Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,14% í vikunni og stutt verðtryggð bréf hækkuðu um 0,14%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu um 1,1%.

Fjárfestar virðast því halda sig við löng óverðtryggð bréf þrátt fyrir að samningaviðræður vegna Icesave virðast vera komnar í strand. Ennfremur hefur bankastjóri SÍ komið fram með þá skoðun að afnám gjaldeyrishafta gangi fyrir lækkun stýrivaxta.

Næsti vaxtaákvörðunardagur er á miðvikudaginn og teljum við líklegt að stýrivextir verði lækkaðir um 25-50 punkta. Óvissa um Icesave og há verðbólga gefa ekki tilefni til meiri lækkunar núna.

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 3,66% í síðustu viku og var heildarveltan 267 milljónir. Frekar lítil velta var með bréf Marels í vikunni, eftir lífleg viðskipti síðastliðinn mánuð, og námu þau einungis 9 milljónum.

Mest velta var með bréf Össurar fyrir 170 milljónir og hefur verið fín hækkun á bréfunum undanfarið og nemur 12 mánaða hækkun nú 137%.

Aðalfundur Össurar var haldinn 9. mars og var samþykkt að greiða ekki út arð vegna ársins 2009 heldur flytja hagnað til næsta árs. Í vikunni kom einnig fram að meirihluti hlutafjár, yfir 55%, er nú í eigu erlendra fjárfesta.

Viðskipti voru með bréf Atlantic Petroleum á föstudaginn á genginu 165 sem þýðir hækkun um 7,84% en viðskiptin eru mjög stopul. Aðalfundur félagsins verður þann 20. mars næstkomandi.

Mikil lækkun var á bréfum Bakkavarar en nú styttist væntanlega í afskráningu félagsins úr Kauphöll, hluthafafundur verður haldinn þann 26. mars þar sem að tillaga um afskráningu verður lögð fyrir.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,35 -15,63% 8,00% -22,86% -15,63% -32,50% -6,25%
FO-AIR 133 0,00% -5,67% -9,52% -5,00% -5,67% -22,22%
FO-ATLA 165 7,84% 3,77% -0,60% -31,67% 3,13% 6,43%
FO-BANK 158 3,27% 8,22% 21,54% 14,08% 22,01% 51,92%
Marel 70,9 1,29% 16,23% 12,54% 22,03% 13,62% 43,81%
Össur 178,5 6,57% 9,17% 27,50% 49,37% 15,53% 137,05%
OMXI6ISK 908,67 3,66% 8,25% 14,13% 14,01% 11,50% 59,12%

(Nasdaq OMX Nordic, 15. mars 2010)

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hafa hækkað frá 47 til 65% síðustu 12 mánuði.  Svo mikil hækkun á 12 mánaða tímabili er sjaldséð. 

Nú eru 10 ár síðan netbólan svokallaða í Bandaríkjunum sprakk en þá stóð Nasdaq hlutabréfavísitalan í sínu hæsta gildi 5.048,62 stigum.  Á föstudaginn lokaði vísitalan í 2.367,66 stigum og er hún því ennþá 53% lægri en hún var fyrir 10 árum síðan.

Frá Evrópu var það helst að frétta að hagvöxtur mældist 0,4% í Frakklandi á fyrsta fjórðungi þessa árs og var hann heldur lægri en spár gerðu ráð fyrir.  Þrátt fyrir það hækkaði CAC hlutabréfavísitalan í Frakklandi um 0,43% í vikunni.

Fyrrum formaður Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Romano Prodi, lét hafa eftir sér í viðtali við fréttastofu Bloomberg að Grikkir væru komnir yfir það versta í fjármálakreppunni og að aðrar Evrópuþjóðir ættu ekki eftir að feta í þeirra spor.

Nikkei hlutabréfavísitalan í Japan hækkaði um 3,69% í síðustu viku.  Það er mesta vikuhækkun vísitölunnar í meira en þrjá mánuði eða frá 8. janúar á þessu ári.  Ástæða hækkunarinnar er talin vera væntingar fjárfesta um frekari slökun á peningamálastefnu Seðlabankans á næstunni.  

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1183 1,51% 7,22% 2,55% 6,02% 1,62% 56,97%
Þýskaland (DAX) 5945 1,15% 7,72% 2,16% 5,47% -0,35% 50,16%
Bretland (FTSE) 5626 0,63% 8,62% 6,19% 11,32% 3,70% 49,54%
Frakkland (CAC) 3927 0,43% 8,58% 2,21% 4,44% -0,44% 44,84%
Bandaríkin (Dow Jones) 10625 0,68% 5,20% 1,65% 9,72% 1,89% 47,08%
Bandaríkin (Nasdaq) 2368 1,81% 8,43% 7,57% 12,60% 4,34% 65,40%
Bandaríkin (S&P 500) 1150 1,06% 6,93% 3,80% 9,25% 3,13% 52,00%
Japan (Nikkei) 10751 3,69% 7,38% 6,63% 5,23% 1,95% 42,05%
Samnorræn (VINX) 89 1,68% 10,37% 13,65% 15,96% 11,02% 72,95%
Svíþjóð (OMXS30) 1018 2,01% 10,02% 7,04% 11,26% 6,74% 54,08%
Noregur (OBX) 337 0,42% 9,06% 0,15% 16,61% -0,92% 77,13%
Finnland (OMXH25)  2238 3,18% 11,99% 13,68% 13,92% 9,59% 72,87%
Danmörk (OMXC20) 372 0,33% 6,09% 12,20% 12,18% 10,48% 65,96%

(Bloomberg,15. mars 2010)

Krónan

Krónan styrktist í liðinni viku og lækkaði gengisvísitalan um 0,80% skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði í 227,55 stigum. Hefur krónan ekki verið sterkari síðan í byrjun júní í fyrra.

Frá áramótum hefur gengisvísitalan lækkað um 2,26% og hefur krónan styrkst sem því nemur. Þetta hefur gerst þrátt fyrir pattstöðu í Icesave málinu og neikvæð skilaboð frá mörgum aðilum um að ef málið leysist ekki hratt þá hafi það mjög slæm áhrif á hagkerfið og aukin söluþrýsting á krónuna. 

Málið er hins vegar það að hrakspár um að allt færi á versta veg ef lausn Icesave tefðist hafa ekki gengið eftir. Þvert á móti hefur umræðan snúist okkur í vil og aukins skilnings gætt á því að lausn málsins þurfi að vera sanngjörn fyrir íslendinga.

Það er líka ljóst að gjaldeyrishöftin virka betur en áður og því skilar jákvæður vöruskipta- og þjónustujöfnuður sér í styrkingu krónunnar.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 229,39 -0,80% -1,97% -3,99% -2,74% -2,26% 16,94%

(Bloomberg, 15. mars 2010)
Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.