48% 7,56% 8,56%
(Nasdaq OMX Nordic, 8. mars 2010)
Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  Fréttir af atvinnuleysistölum í Bandaríkjunum í febrúar fóru vel í fjárfesta.  Almennt var gert ráð fyrir 9,8% atvinnuleysi en raunin varð, óbreytt atvinnuleysi frá janúar, 9,7%.

Í síðustu viku hækkuðu norrænir hlutabréfamarkaðir mikið og sem dæmi hækkaði danska hlutabréfavísitalan OMXC20 um 4,65 % og sú norska OBX um 5,72%.  Frá áramótum hefur danska vísitalan hækkað mest norrænna vísitalna um 10,13%. 

Birtar voru atvinnuleysistölur í Danmörku í vikunni og reyndust þær lægri en spár sögðu til um.  Atvinnuleysi mældist 4,2% en almennt var gert ráð fyrir 4,5% atvinnuleysi. 

Þá birti norski olíusjóðurinn uppgjör sitt fyrir síðasta ár sem reyndist það besta frá upphafi.  Hagnaður sjóðsins árið 2009 nam 613 milljörðum norskra króna í stað 633 milljarða taps árið 2008.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1156 3,36% 7,12% 1,66% 6,55% 0,17% 67,81%
Þýskaland (DAX) 5877 4,98% 7,32% 3,48% 7,38% -1,19% 60,55%
Bretland (FTSE) 5600 4,68% 10,15% 7,39% 13,38% 3,62% 58,86%
Frakkland (CAC) 3910 5,44% 8,53% 3,43% 6,94% -0,54% 54,47%
Bandaríkin (Dow Jones) 10566 2,33% 6,64% 2,72% 11,25% 1,32% 59,44%
Bandaríkin (Nasdaq) 1889 3,85% 8,86% 6,53% 14,13% 1,52% 77,38%
Bandaríkin (S&P 500) 1139 3,12% 7,76% 4,28% 11,05% 2,12% 66,63%
Japan (Nikkei) 10369 2,40% 6,37% 4,39% 1,85% 0,37% 47,58%
Samnorræn (VINX) 88 5,23% 9,72% 12,86% 16,14% 9,68% 89,28%
Svíþjóð (OMXS30) 998 5,35% 6,46% 4,78% 10,31% 4,97% 64,47%
Noregur (OBX) 336 5,72% 7,06% 2,64% 21,31% -0,49% 87,98%
Finnland (OMXH25)  2171 5,39% 9,90% 12,42% 13,23% 7,22% 82,83%
Danmörk (OMXC20) 371 4,65% 7,35% 11,22% 11,46% 10,13% 74,00%

(Bloomberg, 8. mars 2010)


Krónan

Krónan veiktist lítillega í síðustu viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,42% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 229,39 stigum. Hægfara styrking krónunnar heldur því áfram og hefur gengisvísistalan lækkað um 1,47% frá áramótum. Verðbreyting helstu gjaldmiðla er æði misjöfn.

Evra hefur lækkað um 3,3% í verði og pund um 4,55%. Hins vegar hefur Bandaríkjadalur hækkað um 2,47%, Kanadadalur um 4,22% og japanskt jen um 6,04%.

Skuldatryggingaálag  á ríkissjóð Íslands til fimm ára hefur lækkað verulega undanfarnar vikur og stendur nú í 450 punktum. Líklegt er að væntingar um lausn Icesave hafi hér áhrif.

Einnig skiptir máli sá viðsnúningur sem átt hefur sér stað í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar. Afgangur af viðskiptum við útlönd á fjórða ársfjórðungi á síðasta ári var 10,2 ma. króna ef áhrifum föllnu bankanna er sleppt. Áðurnefndur afgangur af viðskiptum við útlönd virðist vera að festa sig í sessi a.m.k. til skemmri tíma.

Líkur eru til þess að afgangurinn aukist fremur en hitt, en ríkulegur afgangur mun leiða til aukins hagvaxtar og auka trú fjárfesta og lánadrottna á því að ríkissjóður Íslands geti staðið við erlendar skuldbindingar sínar. Slíkt er ein megin forsenda þess að krónan geti styrkst.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 229,39 -0,42% -1,24% -2,80% -1,42% -1,47% 23,73%
(Bloomberg, 8. mars 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.