Árið 2011 og horfur 2012

Íslensk verðbréf hafa tekið saman upplýsingar um verðbréfamarkaði ársins 2011 og horfur fyrir árið 2012.


Í tengslum við útsendingu áramótayfirlita hafa Íslensk verðbréf tekið saman upplýsingar um það helsta sem gerðist á verðbréfamörkuðum árið 2011 og eins horfur fyrir 2012.

 

Innlendir markaðir

Árið 2011 var þokkalegt ár í íslensku efnahagslífi en sæmilegur gangur var á því eftir kreppu undangenginna ára.  Seðlabanki Íslands áætlar að landsframleiðsla hafi aukist um 3,0% á árinu.  Áætlað er að einkaneysla hafi aukist um 4,5% að raungildi og fjárfestingar hafi aukist um 7,1%.  Rekstur ríkisins dróst saman enda minnkaði samneysla um 0,1%. 

Útflutningur jókst um 3,3% en innflutningur jókst meira eða um 6,3%.  Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var því neikvætt.  Viðskiptajöfnuður var áætlaður neikvæður um 5,9% af landsframleiðu en mikill afgangur var af vöru- og þjónustujöfnuði en á móti var mikill halli af þáttatekjujöfnuði.  Hinn svokallaði undirliggjandi viðskiptajöfnuður, en í honum eru ógreiddir áfallnir vextir vegna banka í slitameðferð dregnir frá, var mun hagstæðari.  Seðlabankinn áætlar að hann hafi verið jákvæður um 0,4% af landsframleiðslu á árinu 2011.

Horfur eru á hóflegum hagvexti íslenska hagkerfisins á árinu 2012 en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hann verði 2,5% og að hagvöxturinn verði knúinn áfram af einkaneyslu sem vaxi um 2,2% og fjárfestingum sem aukist um 17,5%.

Mikið atvinnuleysi var á Íslandi á árinu 2011 en meðalatvinnuleysi ársins var 7,4%.  Þetta er heldur betra en árið áður en þá var það 8,1%.  Atvinnuleysi náði hámarki í febrúar og mars þegar það var 8,6% en lækkaði síðan hratt í takt við árstíðasveiflu.  Það fór lægst í september en var þá 6,6% og var komið í 7,3% í árslok.  Horfur eru á að heldur dragi úr atvinnuleysi í ár en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að meðalatvinnuleysi ársins 2012 verði 6,3%.

 

Gengi krónunnar

Gengi íslensku krónunnar veiktist nokkuð á árinu 2011.  Í ársbyrjun var gengisvísitalan 208,0 stig en í árslok var hún 217,3.  Gengisvísitalan hækkaði því um 4,5% á árinu en það samsvarar 4,3% veikingu.  Krónan veiktist stöðugt fyrri hluta ársins og var veikust í júlí þegar gengisvísitalan náði 222,5 stigum.  Síðan styrktist krónan nokkuð og var í árslok 217,3 stig.  Krónan var í raun mjög stöðug sem sést á því að flökt gengisvísitölunnar var einungis 2,9% að meðaltali á árinu.  Fara þarf langt aftur til að finna svo lágt flökt á gengi íslensku krónunnar.


Ólíklegt er að miklar breytingar verði á gengi íslensku krónunnar meðan enn eru við lýði ströng gjaldeyrishöft.  Gengi hennar virðist hafa náð ákveðnu jafnvægi þannig að afgangur af vöruskiptum og þjónustu dugir fyrir halla á þáttatekjum.    Ekki eru líkur á að veruleg slökun verði á höftunum í ár og því má gera ráð fyrir litlum breytingum á gengi krónunnar árið 2012.

 

Verðbólga

Nokkur verðbólga var á árinu 2011.  Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,2% og var um tvöfalt meiri hækkun á henni en árið áður.  Veiking krónunnar, verðhækkanir á hrávöru og launahækkanir stuðluðu m.a. að aukinni verðbólgu.  Búast má við svipaðri verðbólgu í ár.  Verulegur þrýstingur er á verðhækkanir vegna launahækkana.  Auk þess dregur heldur úr slaka í hagkerfinu sem leiðir til verðlagshækkana.  Á móti vegur að ekki er búist við lækkun á gengi krónunnar eins og var árið áður enda ólíklegt að stigin verði stór skref í afnámi gjaldeyrishafta.

 

Stýrivextir

Á árinu 2011 lauk vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands sem hófst í mars 2009.  Seinasta vaxtalækkunin var í febrúar 2011 en þá voru stýrivextir lækkaðir í 4,25%.  Seðlabankinn hækkaði síðan vexti tvisvar á árinu og voru stýrivextir 4,75% í árslok.  Búast má við að áframhald verði á vaxtahækkunum, en þó í smáum skrefum, samhliða bata í efnahagslífi og því að einhver smávægileg skref verði stigin í afnámi gjaldeyrishafta.



