Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,39% í vikunni og stutt verðtryggð bréf lækkuðu um 0,20%. Löng óverðtryggð bréf hækkuðu mikið, um 1,18%.

Ávöxtunarkrafa  ríkisbréfa (óverðtryggt) hefur haldið áfram að lækka, en krafa íbúðabréfa (verðtryggt) hefur hækkað og er í kringum 3,8% á öllum flokkum en um 3,4% á stysta flokknum. Verðbólguálagið er komið mjög neðarlega sé horft til sögulegrar verðbólgu á Íslandi.

Álagið til 6 ára er um 2,9%, en árleg hækkun vísitölu neysluverðs síðustu 6 ár er um 7,8% og 6,3% síðustu 10 ár. Verðbólguhraðinn í dag er um 7% sé horft til 3 mánaða breytingar á verðlagi.

Erfitt er að sjá fyrir sér árlega verðbólgu undir 3% næstu 5-10 árin miðað við óbreytta skipan í peninga- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Einnig er ólíklegt að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækki niður fyrir 3,6 til 3,7%, en lífeyrissjóðir reikna sínar skuldbindingar miðað við 3,5% raunávöxtunarkröfu.

Margt bendir til þess að spákaupmennska valdi því að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa er komin jafn neðarlega og raun ber vitni. Svipað ástand myndaðist síðla árs 2002 en þá fór verðbólguálagið til 5 ára í um 1,8%.

 

Innlend hlutabréf

Það voru aðeins þrír viðskiptadagar í vikunni fyrir páska á OMXI6ISK og vísitalan lækkaði um 1,4% í veltu upp á 79 milljónir króna.

Ekkert félag í vísitölunni hækkaði en 4 félög stóðu í stað og 2 lækkuðu.  Mest lækkaði Össur um 1,57% í veltu upp á 55,5 milljónir króna, þá lækkaði Marel um 1,26% í veltu upp á 19,5 milljónir króna.

Bakkavör tapaði 2,4 milljörðum króna árið 2009 en tapið nam 31,1 milljarði króna 2008.  Félagið hefur verið endurfjármagnað að fullu í kjölfar þess að nauðasamningar voru samþykktir og í framhaldi voru gjalddagar lána framlengdir til 2014 ásamt útgáfu nýrra hlutaflokka. 

Þá hefur Kauphöll Íslands samþykkt ósk félagsins um að hlutabréf Bakkavarar verði tekin úr viðskiptum ogverður síðasti viðskiptadagur föstudaginn 16.apríl.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Bakkavör 1,5 0,00% -6,25% -25,00% 2,74% -25,00% 19,05%
FO-AIR 132 0,00% -0,75% -6,38% -10,20% -6,38% -22,81%
FO-ATLA 163 0,00% 4,25% -0,31% -55,07% -0,31% -3,68%
FO-BANK 170 0,00% 4,58% 24,03% 15,52% 23,55% 26,98%
Marel 78,5 -1,26% 12,14% 25,80% 19,12% 25,80% 85,58%
Össur 187,5 -1,57% 11,94% 22,15% 53,69% 21,36% 104,69%
OMXI6ISK 958,64 -1,40% 7,83% 16,50% 17,73% 15,98% 49,01%

 (Nasdaq OMX Nordic, 6. apríl 2010)

Erlend hlutabréf

Helstu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og Kína héldu áfram að hækka í síðustu viku.  Hækkunin kom meðal annars í kjölfar frétta af framleiðsluaukningu á áðurnefndum svæðum. Undanfarnar 8 vikur eða frá því í byrjun febrúar hafa hlutabréfamarkaðir um heim allan hækkað jafnt og þétt. 

Í mars mældist atvinnuleysi 9,7% í Bandaríkjunum, þriðja mánuðinn í röð.  Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að 162 þúsund ný störf sköpuðust í mánuðinum sem er mesta fjölgun í þrjú ár.

Nikkei hlutabréfavísitalan í Japan og Hang Seng vísitalan í Kína hækkuðu báðar um rúm 2% í vikunni.  Hafa menn séð  bata í efnahagi Japans að undanförnu og þakka það meðal annars mikilli eftirspurn frá Kína á ýmsum varningi.  En eins og kunnugt er hefur verið mikill hagvöxtur í Kína undanfarin ár.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1213 1,43% 4,01% 2,00% 8,54% 4,18% 43,46%
Þýskaland (DAX) 6236 1,67% 8,25% 4,96% 14,36% 4,96% 42,70%
Bretland (FTSE) 5745 0,31% 5,33% 6,72% 15,79% 6,72% 40,04%
Frakkland (CAC) 4034 0,84% 6,36% 2,99% 11,08% 2,99% 35,50%
Bandaríkin (Dow Jones) 10974 0,73% 3,86% 3,78% 12,77% 5,23% 37,58%
Bandaríkin (Nasdaq) 1978 0,86% 4,73% 5,29% 15,98% 6,32% 50,62%
Bandaríkin (S&P 500) 1187 1,23% 4,28% 4,42% 12,58% 6,49% 42,13%
Japan (Nikkei) 11339 3,21% 8,81% 5,13% 16,41% 6,98% 27,37%
Samnorræn (VINX) 91 0,30% 8,85% 16,00% 27,04% 16,00% 63,13%
Svíþjóð (OMXS30) 1037 0,78% 7,56% 9,82% 20,43% 9,82% 46,42%
Noregur (OBX) 343 0,72% 6,94% 2,94% 21,02% 2,94% 70,39%
Finnland (OMXH25)  2282 1,18% 8,61% 13,40% 25,11% 13,40% 68,60%
Danmörk (OMXC20) 383 -0,25% 7,72% 15,77% 17,45% 15,77% 63,98%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 6. apríl 2010)

Krónan

Krónan styrktist í síðustu viku um 0,19% og endaði samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans í 228,19 stigum.   Flestir gjaldmiðlar lækkuðu gagnvart íslensku krónunni. 

Mest lækkaði japanska jenið (2,45%).  Bandaríkjadollar lækkaði um 0,93% og evran lækkaði um 0,64%.   Hins vegar hækkaði breska pundið um 1,05% og kanadadalur hækkaði um 1,62%. 

Frá áramótum hefur kanadadalur hækkað einna mest gagnvart íslensku krónunni, um 7,57%, næst mest hefur ástralíudalur hækkað en hann hefur hækkað um 5,42%. 

Báðir þessir gjaldmiðlar fylgja vel verði hrávara og hækka yfirleitt þegar þær hækka í verði.  Mesta lækkun hefur verið á gengi evrunnar en hún hefur lækkað um 4,48% frá áramótum en næstmest lækkun hefur verið á breska pundinu sem hefur lækkað um 3,65%.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 228,19 -0,19% -0,48% -2,61% -2,85% -1,80% 7,35%

(Bloomberg, 6. apríl 2010)

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.