 

Hlutabréf

Smávægileg lækkun var á íslenskum hlutabréfamarkaði á árinu 2011 en úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 2,6% á árinu.  Velta með íslensk hlutabréf var lítil og nam einungis 58,6 ma. kr. á árinu.  Þetta er engu að síður mikil aukning frá árinu áður en þá var veltan 25 ma. kr.  Markaðurinn er nú samt enn í mýflugumynd en til samanburðar var velta með hlutabréf í íslensku kauphöllinni 3.096 ma. kr. árið 2007.

Sá mikilvægi atburður gerðist á íslenskum hlutabréfamarkaði að fyrsta nýskráning hlutabréfa frá árinu 2008 átti sér stað þegar viðskipti með hlutabréf Haga hófust í íslensku kauphöllinni.  Von er á fleiri fyrirtækjum á markaðinn á þessu ári og að hann fari úr þeirri deyfð sem hefur einkennt hann síðustu ár.  Horfur eru á góðri ávöxtun á íslenskum hlutabréfum í ár.  Verðlagning félaganna er sanngjörn og kaupkraftur er mikill ef hann er settur í samhengi við litla stærð hlutabréfamarkaðsins.

 

Skuldabréf

Markaður með íslensk ríkisskuldabréf var líflegur á árinu.  Velta með ríkistryggð skuldabréf nam 2.585 ma. kr. sem er 8,1% minni velta en árið áður.  Mest velta var með ríkisbréf 1.865 ma. kr. og íbúðabréf en viðskipti með þau voru 685 ma. kr.  Velta í Kauphöllinni á ríkisvíxlum var 37 ma. kr.  Lítil velta var með aðra flokka ríkisskuldabréfa.



Fjórða árið í röð skiluðu íslensk ríkisskuldabréf góðri ávöxtun.  Almennt skiluðu verðtryggð skuldabréf mun betri ávöxtun en óverðtryggð öfugt við árið áður.  Best var ávöxtun meðallangra verðtryggðra skuldabréfa en vísitala þeirra (5 ára verðtryggð vísitala) hækkaði um 19,0%.  Löng verðtryggð skuldabréf (10 ára verðtryggð vísitala) hækkaði um 17,0%.  Lökust var hins vegar ávöxtun langra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa en vísitala þeirra (10 ára óverðtryggð vísitala) hækkaði einungis um 1,2%.

Í raun má segja að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hafi lækkað jafnt og þétt allt árið.  Lágir vextir, hækkandi verðbólguvæntingar, mikill kaupkraftur sem tilkominn er vegna gjaldeyrishafta og lítið framboð af öðrum fjárfestingakostum leiddi til mikillar eftirspurnar eftir verðtryggðum ríkisskuldabréfum.  Í upphafi árs var ávöxtunarkrafa lengstu flokka íbúðabréfa 3,33% en í árslok var hún komin niður í 2,73%.  Öfugt við íbúðabréfin hækkaði ávöxtunarkrafa flestra flokka ríkisbréfa á árinu.  Ástæður þess eru aukin verðbólga og vaxandi vantrú á að Seðlabanka Íslands takist helsta ætlunarverk sitt, þ.e. að hafa verðbólgu á Íslandi hóflega.

Erfiðara er nú en oft áður að spá fyrir um ávöxtun á íslenskum ríkisskuldabréfum.  Ávöxtunarkrafa þeirra er lág og lægri en íslenskir lífeyrissjóðir sætta sig við.  Sú staðreynd ætti við eðlilegar kringumstæður að valda verðlækkun bréfanna.   Hins vegar leiða gjaldeyrishöft og lítið val annarra fjárfestingakosta til eftirspurnar eftir ríkisskuldabréfum.  Því er óvenju mikil óvissa um þróun á íslenskum skuldabréfamarkaði.

Nær enginn markaður var með íslensk fyrirtækja- og bankaskuldabréf árið 2011 – þriðja árið í röð.  Viðskipti með þennan flokk voru einungis 6 ma. kr. Einnig voru lítil viðskipti með skuldabréf sveitarfélaga en þau námu einungis 10 ma. kr. á árinu.

 

Erlendir markaðir

Misjafn gangur var í helstu hagkerfum heimsins 2011.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hagvöxtur alls heimsins hafi numið 3,8% á árinu.  Þetta er nokkru lægra en árið áður þegar vöxturinn var 5,2%.  Hagvöxtur heimsins var að mestu borinn uppi af þróunarlöndum.  Vöxtur þeirra var að meðaltali 6,2% en hjá þróuðum ríkjum var hann að meðaltali 1,6%.  Mestur hagvöxtur hjá stærri ríkjum var í Kína en þar var hann 9,2% og á Indlandi 7,4%.  Hagvöxtur í Bandaríkjunum er áætlaður 1,8%, í Þýskalandi 3,0% og í Bretlandi 0,9%.

Árið einkenndist af vandræðum Evruríkjanna.  Skuldavandamál þeirra, niðurskurður og lítill gangur í efnahag drógu niður hagvöxt.  Hagvöxtur var einungis 0,4% á Ítalíu og 0,7% á Spáni en samdráttur var 1,6% í Portúgal og 6,0% samdráttur var í Grikklandi.

Gert er ráð fyrir svipuðum eða heldur verri gangi í efnahagslífi heimsins á þessu ári.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur heimsins verði 3,3% á árinu 2012.  Áfram er gert ráð fyrir miklum vexti í þróunarlöndunum en þar er gert ráð fyrir 5,4% hagvexti.  Sá vöxtur verði enn og aftur dreginn áfram af Kína og Indlandi en búist er við 8,2% hagvexti í Kína og 7,0% á Indlandi. 

Í þróuðum löndum er einungis gert ráð fyrir 1,2% hagvexti.  Bandaríska hagkerfið verði þá með 1,8% vöxt en á evrusvæðinu er gert ráð fyrir 0,5% samdrætti.  Þar er mest um vert að búist er við 2,2% samdrætti á Ítalíu og 1,7% samdrætti á Spáni og ekki nema 0,3% vexti í Þýskalandi og Frakklandi.  Evrópa verður því áfram megindragbíturinn á hagvöxt heimsins.

 

Erlend hlutabréf

Árið 2011 var erfitt á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.  Heimsvísitalan (MSCI) lækkaði um 7,4% á árinu.  Á stærstu þróuðu mörkuðum lækkaði bandaríski markaðurinn minnst en mikilvægasta vísitala hans (S&P 500) stóð í stað á árinu.  Bresk hlutabréf lækkuðu um 5,6%, þýsk um 14,7% og frönsk lækkuðu um 17,0%.  Norræn hlutabréf lækkuðu um 17,7%.  Slæm ávöxtun var á nýmörkuðum en vísitala þeirra lækkaði um 20,4% á árinu.

Mikil óvissa er nú á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.  Stórfelld skuldavandamál nokkurra Evrópuríkja hafa aukið áhættuálag og leitt til almennrar lækkunar á hlutabréfum.  Auk þessa eru blikur á lofti í kínverska hagkerfinu en miklar hækkanir fasteigna hafa m.a. keyrt áfram kínverska hagkerfið.  Óhagstæð þróun þar gæti haft mikil áhrif á alþjóðlega fjármálamarkaði.  Á móti vegur að hlutabréf eru almennt miklu ódýrari en þau hafa verið að meðaltali síðustu áratugi.

 

Erlend skuldabréf

Erlend skuldabréf skiluðu yfirleitt góðri ávöxtun á árinu 2011.  Löng ríkisskuldabréf skiluðu bestri ávöxtun.  Hæstri ávöxtun skiluðu löng bresk ríkisskuldabréf en þau hækkuðu um 16,8%.  Bandarísk skuldabréf hækkuðu um 9,9% en japönsk einungis um 2,3%.  Betri flokkar fyrirtækjaskuldabréfa skiluðu góðri ávöxtun.  Bandarísk hækkuðu um 8,5% en evrópsk um 3,3%.  Misjöfn ávöxtun var hins vegar á hávaxtaskuldabréfum.  Bandarísk hávaxtaskuldabréf hækkuðu um 7,0% en evrópsk lækkuðu um 3,3% sem meðal annars má skýra með skuldavandræðunum í Evrópu.

Horfur eru á góðri ávöxtun áhættumeiri skuldabréfa í ár.  Áhættuálag er enn fremur hátt og að öllum líkindum hærra en eðlilegt er miðað við núverandi horfur í afkomu áhættusamari fyrirtækja.  Hins vegar eru horfur verri varðandi alþjóðleg ríkisskuldabréf.  Ávöxtunarkrafa þeirra er nú mjög lág – lægri en hún hefur verið síðustu áratugi.  Því eru líkur á lágri eða neikvæðri ávöxtun mikilvægustu alþjóðlegu ríkisskuldabréfanna.

 

Gjaldmiðlar

Fremur litlar breytingar voru á gengi gjaldmiðla á árinu 2011 þótt verulegar sveiflur hafi verið innan ársins.  Gagnvart bandaríkjadal styrktist japanska jenið mest eða um 6,1%.  Ástralíudollar styrktist um 1,3%, breska pundið styrktist um 0,9%.  Hins vegar veiktist norska krónan um 1,3% og evran um 2,3% á móti bandaríkjadal.    Meiri munur var á gengi nýmarkaðsmynta.  Mest styrktist kínverska júanið en það hækkaði um 4,9% á móti bandaríkjadal.  Hins vegar veiktist brasilíska realið um 10,7% og indverska rúpían um 15,5% á móti bandaríkjadal.

Mjög erfitt er að spá fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla á árinu 2012.  Einna helst virðist vera samhljómur um að gengi gjaldmiðla nýmarkaðslanda styrkist.  Ástæðan er mikill viðskiptaafgangur í utanríkisviðskiptum þessara landa.  Auk þess styður betri gangur í efnahag þeirra og hærri vextir en í þróuðum löndum við gengi þessara gjaldmiðla.

 

Hrávörur

Ávöxtun hrávöru var misjöfn á árinu 2011.  Best var ávöxtun góðmálma en vísitala þeirra hækkaði um 12,0% á árinu og vísitala orku hækkaði um 9,0%.  Landbúnaðarvörur lækkuðu um 14,2% en mest lækkuðu hins vegar iðnaðarmálmar en vísitala þeirra lækkaði um 20,4% á árinu.